Hitt og þetta um mat og hvað sé gott að borða. Oft þegar fólk ætlar að bæta á sig vöðvamassa kemur sú ástæða fyrir því að það takist ekki er að einstaklingurinn hafi of hraða meltingu og því algjörlega ófært að bæta á sig. Það er í langflestum tilfellum bull og þarf sá einfaldlega að borða meira.
Ætla ég að koma með nokkur ráð sem mér finnst hafa virkað vel fyrir mig og má síðan þetta verða að svæði þar sem aðrir geta lagt til fleiri ráð og rætt um.


Hnetusmjör: Mjög góð leið til þess að troða inn auka hitaeiningum. Ég tel nauðsynlegt að það sé „náttúruleg“, þ.e. án viðbætts sykurs eða annarra efna. Eina sem ætti að standa í innihaldslýsingunni er jarðhnetur og salt. Ca. 25g af prótíni, 10g kolvetni og 50g fita (þar sem 40 af þeim eru ómettaðar fitusýrur!) gera þetta að góðum hlut til að blanda með ýmsum hlutum eins og skyri. Einnig er mjög gott að borða það eintómt og skola niður með mjólk.

Hnetur: Alveg yndislegar og ríkar af prótíni, ómettuðum fitusýrum og andoxunarefnum. Möndlur, Kasjúhnetur, jarðhnetur, Pecan-hnetur og valhnetur eru góðar sem millimál og til að fá aðeins meira af orku yfir daginn.

Hafragrautur: Án efa besti morgunmaturinn en oft mjög erfitt að koma niður nógu miklu magni snemma á morgnana. Góð leið er að elda einungis helminginn af höfrunum og um leið og það er tilbúið að bæta hinum helmingnum útá hráum. Út á hafragrautinn er einnig hægt að prófa að setja eitthvað annað útá en mjólk eins og t.d. ávaxtasafa (ekki reynt það sjálfur en á ekki að vera það hrikalegt…)
Einnig er hægt að blanda helling af höfrum í mjólk ásamt mysuprótíndufti og láta standa í nokkrar mínútur. Þá ættu hafrarnir að hafa orðið örlítið mýkri og þægilegra að koma þeim niður.

Egg: Egg er hægt að borða í tonnavís og á ótal vegu. Hrærð, steikt, soðin…you name it! Getur verið leiðinlegt til lengdar en þá er hægt að prófa ýmislegt eins og að hræra saman eggjum, kanil og hnetusmjöri. Mig langar endilega að heyra frá ykkur hvernig það bragðast. Hægt er einnig að kaupa egg, eggjahvítur og eggjarauður í stórum brúsum hjá Garra (fleira gott dót til þar í magnumbúðum).

Vatn: Drekkið nóg af því og síðan aðeins meira. Ef að í harðbakan slær er hægt að drekka u.þ.b. hálfan lítra rétt áður en farið er að sofa. Þegar síðan náttúran kallar og þú þarft að fara á klósettið um miðja nótt er hægt að skella í sig matskeið af hnetusmjöri eða einhverri lítilli máltíð og síðan farið aftur að sofa.
Ég mæli ekki sérstaklega með þessari aðferð þar sem ég tel góðan, og samhangandi, 8 tíma svefn mikilvægari.

Svefn: Svefn er alveg ótrúlega mikilvægur og þó svo að þessi grein eigi að fjalla aðallega um mat þá er þetta það mikilvægt atriði að ég vil hafa það með. Fáðu 7-9 tíma samfelldan svefn í hverju kvöldi og það mun skila sér í mun betra hormónajafnvægi í líkamanum sem stuðlar að betri árangri.

Spergilkál/brokkoli: Inniheldur mikið af Indóli (e. Indole) sem er mjög öflugur estrógen hindri (e. blocker) og eitt mesta magn af „fjöl-fenóli“ (e. Polyphenols) sem finnst í grænmeti. Andoxunarhæfileikar (og eiginleikar til heilsubætingar) Polyphenols eru ótrúlegir. Hægt að lesa meira um það hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Polyphenol_antioxidant .

Spínat: Rannsóknir sýna víst að spínatát getur lækkað líkurnar á næstum öllum tegundum af krabbameini. Ríkt af andoxunarefnum eins og CoQ10 og glutathione gerir spínat að nokkuð öruggum kosti. Almennt má segja að grænt (og þá aðallega dökkgrænt) grænmeti sé eitthvað sem öruggt er að hafa sem meðlæti og eigi að borða daglega.

Baunir: Nýrnabaunir, kjúklingabaunir, pinto-baunir og linsubaunir eru kannski ekki alltaf mest heillandi valkosturinn en hollar og góðar samt sem áður.

Annað: Lýsi er algjörlega nauðsynlegt og finnst mér persónulega best að taka Omega-3 lýsi. (Engin hætta á of miklu A eða D vítamíni). Mjólk er góð, drekkið hana og nóg af henni.

Það vantar augljóslega heilmikið inn á þetta og endilega bætið við ásamt því að deila með ykkur góðum uppskriftum sem henta þeim sem eru að þyngja sig.
“You can't make people smarter. You can expose them to information, but your responsibility stops there.”