Gleymt lykilorð
Nýskráning
Forsíða

Notendur

Dalurinn
Dalurinn Notandi frá fornöld 1.136 stig

Systur (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Hamingja þín og mín er sem friðsæl nóttin er skartar stjörnublikum á heiðu himinhvolfi. Ástin okkar er sem lindin tæra og djúpa í fjallasal sem fangar hvert stjörnublik úr dimmum himnasölum. Saman sitja þær systur djúpt í hjörtum okkar í samhljóm um alla eilífð umvefja þær sálir okkar.

Tvö ljóð (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Mild og fögur morgunsól mót þér faðminn breiði ég henni ástargeislann fól á veginn þinn lýsi og leiði. Í hjartanu eru vonir og þrár er fæddust í augum mínum. Af gleði féllu fagnaðar tár fái þær speglað sig í augum þínum

Ástúð.// Litla blómið.// (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Vefja skal ég örmum mínum um háls og herðar þínar kyssi votan vanga og veiti þér ástúð mína. Það er lítið blóm á lækjarbakka sem blíðum rómi hvíslar til mín. Angan og fegurð á ég þér að þakka því græðandi er hún ástúð þín.

Heim er best. (2 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Fljúgðu fljúgðu stelpan mín fljúgðu á æskunnar slóðir við erum þar öll og bíðum þín ástin börnin faðir og móðir. þar er allt þitt líf og yndi oftast sæla friður og ró hjá okkur hjarta þitt fyndi hlé frá lífsins ólgu sjó.

Fjallið nr.2 (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Þegar roða skrýddum skýjaklökkum skruggu stormar feykja um tinda, sólstafir ærslast í hömrum blökkum dansspor skugga og birtu mynda. Gesti gilbúans í klakaböndum bjarmi sólar djásnum gylla, þá fjallið eina í vetrarhöndum við anda mannsins vill það dilla

Ef þér líður illa (4 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Það er góður kostur á ögurstund að taka staf sinn og mal, ganga einn á öræfafund og eiga með sjálfum sér einlægt tal. Líta yfir farinn veg frá hæsta tindi fylla sál og líkama nýjum þrótti, úr álögum losnar allt þitt yndi aflið eykst og hverfur ótti.

Tilfinningin og skinsemin (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Værum við betri eða verri manneskjur ef við höguðum okkur eins og ljóðið boðar.Yrði algjört kaos í mannlegum samskiptum. Hvor hefur réttara fyrir sér tilfinningin eða skinsemin. Verðu við að hlusta á þær báðar???? —————————————– Láttu tilfinningar ráða gjörðum þá líður þér vel í dagsins önn. Þær vita miklu miklu betur en skinsemin hvað þér hentar best. Skynsemin heftir þig bara og kvelur og dagurinn líður í grárri veröld.

Opnaðu augun og líttu í kringum þig. (8 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Sérðu lækinn sem sameinast ánni og ána sem fellur í faðm hafsins. Finnirðu vinda himinsins leika sér í faðmlögum hlýjum, máttarvöldin sameina allt líka þig og mig. Fjöllin kyssa himininn og bárur hafsins faðmast hvers virði er það ef þú kyssir ekki mig.

Hríðarbylur (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Til skemmtunar Setti þetta ljóð saman eftir að hafa lesið ljóð Rebekku “Stjörnurnar” og útfærslu Sólufegurri á sama ljóði. Hvað má lesa út úr ljóðinu???? Nú úti æðir hríðarbylur í sortann hverfa bræður mínir hrakinn lítill og lemstraður ég leita skjóls í faðmi þínum faðminum sem á visku og hana heftir.

Hvað er þetta? (3 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Ég þrái það sem þú þráir vegna þess að þú þráir það. Ég sjé það sem þú þráir með þínum augum. Veistu það?

Sálufélagar. (3 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 3 mánuðum
Einn ég gekk í bæinn og heimsótti kaffihús ég hafði ekkert með mér nema minninguna og trega blús. Þar inni var ekkert andlit sem ég þekkti, enginn sála sem deila mætti með sorg eða gleði. Og þó! við borðið í horninu okkar sat andi þinn og horfði í kertaljós. Hann sagði hæ, komdu og sestu og segðu mér frá öllum þínum draumum og sorgum. Ég varð dálitið hissa og pínulítið hræddur settist samt niður og lágum rómi spurði. “Hvað ertu búinn að vera hérna lengi og hvenær og hvaðan komstu eiginlega?”...

Fjallið (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Þegar roða skrýddum skýjabólstrum stormar feykja um hæstu tinda, sólstafir ærslast yfir hamraborgum í eilífðar dansi birtu og skugga, og gilbúanns í úfnum klakaböndum bjarmi sólar frerajötna gylla, þá fjallið fagra í vetrarhöndum ægi fögrum myndum hugann fylla.

Augun (6 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Ef ætti ég í dag að deyja ég drukknaði sæll og sáttur í augum sem við mig segja þú ert yndi okkar og máttur. ////////////////////////////// Augun þín eru björt og blíð býr þar ástin sem til mín skín djúpt í þeim situr sálin fríð sem elska ég heitast ástin mín.

Tárin (8 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Tárin mín geyma minningar minningar um það sem særa, í tárunum eru tilfinningar sem titrandi hjartað blæða. Þau eru dropi í haf örvæntingar og sársauka sem ég óskaði ekki mér, í þeim speglast mínar þjáningar þjáningar sem gista ekki hjá þér. Þögul þau streyma daga og árin þyrsta eftir hlýju og ástúð þinni, hrökkva þó heit eins og hin tárin hjá klofnu hjarta í slóðinni minni.

Án þín er... (2 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Við erum við gluggann og bíðum eftir þér, tíminn stendur kyrr og þögull við hliðina á mér. Án þín er heimurinn svartur og hvítur, æ flýttu þér komdu fljótt og frelsaðu okkur úr svart hvítu tóminu.

Bjarni afi (4 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Þann dag er Bjarni afi með barnahópinn stóð beygður við líkbörur ömmu minnar þá mælti hann þessi æðruorðinn til Þorbjargar konu sinnar. “þá flogin ertu frá frera köldum ströndum í huganum ég er þér hjá á ástarvængjum þöndum”. Önnur urðu orðin ekki af vörum afa þennan dag dauðinn hafði í sína hlekki fjötrað hennar síðasta hjartaslag. Brott nú borin var æskuástin buguðum bónda og börnum hans frá sálina hennar ömmu tók hann drottinn heim í ríkið sitt himnunum á.

Hver er það? (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Á morgnana kemur hún úr fylgsni sínu á daginn hringar hún sig í hjarta mínu á kvöldin ærslast hún í huga mínum á nóttinni sefur hún í augum mínum.

Ökuferðin með Palla og Stínu (4 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Hann var bara sautján hvorki barn né maður veruleikafirrtur ungur strákur. Í heimi tölvuleikja var hann kóngur og bestur allra dráps- manna. Blóðið flaut á tölvuskjánum frá morgni til kvölds fuku hausar og limir í tölvuleikjum. Þá sjaldan hann gerði feil var bara að ýta á Escape og byrja aftur í siðlausum leik?. “Vá er ég ekki bestur í þessum nýja leik klessi alla á þessar líka flottu corvettu”. Daginn sem hann fékk bílpróf var hann töff nú skildi sýna öllum hvernig aka ætti um stræti og...

ÖRÆFIN KALLA. (4 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Ó þið skammsýnu menn hversvegna viljið þið ekki með okkur dvelja njóta frelsis og fegurðar jökla og fjalla, anda að ykkur ilmi grösugra heiðarlenda þar sem vindarnir faðmast og leika sér við blómin smáu. Hversvegna viljið þið ekki hlusta á ljúfa söngva fjallalækja sem óma í tæru öræfalofti, viljið ekki sjá óbeisluð stórfljótin geysast fram til sjávar með þrumugný og iðandi boðaföllum gegnum síbreytilegar litfagrar háar hamraborgir, spegla ykkur með fuglum himinsins í bláum fjallavötnum. Þið...

Dóttir . (5 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Það er lítil rós sem andar sætum ilmi til mín, skyldu aðrir elska hana þegar hún opnar blómin sín. Eða verður bikar hennar tæmdur og sætindin numin á brott, svo sitji eftir brotið hjarta sem nakið harmar örlög sín. Ég skal vernda þig þyrnilausa rós fyrir illum öflum sem vilja særa og meiða. Ekki vildi ég sjá þig fölna á kistu gamals manns né orma nærast á rótum þínum að morgni sumardags. Þú átt eftir að blómstra um mörg ókomin ár fegurð þín og angan munu vekja heitar þrár. Morgundöggin á...

Kvöldmynd (1 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Þegar kvöldsólin roða gyllir ský og dimmsvört fjöllin rjúfa kvöldblámann sem óvíg skjaldborg við sjóndeildarhring. Er svo ljúft að líta út um gluggann minn og horfa á smáar bárur leika sér við hafflötinn, sem speglar nýkveikt borgarljósin í bland við silfrað mánaskin og tindrandi geisla fyrstu stjarna kvöldsins. Inn um gluggann berst til mín síðasta andvarp liðins dags og fagur hugblær í fyrsta andardrætti kyrrðar kvölds, á firðinum fyrir framan húsið mitt.

Morgunmynd (5 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 4 mánuðum
Í austrinu hverfa skuggamyndir hárra hamraborga með síðasta bliki morgunstjörnu ljósin sem skinu svo skært í nótt hverfa eitt af öðru af spegilbláma hafsins. Sem glitofin sæng á svörtum fjörusteinum senda silfursjóðir næturinnar tindrandi geisla á perluskreyttar naktar greinar í fyrsta bjarma morgunsólar.

Fórn metorðarsýkinnar (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 5 mánuðum
Ég gekk um táraskóg í djúpum dal draup blóð af hverri grein úr hæsta tré í þessum sal ómaði trega grátur og angistarvein, frá hjartanu í hégómlegum örvita hal er metorðasíkin hafði breitt í stein.

Hríslan og lækurinn. (4 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 5 mánuðum
Einu sinni var lítil birkihrísla sem bjó langt upp í fjalladal sumar, vetur, vor og haust hún undi sér á lækjarbakka með systrum sínum sjö. Sumardag einn hún spurði lítinn vatnsdropa sem hoppaði úr syngjandi kátum læk hvert farið þið, þú og bræður þínir þegar þið hverfið mér frá? Það skal ég nú segja þér hríslan mín besta og kæra. Við ærslumst og syngjum með læknum alla leið niður hlíðina og út í á. Þar föllum við í faðma okkar stærri og eldri systkina. Síðan hjölum við og leikum saman á...

Draumur (0 álit)

í Ljóð fyrir 21 árum, 5 mánuðum
Ef ætti ég öll himnana klæði færði ég ykkur fátækum börnum, hvern einasta dag, bláar skyrtur og hvítar peysur. Öllum yndislegu stúlkubörnunum ljósrauða kjóla og bleika sokka í fæðingu hvers dags, fjörmiklum strákum, sem vakna allslausir að morgni dags bómullar boli og ljósbláar buxur. Hvað allt yrði auðvelt og fagurt ef spunnið gæti ég náttföt og kjóla úr húminu sem tendrar stjörnurnar tunglið og draumana ykkar.
Hugi notar vefkökur til að bæta notendaupplifun á vefsíðunni og greina umferð um hana. Einnig hefur Hugi uppfært persónuverndarstefnu sína. Skoðaðu stefnuna hér..
Ok