Elf
Leikstjóri: Jon Favreau

Aðalleikarar:
Will Ferrel
James Caan
Zooey Deschanel
Bob Newhart
Mary Steenburgen

Jæja nú þegar farið er að nálgast jólin þá finnst mér að nú megi fara að koma mikið kvikmyndagreinum sem tengjast jólunum á einhvern hátt. Tók mig til og skrifaði grein um Elf sem inniheldur einn fyndnasta mann leikaraheimsins að mínu mati, Will Ferrel.

Ég sá Elf fyrst í kringum seinustu jól og fyrir myndina var ég voðalega spenntur. En þegar komið var inn í salinn dó gleði mín alveg þegar ég heyrði íslenskuna hljóma í eyrunum á mér.
Fyrir vikið var ég pirraður alla myndina því að ég hafði mér ekki ætlað sjá talsetta mynd og ekki bætti það nú úr skák að heyra Will Ferrel tala með röddu Felix Bergsonar, verra verður það ekki.
En nú fyrir stuttu leigði ég Elf og gekk þá úr skugga um að myndin væri alveg örugglega ekki talsett. Og viti menn, myndin bættist um heilan helling.

Myndin Elf segir af manneskjunni Buddy sem býr á norðurpólnum. Þegar Buddy var ungabarn rataði hann ofan í gjafapoka jólasveinsins. Þegar myndin sjálf tekur sér stað er hann orðinn fullorðinn maður og telur sig vera álf við störf á norðurpólnum, þó svo að hann sé mun stærri heldur en hinir raunverulegu álfar.

Þegar Buddy kemst að því að hann er í raun maður og að hann eigi blóðfaðir í New York leggur hann upp í langa ferð til Bandaríkjanna. Buddy er ekki vanur borgarlífinu og þess vegna er gaman að fylgjast með ævintýrum hans í New York. Myndin byggist á þeim ævintýrum og að sjálfsögðu jóla andanum.

Sviðsmyndirnar eru verulega skemmtilegar og þá sérstaklega á norðurpólnum. Notast þá myndin ekki við venjulegar sviðsmyndir heldur líta snjókallar og þess háttar dálítið út eins og leirkallar, sem gefa myndinni bara skemmtilegri jólablæ. Það má sama segja um restina af tæknilegum atriðum myndarinnar, allt skemmtilega uppsett.

Húmorinn tel ég vera jafnt fyrir unga sem aldna. Held að ekki margt fari á mis við börnin og hinir fullorðnu ættu einnig að hafa gaman af því sem börnin hafa gaman af. Þó hefði ég viljað sjá aðeins meira af gríni í myndinni. Helst þá fleiri fyndnari atriði þar sem Ferrel sýni sínar bestu hliðar. En þar sem Elf er mynd gerð fyrir alla aldurshópa, þá er þetta ekki staður fyrir Ferrel að sýna þær hliðar á sér. Samt Will Ferrel er fyndin sem ávallt og er ég viss um að myndin hefði ekki orðið söm án hans. Karakterinn hans er fyndinn en Will Ferrel sem persóna er bara mun fyndnari.

En þegar öllu er á botninn hvolft ætt flestir að hafa gaman af myndinni. Ég myndi ekki setja Elf í sama gæðaflokk og The Nightmare Before Chrismas en Elf er líklega besta jólamynd sem ég hef séð síðan NBC kom út.