Nýr Faramir... Í gærkveldi barði ég augum The Two Towers. Eins og líklegt þótti var það yndislegt og myndin frábær í alla staði. Líkt og í Fellowship of the Ring brá P.J. sér þó nokkuð út af upprunalega söguþræðinum. Þar ber einna helst að nefna fall (og yfirleitt þátttöku) Haldír í bardaganum við Helm's Deep.
Meira þótti mér sjálfum þó um breyttan Faramir. Í myndinni kemur fram Faramir sem er nokkuð ólíkur þeim er fram kemur í bókinni. Hér er hann látinn stjórnast að nokkru af föður sínum og ósk sinni um að framfylgja vilja hans. Hann er þó göfugur innra með sér og lætur að lokum segjast eftir að hafa dregið þá félagana Frodo og Sam alla leið til Osgiliath.
Þetta er þó að vissu leyti sniðugt af P.J. að sýna okkur Faramir svona. Með þessu nær hann að sýna okkur persónuleikann sem Faramir hefur að geyma á nokkuð stuttum tíma. Faramir sýnir göfugleik sinn með því að hrifsa ekki hringinn til sín og nota hann sjálfur Gondor til framdráttar. Frekar vill hann senda hringinn til föður síns. Bæði sýnir þetta óeigingirni hans og muninn á stöðu hans og Boromir gagnvart föður þeirra. Mér finnst P.J. slunginn á þennan máta, einhvern veginn tekst þeim handritshöfundunum að blanda og breyta þannig að sem mest komist til skila. Mér fannst mikilvægt að benda á ástæðuna fyrir þessum breytingum til þess að koma í veg fyrir að fólk færi að fárast út í þetta…