Undanfarin ár hef ég starfað sem kennari. Þetta árið tók ég upp á því að bjóða upp á spunaspil sem valfag. Mér til mikillar undrunar var áhugi fyrir því og hefur verið hægt að halda úti grúppu.

Ég hef hingað til bara kennt þeim að spila D&D, enda ágætt kerfi svona til að byrja á, þrátt fyrir ýmsa ókosti sem verða ekki tíundaðir hér. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, í dag hittast þessir einstaklingar einu sinni í viku fyrir utan skóla og spila saman. Það sem meira er, fleiri hafa bæst í hóp þeirra, því það fréttist fljótlega út hve gaman þetta er.

Ástæðan fyrir ég nefni þetta hér er einföld. Hvers vegna er ekki boðið upp á þetta víðar? Við Helgi héldum fyrirlestra fyrir kennaranema og bókasafnskennara síðasta vetur og reyndum að kynna þetta sem möguleika fyrir þeim. Fæstir kennarar, að ég tel, hafa nokkuð vit á því út á hvað spunaspil ganga og eiga þar af leiðir erfitt með að kenna það.

Ég er samt viss um, að auðvelt væri að fylla hópa í valfagi sem þessu í hvaða grunnskóla eða framhaldsskóla á landinu. Hvers vegna hefur þá ekki verið boðið upp á þetta víðar? Ég hvet alla spunaspilara til að kalla eftir því að boðið verði upp spunaspil sem valfag. Af hverju ættu knattspyrnuiðkendur, balletdansarar eða flautuleikarar að fá sitt áhugamál eða áhuganám metið en spunaspilarar, sem sinna sínu áhugamáli engu síður, ekki? Auðvitað má rekja ástæðuna til þess að hitt er viðurkennt nám en spunaspil ekki. Og þarf ekki að breyta því?