Smásaga sem ég skrifaði fyrir stuttu. Þar sem ég er fantasíunörd þá gekk ekki annað en að hafa það þema mitt.

———————-

„Það hafa margir hlutir verið nefndir þegar menn hafa rætt um hvað sé manninum hættulegast. Sumir segja að það séu sandrisarnir sem ráfa um sléttur Nareth, enda fáir sem hafa séð þá og lifað af til að segja frá þeim. Aðrir segja að það séu risasmokkfiskarnir sem ráfa um Miðhaf og hafa sökkt hundruðum skipa frá upphafi sjósóknar. En enginn þeirra hefur rétt fyrir sér.
„Það er einn hlutur sem er sérstaklega hættulegur mannkyni. Hann gefur manninum mátt til þess að skapa og til þess að eyða. Hann gefur manninum völdin til þess að fela og til þess að sýna. Hann getur sýnt fram á hvað er rétt og hvað er rangt. Þekking. Þekkingin getur reist samfélög, en hún getur einnig kollvarpað þeim. Of mikil þekking leiðir til ónáðar guðanna. Og það síðasta sem þú vilt er að falla í ónáð hjá guðunum. Þetta væri almenn vitneskja ef fólk þekkti sögu Ust Nagrat. En enginn veit hana. Einungis þú munt þekkja sögu Ust Nagrat, lesandi kær. En athugaðu að ef þú lest lengra, þá geturðu fallið í ónáð hjá guðunum. Hér er falin þekking sem getur breytt lífi þínu úr rólegu lífi fræðimanns í hið óreiðukennda líf flóttamannsins. Þú getur falið þig undan augum guðanna sem munu fyrir víst reiðast þér fyrir að innbyrða þær upplýsingar sem hér á eftir fara. Ef þú lest áfram ertu að fallast á það að falla í gleymsku, líkt og ég gerði á sínum tíma. Þetta er eina viðvörun þín, lesandi kær.“
Seram dró andann djúpt og reyndi að gera upp hug sinn. Hann hafði komið alla leiðina hingað í leit sinni að sannleikanum. Ef þetta gamla og slitna bréf gaf honum einhverjar skýringar á því sem var að gerast í Anor, hvers vegna ætti hann að hundsa allt sem hann hefur gengið í gegnum hingað til og falla frá lestrinum?
Hann hélt áfram að lesa…
„Ust Nagrat var eitt sinn stórfenglegasta borg Anor. Fólk kom hvaðan sem var að úr heiminum til þess að bera hana augum og til þess að öðlast æðri skilning á henni. En Ust Nagrat var ekki einungis dásamlegt listaverk, hún var einnig miðstöð allrar þekkingar sem þekktist. Hvergi voru fleiri skólar en í Ust Nagrat, bókasöfn borgarinnar kaffærðu íbúa og heimsækjendur hennar í þekkingu, og allir helstu fræðimenn fortíðarinnar lögðu borginni lið við að varðveita alla þá þekkingu sem hægt var að finna í heiminum. Hún var sannkölluð paradís fræðimennskunnar.
„Ust Nagrat var í grunninn byggð upp eins og aðrar borgir landsins. En þrátt fyrir formfasta uppsetningu skar borgin sig úr með fjölbreyttum byggingarstílum og sérhæfðum borgarhlutum. Borginni var skipt í fimm hluta, einn meginhluta og svo fjóra minni hluta sem umkringdu hann. Hver af þessum minni borgarhlutum voru byggðir í kringum sérhæfð bókasöfn. Sérhæfðu bókasöfnin voru fjögur; eitt var athvarf vísindamanna og stærðfræðinga, annað var athvarf mann- og félagsfræðinga, það þriðja var athvarf galdramanna og það fjórða var fyrir sagnfræðinga og listamenn. Hvert bókasafn um sig hafði, fyrir utan óhugsandi magn bóka og bréfa um efnið sem það sérhæfði sig í, dvalar- og vinnuaðstöðu fyrir fræðimenn og rithöfunda. Skólar risu upp í kringum bókasöfnin og þannig var þekkingunni úthlutað til fólksins.
„Krúnudjásn Ust Nagrat var aðalbókasafnið. Það var byggt upp líkt og víggirtur kastali með djúpu sýki í kring. Verðir stóðu uppi á veggjum þess allan sólahringinn og sáu til þess að enginn óviðkomandi kæmist inn. Þótt það væri opið almenningi voru stórir hlutar þess lokaðir fyrir öllum nema háttvirtum fræðimönnum. Sérstök sveit varða var skipuð til þess að verja þessa hluta bókasafnsins og var frumskilyrði að þeir þyrftu að vera ólæsir, en til þess að tryggja það þurfti að kalla til galdramenn til þess að útmá lesskilning úr þekkingarlista þeirra. Það var því séð til þess að sú þekking sem var læst þar inni myndi aldrei falla í hendur óviðkomandi aðila. Þrátt fyrir frjálst upplýsingaflæði í borginni var til þekking sem ráðgjafar konungs, hin raunverulega stjórn landsins, töldu vera „of hættulega“ í höndum, eða hugum, almennings.
„Og þar erum við aftur komin að kjarna málsins, þekkingunni. Þekkingu fylgir hrokinn, og hrokinn verður manninum alltaf að falli, með einum eða öðrum hætti. Aukin þekking leiðir til hærri takmarka. Græðgin í þekkingu er sú sama og græðgi í völd; sá sem býr yfir þekkingunni býr yfir völdum. Og enginn býr yfir meira valdi en guðirnir. Með aukinni þekkingu töldu menn að þeir gætu nálgast guðdóm. Hrokinn kynti undir græðginni, og græðgin varð þeim að falli. Hér á eftir er ástæðan fyrir því gróflega rakin.
„Fyrir rúmlega þrjú hundruð árum kom í borgina ókunnur fræðimaður, illa á sig kominn. Hann nefndi sig Amir og sagðist vera frá fjarlægu landi í suðri, handan Miðhafs og jafnvel handan eyðimerkurinnar sem þekur landið sunnan þess. Hann hafði með sér þrjár gamlar bókrollur sem hann sagðist hafa áskotnast í fornu bókasafni sem hann gróf upp úr eyðimörkinni með bróður sínum Kaer. Amir varði þessar bókrollur með klóm og kjafti gagnvart aðilum sem hann vissi engin deili á. Hann ferðaðist þvert yfir heiminn til þess að koma þekkingunni sem falin var í eyðimörkinni til skila. Hvað þessar bókrollur höfðu að geyma vita fáir, en það var eitthvað við þær sem vakti athygli yfirvalda. Leiðangur var sendur suður til þess að sækja fleiri bókrollur, en einungis hluti hans kom aftur til baka mánuðum síðar. Þeir sem komust lífs af höfðu glatað hæfileikanum til að tjá sig og gátu hvorki talað né skrifað um hvað þeir hefðu lent í. Brjálæði plagaði þessa menn og þeir ýmist hurfu, frömdu sjálfsmorð eða voru settir á hæli. Þeir höfðu fórnað eigin geðheilsu til þess að bera öðrum þekkinguna sem leyndist syðra.
„Aðalsafninu var lokað fyrir almenningi og fellibrúin sem tengdi hana við umheiminn var reist upp. Hún var ekki dregin niður svo mánuðum skipti nema til þess að flytja þeim sem inni voru nýjar vistir. Andrúmsloftið í borginni breyttist úr því að vera hið ferska loft nýrrar þekkingar í eitthvað mun þungbúnara. Margir borgarbúar gengu svo langt að segja að eitthvað illt væri í vændum, og sumir þeirra fluttust á brott. Þeir sem svo gerðu voru þeir heppnustu. Flestir lifðu ekki af atburðina sem á eftir komu.
„Fimm mánuðum eftir að aðalsafninu var lokað gerðist eitthvað sem verðskuldaði íhlutun guðanna. Og þetta eitthvað varð ekki til þess að gleðja þá. Jörðin klofnaði undir borginni og eldi og brennisteini rigndi af himnum ofan. Óklífanlegur, hringlaga fjallgarður, sem nú er þekkt sem Tannfjöll, reis upp úr landinu um kring og umlukti stórt landsvæði í kringum borgina. Vegir sem áður lögðu að henni hurfu inn í rætur Tannfjalla og þau býli sem stóðu við rætur fjallgarðsins samlögðust honum. Minningu alls mannkyns var breytt á einni nóttu – og frá og með þeim degi var líkt og Ust Nagrat eða íbúar borgarinnar hefðu aldrei nokkurn tímann verið til.
„Þú ert líklega að velta því fyrir þér hvernig þessar upplýsingar skiluðu sér til mín, lesandi kær, ef saga Ust Nagrat var þurrkuð úr minni alls mannkyns. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í það, en eitt gef ég þó upp: Flugur leynast alls staðar. Jafnvel meðal guðanna.
„Það sem þú hefur lesið hér inni er meðal margra hluta sem guðirnir fela fyrir mannkyninu, dauðlegum afkvæmum þeirra. Þessari þekkingu sem þú hefur öðlast fylgir ábyrgð sem þú verður að axla. Það er undir þér komið að ljúka því verki sem ég hóf. Þessu bréfi fylgja ítarlegar leiðbeiningar um hvernig komast skal að rústum borgarinnar týndu. Margir hafa látið lífið við að ná þeim upplýsingum. Ekki gera lítið úr þeirra starfi.
„Vegni þér vel. Karan Geratti.“
Seram skimaði yfir fylgiskjölin. Lítið kort og þykkt umslag, líklega leiðbeiningarnar sem Karan minntist á í skjalinu. Ískur heyrðist í hleranum fyrir aftan Seram og hann sneri sér snögglega við, með hönd á hnífnum góða og skimandi eftir sóknargöldrum.
Það var sú gamla.
„Fannstu það sem þú leitaðir að?“ spurði konan. Seram fann vott af velvild í rödd hennar. Grunur hans reyndist á rökum reistur. „Væri ekki best ef þú kæmir niður og snæddir með okkur? Það er ansi kalt hér uppi á lofti, ég efast um að litli lampinn hafi gefið þér það ljós sem þú þurftir til þess að vinna þitt verk, og hvað þá tekist að hlýja líkamanum.“
Seram þakkaði fyrir sig og sagðist munu þyggja boðið. Gamla konan hvarf úr hleranum og Seram tíndi allt sem hann hafði rekist á í leit sinni ofan í bakpokann sinn.