Ó þið skammsýnu menn
hversvegna viljið þið
ekki með okkur dvelja
njóta frelsis og fegurðar
jökla og fjalla,
anda að ykkur ilmi
grösugra heiðarlenda
þar sem vindarnir faðmast
og leika sér við blómin smáu.
Hversvegna viljið þið ekki
hlusta á ljúfa söngva
fjallalækja sem óma
í tæru öræfalofti,
viljið ekki sjá óbeisluð
stórfljótin geysast fram
til sjávar með þrumugný
og iðandi boðaföllum
gegnum síbreytilegar
litfagrar háar hamraborgir,
spegla ykkur með fuglum
himinsins í bláum fjallavötnum.
Þið skammsýnu menn
ættlið þið að svipta okkur
fegursta skarti móður náttúru
drekkja kærustu perlum okkar
á heljardýpi og maka græðgi
mammons yfir ásjónu okkar,
taka frá okkur tign og ósnortna
fegurð sem við viljum eiga
og geta sýnt börnum ykkar
um aldir alda.