Á hæðinni ofan við sendiráð lands í fjarskanum sat kona. Hún starði út í
loftið, og tuggði tyggigúmmí. Á henni hvíldu allar áhyggjur heimsins.
Hún hafði áhyggjur af fjármálunum, því hún átti næstum enga peninga, og
um hver mánaðarmót hlóðust reikningarnir inn um bréfalúguna, eins og
foss fullur af hvítum flúðabátum. Hver reikningurinn öðrum hærri, og aldrei
var upphæðin sem kom í litla launaumslaginu nógu há til að standa
straum af útgjöldum heimilisins. Hún vann í mörgum vinnum til að reyna
að ná endunum sem næst hver öðrum, en aldrei tókst það nægilega vel.
Svo jukust áhyggjurnar auðvitað með vinnunni, en hún þurfti að leggja
mikið á sig til að hagræða vinnutímanum svo hún hefði tíma fyrir allt sem
hún þurfti að gera. Svo var hún þriggja barna móðir. Einhvern tíma þurftu
litlu englarnir hennar mömmu sinnar að sjá hana. Ekki var mikið gagn í
föðurnum, sem stakk af þegar það yngsta var nokkurra mánaða. Börnin
þurftu líka að borða.
Hún hafði áhyggjur af foreldrum sínum, sem voru orðnir gamlir og slitnir og
lasnir og hver veit, kannski dauðvona. Hún hafði miklar áhyggjur, enda
þurfti hún að standa straum af kostnaðinum við dýrar læknismeðferðir og
uppihaldi á fínu elliheimili, og ekki var mikið gagn í systkinum hennar.
Hún hafði ofboðslega miklar áhyggjur af elstu dóttur sinni, sem virtist vera í
slæmum félagsskap, og hrikalega vondum málum með ýmislegt. Nýi
kærastinn hennar var ósköp skuggalegur.
Já, hún var virkilega áhyggjufull.
Svo voru fréttirnar auðvitað smekkfullar af endalausum áhyggjuefnum,
sem hjálpuðu minna en ekkert til.
Já, hún var ofboðslega áhyggjufull.

Svo sat hún uppi á hæðinni ofan við sendiráð landsins í fjarskanum, og
hafði áhyggjur. Og svo andvarpaði hún. Hún andvarpaði öllum áhyggjum
sínum. Hún andaði út öllum fjárhagserfiðleikum, öllum foreldraáhyggjum
og öllum áhyggjum af börnum sínum. Hún andaði frá sér öllum áhyggjum
af heimsmálunum, öllum vondum tengdasonum og öllu hinu. Hún blés og
blés, andvarpaði og andvarpaði.
Fólkið sem gekk fyrir neðan hæðina hélt að það væri að koma rok. Enginn
skildi af hverju vindurinn angaði af hvítlauk. Kannski væri einhver að grilla
uppi á hæðinni. Enginn sá þó neitt, nema litla konu, sem var farin að
blána í framan.
Enn andvarpaði hún, öllum sínum vandamálum. Andi hennar og
munnvatn buldi á rúðum sendiráðsins, og sendiráðsstarfsmenn störðu
forviða út um gluggana upp hæðina, á litlu konuna, sem virtist vera orðin
enn minni, en það var trúlega bara bleytan á gluggunum sem olli því.
Og enn blés hún, þangað til hún var viss um að ekkert loft gæti mögulega
verið eftir í henni; og svo enn meira. Hún blés og blés og blés, eins og
stóri ljóti úlfurinn. Og vindurinn ágerðist bara ef eitthvað var. Eftir smá
stund fóru þakskífur að losna af sendiráðinu. Þær flugu yfir götuna, og
sumar lentu á gangandi vegfarendum, sem bölvuðu í hljóði.
Konan uppi á hæðinni andaði meira og meira frá sér, og eftir smá stund
fóru sprungur að koma í rúðugler sendiráðsins, og skömmu síðar brotnuðu
gluggarnir, einn af öðrum. Sendiráðsstafsmennirnir hlupu frá
gluggaveggnum, og yfir hinn endann á húsinu. Margir afsökuðu sig og
flýttu sér út, og heim á leið.
Nú fóru brestir að myndast í steypunni í sendiráðsveggjunum, og ekki leið
á löngu þar til allt heila klappið fauk um koll.
Áhyggjurnar fuku hraðbyri út fyrir varir konunnar á hæðinni, og fuku út í
veður og vind. Hún varð blá í framan, síðan smátt og smátt fjólublá með
smá grænu ívafi, og að lokum kolsvört. Ekkert lát varð þó á bylnum sem út
úr henni streymdi, og um leið létti henni ósegjanlega, þótt hún gæti ekki
andað.
Og nú var hún líka sjálf farin að taka eftir því. Hún var að skreppa saman.
Samt hafði hún engar áhyggjur af því. Og hefði hún haft þær hefðu þær
hvort sem er fokið strax út í veður og vind. Hún var farin að hlægja
hálfgerðum gleðihlátri, sem var samt meira fliss, eða einhverskonar skrýtin
fráöndun, með glettnisívafi. Hún vissi það ekki, og var auðvitað alveg
sama.
Nú voru áhyggjurnar alveg að hverfa, og hún var líka alveg að hverfa.
Hún var ekki mikið stærri en eldspýta, og var að hverfa í grasið. Hún hló
samt hærra en nokkru sinni fyrr, og hlátur hennar bergmálaði um götuna,
og fólkinu í kring var alveg hætt að standa á sama. Því fannst þetta allt
saman hálfdraugalegt.
Nú voru næstum engar áhyggjur eftir, og konan var orðið á stærð við
títuprjónshaus. Hún beljaði út úr sér hlátrinum, sem bergmálaði um alla
borgina, og vindurinn var kominn yfir fjörutíu metra á sekúndu. Hún hló og
hló, blés og blés og minnkaði og minnkaði, þar til hún kafnaði, hvarf, og
rokið hætti loks
Og þá var hún loksins laus við allar áhyggjur.
We're chained to the world and we all gotta pull!