Sögur eru búnar til úr orðum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Hinsvegar er alls ekki sama hvaða orð eru notuð.

Í þessum pistli vil ég benda á gildi þess að vera sértækur í orðavali og lýsingum.

Íslenska er ríkt mál af orðum og oft eru til mörg samheiti fyrir orð. Maður sem gengur eftir götu kemst alveg jafn mikið frá punkti A til punkts B og sá sem arkar, strunsar, drallar, lullar, spásserar eða ranglar. Auðvitað er hægt að segja að maðurinn gangi hægt í staðinn fyrir að hann rölti. En af hverju að nota tvö orð ef þér nægir eitt? Og þetta eina orð segir aðeins meira. Í mínum huga er sá sem röltir einhver sem er glaður, nýtur veðursins eða umhverfisins. Ef skap hans kemur málinu við þarf kannski að útskýra það betur en orðið getur stutt við (og þarf að styðja) þá lýsingu sem á eftir kemur.

Það er líka gott að vera sértækur í lýsingum. Þótt það að Anna klæði sig í rauða strigaskó segi eitthvað um fatasmekk hennar segir það að Anna hafi klætt sig í rauða Converse strigaskó, ennþá meira um hana, að því gefnu að lesandinn viti hvað Converse strigaskór eru.
Smáatriði á borð við þetta skipta máli. Þau styðja við persónusköpunina og gera frásögnina trúverðugri og líflegri.

Skoðum dæmi. Hvort er betra:

A
Þegar Jón kom heim fór hann inn í herbergið sitt að læra heima.

B
Þegar Jón kom heim drattaðist hann inn í herbergið sitt til að klára heimadæmin í stærðfræði fyrir morgundaginn.


Eins og með margt annað er hægt að ganga of langt í sértækninni. Það er auðvelt að tapa sér í algjörlega óþörfum og gangslausum smáatriðum:

C
Þegar Jón kom heim setti hann löturhægt annan fótinn fram fyrir hinn á leiðinni inn í herbergið sitt til þess að reikna dæmi 24-30 í þriðja kafla í grænu Stæ103 bókinni eftir Halldór Ólafsson fyrir morgundaginn.


Ég man að þegar bókin Makalaus var tekin fyrir í Kiljunni fannst Þorgerði alveg óþarfi að vita hvaða tegund af húðmjólk aðalpersónan notaði.

Mér var líka bent á það að í Twilight notar Stephenie Meyer sárasjaldan „sagði“ til þess að merkja beina ræðu. Hún notar orð eins og hvíslaði, kallaði, muldraði, spurði, svaraði, andvarpaði o.s.frv. Þessar sagnir eru sértækari og meira lýsandi en „sagði“ en allt verður þreytandi til lengdar. Stundum er einfaldleikinn bestur.
Forever is such a long, long time and most of it hasn't even happened yet.