Ef þig vantar innblástur fyrir ævintýri, persónu eða hvað sem er þá er, að mínu mati, þjóðráð að leysa úr læðingi undirmeðvitundina og sleppa lausum draumum þínum og martröðum á blað.

Til að gera það má t.d. nota þessa aðferð, sem súrrealistarnir (upprunalegi hópurinn þ.e.a.s.) notuðu og var þróuð af André Breton, forsprakka þeirra.

Sestu niður með blaðbunka (helst a.m.k. 10 stykki) fyrir framan þig og penna í hönd.

Byrjaðu að skrifa.

Skrifaðu einfaldlega það fyrsta sem þér dettur í hug, jafnvel þó það sé bara það að þér detti ekkert í hug.

Haltu áfram að skrifa, stanslaust, sama hvað kemur fram.

Reyndu svo að tæma hugann, jafnvel að leiða hann eitthvert allt annað.
Þú getur t.d. farið yfir það í huganum hvað þú þarft að gera í dag og/eða á nætu dögum, hugsað um vinnuna/skólann eða jafnvel bara um hvað snjórinn og rokið eru pirrandi saman.

Smám saman mun þér takast að leiða hugann algerlega frá skrifunum en höndin þín heldur áfram að skrifa, þér óafvitandi.

Loks verður þú búinn með blöðin, eða skyndilega uppgötvar að þú hefur skrifað stanslaust í
hálftíma en veist ekkert um hvað.

Þá geturðu tekið blöðin og skoðað hvað þú hefur gert.

Stundum koma fram heilu sögurnar, stundum bara furðuleg setningarbrot og stundum bara litlar teikningar eða óskiljanleg tákn.

Þá ferðu í gegnum öll blöðin og týnir til það sem þér finnst nothæft, spennandi, forvitnilegt eða jafnvel bara óskiljanlegt en þó heillandi, hinu hendirðu.

Allt þetta getur þú svo notað til að kynda upp í ímyndunaraflinu.

Kannski verður óskiljanlegt táknið að þraut í spunaleik, eða skrítið setningarbrot að kveikju að persónuhugmynd, eða jafnvel að þú hafir skrifað upp heilt ævintýri án þess að gera þér grein fyrir því.


Þetta er alls ekki auðvelt að venja sig á að gera, og oft þarf margar tilraunir áður en þetta tekst, en þegar þetta tekst er það óskaplega gaman.

Hugmyndin á bakvið þessa aðferð er sú að ef þú nærð að leiða hugann algerlega frá skrifunum þá mun undirmeðvitundin halda áfram að skrifa fyrir þig. Súrrealistarnir voru sérlega heillaðir af undirmeðvitundinni því þeim fannst það sem þaðan kom í raun vera sannara en það sem hin meðvitaði hluti hugarins setur fram, því undirmeðvitundin ritskoðar ekkert heldur er hrein og óbeisluð tilfinning eða sköpun. Það þarf svo vissulega að beita meðvitaðri hugsun til að koma hlutum í samhengi og hreinsa þá til en skemmtilega ótrúlegir hlutir koma stundum fram með þessu móti.

Hér eru nokkur dæmi um hluti sem ég hef skrifað á þennann hátt og notað.

Setningarbrot (skrítin, en urðu oftar en ekki kveikjur að einhverju):
“tómur kertalogi og svartir fingur”
- þetta varð að litlu ljóði sem er óklárað og óhæft til birtingar (þar sem ég er hræðilega lélegur ljóðsmiður)

“skuggaslæður umvefja barnið”
- þetta varð kveikjan að WOD ævintýri þar sem ungt barn gekk aftur og hefndi móður sinnar, segi ekki meira því ég á eftir að stjórna því.

“blámyrkt engið og svefnvona ljósastaur”
- þetta varð hluti af staðarlýsingu í smásögu.

“hversdagsleikinn springur við þúsund trompet sem baða mig í dýrðarljómanum”
- þetta notaði ég líka í tilraun að ljóðagerð

“blóð um munninn og stafinn, haltrandi, aldraður og grimmur”
- þetta varð kveikjan að persónu í Vampire, ónotuð enn sem komið er.

Ég skrifaði t.d. uppkast að nóvellu í svona skrifum, ég mun ekki deila hugmyndinni með ykkur eins og er, en ég vinn nú að því að skrifa þá sögu.
Sama má segja um leikrit sem ég vinn líka að þessa dagana.

Endilega prófið þetta og deilið með okkur hinum hvað kom fram :)
“I'm not young enough to know everything”