Þetta er nú eiginlega frekar örsaga en smásaga. Upprunalega var þetta reyndar hugsað sem einhvers konar prósaljóð en gekk samt ekki inn á ljóðaþráðinn hér á Huga. Svo nú prófa ég að senda þetta hér inn. Mig langar nefnilega að fá álit á þessu. Þetta var skrifað þegar ég var 14-15 ára gömul og ég hef aðeins sýnt það einni manneskju þar til nú.


Af einhverjum ástæðum vaknaði hún um miðja nótt. Hún fór á fætur, gekk niður stigann og staðnæmdist fyrir framan stóra spegilinn í holinu. Þar stóð hún og horfði í hann drykklanga stund. Undir morgun fór hún aftur upp í herbergi sitt og féll í svefn.
Nótt eftir nótt endurtók þetta sig; hún vaknaði, gekk að speglinum og stóð þar sem í leiðslu. En hún sá ekki mynd sína í honum heldur allt það sem hana hafði dreymt. Marmarahallir, gull og græna skóga, fjölda fólks sem laut vilja hennar í einu og öllu. Allt var það henni svo framandi og heillandi að hún fékk ekki slitið sig frá því.
Að lokum varð freistingin henni um megn. Hún rétti fram höndina og snerti við því sem hún sá í speglinum stóra. Hún fann að nú varð ekki aftur snúið og því gekk hún inn í draumaheiminn. Henni var ákaft fagnað og líf hennar varð eins og draumurinn, allt gekk henni í hag.
Þó fylltist hún smám saman tómleika, vonleysi. Hún vildi nú snúa til baka en leiðin var lokuð. Hún var orðin fangi sinna eigin drauma.

Og við; við sáum að hún var horfin. Og jú, vissulega söknuðum við hennar – fyrst í stað. En mynd hennar hvarf skjótt úr hugum okkar og skildi ekkert eftir sig. Það var eins og hún hefði aldrei verið til, aldrei verið hluti af lífi okkar.
Þó vöknum við sumar nætur við kveinstafi og grát frá þeim heimi sem nú er hennar. Og stöku sinnum sjáum við jafnvel mynd hennar bregða fyrir er við göngum framhjá speglinum. Þá þýtur gegnum huga vorn einhver örvæntingarfull hugsun:,,Ó, guð. Hvernig gátum við gleymt henni?” En jafnskjótt og hún hverfur sjónum okkar er hugsunin flogin á braut og hún er gleymd á ný.