Ég ek virðulega á veginum og passa að bílstjórinn komist aldrei yfir 90 km hraða á klukkustund, því maður verður að fara varlega á götum úti. Því miður hafa eigendur mínir aldrei skilið þetta rétta sjónarhorn, því þeir reyna að þjösnast fastar á bensíngjöfinni til að auka hraðann. En ég er eldri og vitrari og leyfi þeim sko alls ekki að stofna mér í hættu með fíflaskap þeirra. En mannfólkið er svo vitlaust að sjá ekki að ég er að passa þá í umferðinni, að það lætur mig ganga kaupum og sölum. Mig! Ég sem er búinn að aka á vegunum í 37 ár!

Þegar ég sé þessa snobbbíla sem kalla sig jeppa hnussa ég. Þeir eru ekki nánda jafn traustir bílar og ég. Einnig undrast ég á því að eigendur mínir standa alltaf slefandi yfir þessum ofvöxnu druslum, segjandi við sjálfan sig að einhvern tímann muni þeir eignast svona bíl.

Mér finnst að ég eigi að fá meiri virðingu, ég meina að þegar allt kemur til alls þá er ég einn reynslumesti bíllinn á götunum. En auðvitað reyni ég að sinna skyldum mínum sem bifreið og kenna þeim yngri hvað sé best að gera í umferðinni og hvernig eigi að bregðast við aðstæðum, og auðvitað líka hvernig við þurfum að kenna ökumönnum að ganga vel um og keyra á löglegum hraða.
Til dæmis hef ég aldrei leyft reykingar inn í mér og ef einhver brýtur þessa reglu þá sprengi ég yfirleitt eitt dekk hjá mér til að sýna óánægju mína.

Og auðvitað þarf miðstöðin ekkert að virka hjá mér, gerði hana óvirka fyrir 7 árum því hver þarf á slíku skrapatóli að halda þegar litlu götin sem hafa myndast með árunum sjá farþegum fyrir nóg af fersku lofti. Það er samt regnið sem fer verst í gamla öxulinn og það marrar hátt í mér þegar ég hef staðið úti í rigningu alla nóttina. Persónulega finnst mér að við bílarnir ættum að snúa bökum saman í þessu vandamáli, (ætli ég leyfi ekki líka þessum jeppum að fá að vera með, veslingarnir verða líka að fá að taka þátt svona einstaka sinnum) og krefjast þess að byggður verði bílskúr fyrir hvern bíl.

En eins og ég minntist á hér á undan þá miðla ég visku minni til yngri og óreyndari bíla. Eins og um daginn hitti ég þennan fína bíl sem hafði mikla ánægju af frásögn minni. Bíllinn flautaði og blikkaði mig eftir því sem á leið á frásögn mína, en því miður þurfti hann að keyra af stað á ógnarhraða þegar ég var aðeins búinn að segja frá fyrstu 13 árum ævi minnar. Sjálfur er ég stoltur af því að vera svona gamall og læt hina bílana vita að þegar ég var settur saman þá var ekki svona mikið af vélum eins og þær sem bjuggu til þá kynslóð er ég vil kalla “ópersónulega kynslóðin”, því vélarnar eru svo ópersónulegar. Aftur á móti var ég settur saman af alúð og af mönnum sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera, ekki einhverjir smákrakkar með svokallaðar tölvugráður.

En ekkert varir að eilífu og ég bíð eftir að eigandi minni ákveði, að þar sem ég er svo gamall og ómetanlegur, að vera rausnalegur og gefa einhverju fornbílasafni mig. Þar mun fólk koma langar leiðir til þess eins og líta mig augum og dást að mér.
Það er bara spurning um tíma hvenær ég verð dáður og hylltur.