Endurskoðun stjórnarskrárinnar Hérna koma nokkrir punktar um endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvað mér finnst að eigi að laga og koma nýtt inn.

1. kafli
Í fyrsta kafla er kveðið á um að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn og um þrískiptingu ríkisvaldsins.
Þetta finnst mér engin spurning vera um að þurfi að skerpa á. Fjölmörg dæmi að undanförnu hafa sýnt að hinir þrír þættir ríkisvaldsins eru að dragast nær hvor öðrum og framkvæmdarvaldið er orðið allt of öflugt. Leiðir til lausnar eru fjölmargar og kem ég með nokkrar lausnir:

1. Setja á ákvæði um að ráðherrar segi af sér þingmennsku um leið og þeir taka við ráðherraembætti og taki varamaður þeirra við. Ráherrar muni þó áfram hafa málflutningsrétt fyrir Alþingi. Þetta finnst mér nauðsynlegt til að Ísland geti verið með þingbundinni ríkisstjórn, því annars er það eiginlega stjórnarbundin stjórn.

2. Dómsmálaráðherra mun ekki lengur skipa hæstaréttardómara. Hef ég ekki velt því mikið fyrir mér hvernig þeir skuli skipaðir en finnst mér koma til greina að hafa nefnd sem sæi um útnefninguna. Í nefndinni gætu átt sæti dómsmálaráherra, forsætisráherra, forseti Alþingis, forseti hæstaréttar og tveir aðrir hæstaréttadómarar. Sex manna nefnd bara svona t.d. Þannig væri aukið sjálfstæði hæstaréttar til muna.

2. kafli
Annar kafli laganna fjallar um forseta Íslands og þær skyldur sem hann gegnir.

Ég er eiginlega kominn á þá skoðun að ekki eigi að leggja forsetaembættið niður. Hins vegar finnst mér vel hugsanlegt að afnema málskotsrétt þann er kveðið er á um í 26. gr laganna. Þetta verði gert til að undirstrika það hlutverk forsetans sem sameiningartákn þjóðarinnar.
Í staðinn fyrir málskotsréttin mundi koma aðrar leiðir til að vísa lögum til þjóðaratkvæðis.
1. Ákveðið hlutfall kjósenda (t.d. 10-15%, miðað við núverandi fjölda 20-30 þúsund manns) gæti þvingað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál með undirskriftum.
2. Þriðjungur þingmanna getur vísað máli til þjóðaratkvæðis. Svipað ákvæði er í Danmörku frekar en Noregi.
3. Ríkisstjórnin getur með atkvæði meirihluta ráðherra vísað málum til þjóðarinnar. Þetta mundi líklega ekki skipta miklu þar sem hér eru alltaf meirihlutastjórnir en gæti gerst ef ráðherrar vikju af þingi.

Einnig mætti velta fyrir sér hvort afnema eigi rétt forsetans til að rjúfa þing. Ég skil ekki alveg af hverju þessi réttur er og ætla því ekki að dæma um það

3 og 4.kafli
Kaflar 3 og 4 fela í sér reglur um Alþingi og kosningu þess. Efast ég um að mikil deilumál muni rísa vegna þessarra kafla. Þar er aðallega kveðið á um hvernig Alþngi er kosið og skyldur, s.s. fjárlagagerð. Þó tel ég mikilvægt að breyta 31. greininni. Þar er kveðið á um kjördæmaskipan og fleira. Breytingar sem ég vil sjá:
1. Landið verði sameinað í eitt kjördæmi. Það mun gera litlum flokkum og minnihlutahópum mun auðveldara fyrir að komast inná Alþingi. Þannig væri maður öruggur með sæti ef maður fengi 1,59% atkvæða. Miðað við núverandi fyrirkomulag þarf maður að fá a.m.k. 5% atkvæða yfir landið eða enn meira í einu kjördæmi.

6 og 7.kafli
Þetta eru mannréttindakaflar laganna. Sjötti kaflinn fjallar um trúfrelsi en sá sjöundi um önnur mannréttindi auk þess sem kveðið er á um hvernig breyta má stjórnarskránni. Þetta eru fæst mikil álitamál og eru aðallega um grundvallarmannréttindi, sem helst þyrfti að snýða betur að nútímanum.

1. Í 62.gr segir að evangeliska lúterska kirkjan sé þjóðkirkja Íslendinga og skuli ríkisvaldið styðja hana. Þetta atkvæði finnst mér að eigi að afnema og hér verði opinbert trúfrelsi. Ekki eigi að gera evengalisku lútersku kirkjunni hærra undir höfði en öðrum kirkjudeildum, hvort sem þær eru kristnar eða ekki.

2. Greinar eins og 71.gr, 2.mgr (Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra) og 73.gr, 2. mgr (Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu alsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum) finnst mér að eigi að afnema eða breyta mikið því tjáningafrelsið eru æðstu réttindi hvers manns og má ekki undir neinum kringumstæðum skerða, nema í mesta lagi brýnir almannahagsmunir liggji við og þá aðeins til bráðabirgða.

3. Í 79.gr segir að Alþingi þurfi að samþykkja breytingar á stjórnarskránni tvisvar með kosningum á milli og skuli það rofið um leið og samþykktar hafa verið breytingar.
Þessu finnst mér að þurfi að breyta svo samfara kosningu til þings verði kosið um stjórnarskrábreytinguna því hitt er með eindæmum ólýðræðislegt. Því þó maður sé kannski sammála einum flokki varðandi stjórnarskrána getur maður verið ósammála honum í öllum öðrum málefnum.

Ég vona að þið hafið haft gaman af lestrinum og vonast eftir líflegum og málefnalegum umræðum um þetta.
“I'd love to go back to when we played as kids,