Ég skellti mér á frumsýningu Hannibal í kvöld. Eitt er víst, engar myndir munu vera jafnspennandi á þessum ársfjórðungi. Eins og sumir vita, þá er Hannibal framhaldið af hinni frábæru mynd Silence of the Lambs. Í henni hjálpaði hann lögreglukonunni Clarice Starling við að góma hættulegan morðingja, en slapp undan lögreglunni með illsku og viti sínu.

Í Hannibal er hann ekki síður vitrari (annað en það sem ScOpE sagði). Myndin er vægast sagt lúmsk, mjög áhugaverð, og jafnframt ógeðsleg.
Í myndinni fylgjumst við með henni Clarice (Julianne Moore) leita að mannætunni Hannibal “the Cannibal” Lecter (Anthony Hopkins) og jafnframt leitast við að hreinsa mannorð sem hún fékk. Fjórða fórnarlamb Lecters, og það eina sem slapp lifandi, gefur Clarice vísbendingar um Hannibal og eiga þær eftir að gagnast henni í leitinni. Hann virðist vera í Florence á Ítalíu í þetta skiptið, en til að vita meira verðið þið einfaldlega að sjá þessa mynd.

Myndin er kannski ekki ógeðsleg í augum sumra, en þeir eiga örugglega eftir að skipta um skoðun þegar á líður. Leikur Anthony Hopkins er óaðfinnanlegur og gefur ekkert eftir leik sínum í Silence of the Lambs. Julianne Moore er líka alveg ágæt, en skemmtilegra hefði verið ef Jodie nokkur Foster hefði tekið að sér sama hlutverk og hún var með í fyrri myndinni. Myndin er virkilega vel gerð, ein af bestu myndum Ridley Scott, og hefur allt annað yfirbragð heldur en Gladiator, sem hann leikstýrði seinast.

Ef gefa á einkunn fyrir hana, þá er ég ekki frá því að gefa henni 9.5, enda mjög góð mynd, en langt frá því að vera fyrir þá sem eru veikir fyrir hjarta eða þá sem að fundust Silence of the Lambs einum of ógeðsleg.

The almighty Helm