Þóroddur var múrari. Hann bjó á Kaldalandi. Hann hafði áhuga. Hann hafði áhuga á öllu sem við kom stjórnmálum. Besti vinur hans í öllum heiminum var Dabbi, þeir voru svo góðir vinir að þeir ætluðu meira að segja að skýra börnin sín í höfuðið á hvorum öðrum. Þóroddi fannst gaman að stjórna en Dabba fannst það allt í lagi því þeir voru bestu vinir. En einu sinni hitti Þóroddur fallega konu. Þau urðu bestu vinir. Betri vinir en Þóroddur og Dabbi. Afþví að aldrei hefði Þóroddur gifst Dabba, og aldrei hefði hann eignast barn með honum, eins og hann gerði með fallegu konunni. Dabbi var samt sár. „Þú ert ekki góður vinur,“ sagði Dabbi. ­„Fyrirgefðu,” sagði Þóroddur. “Hvað get ég gert til að verða aftur vinur þinn?” Dabbi hugsaði sig um. „Ég skal fyrirgefa þér, ef þú lofar að skýra son þinn ekki í höfuðið á mér.“
Þóroddur lofaði því. Þar sem hann hafði mikinn áhuga á stjórnmálum, og stjórnmálamenn standa alltaf við loforð sín, þá skýrði hann son sinn, Davíð Þóroddson. Alveg frá því að Davíð fæddist sagði Þóroddur, „Það vildi ég að þú yrðir mikill stjórnmálamaður, því ég varð aldrei neitt meira en múrari.”
Davíð Þóroddson óx úr grasi og varð ungur og efnilegur piltur. Hann átti ekki marga vini og honum gekk ekki alltaf vel í skóla. En hann vissi, að einhvern daginn ætti hann eftir að verða mikill stjórnmálamaður.
Nú er Davíð orðinn fullorðinn. Davíð var búinn að gera föður sinn stoltan, eða hvað? Hann gat ekki verið viss, því að Þóroddur pabbi hans dó fyrir átta árum. Hann var kominn í valdamestu stöðuna á Kaldalandi. Hann hafði meira að segja verið valdamesti maðurinn á Kaldalandi í tíu ár. En samt var eitthvað sem var ekki rétt. Honum fannst hann ekki vera nógu mikill stjórnmálamaður.
Einu sinni fór Davíð út í Óbyggðahraun. „Hvað ertu að fara að gera þangað?“ spurði konan hans. „Mig dreymdi að þar myndi ég finna svar við spurningum mínum.” sagði Davíð. Þegar hann var kominn út í Óbyggðahraun var orðið dimmt. Davíð var hræddur við myrkrið, en hann vissi hvert hann átti að fara, því hann heyrði rödd í fjarska sem sagði, „Komdu í hellinn minn, hellinn minn.“
Þegar hann sá hellinn varð hann hræddur, en hann hélt samt áfram. „Hver er þar?” spurði hann dauðskelkaður. „Ég er Belzebubbur, en þú mátt kalla mig Bjössa.“ Svaraði myrka veran í hellinum. „Hvað á ég að gera til að verða valdamestur allra?” spurði Davíð. „Farðu til keisarans í Kína og spurðu hann ráða.“
Það gerði Davíð. Keisarinn í Kína var skemmtilegur maður. Hann átti stóra höll. „Ég skal kenna þér að verða valdamikill, herra Davíð, en þá verðurðu að lofa mér að gera allt sem ég segi þér að gera.” Davíð samþykkti það. Hann var staðráðinn í að gera föður sinn stoltan.
10 árum síðar var Davíð orðinn keisari á Kaldalandi. Hann átti allt, stjórnaði öllu og var valdamestur allra. En hann var ekki eins ánægður og keisarinn í Kína. Hann skildi ekki af hverju. Hann hafði farið nákvæmlega að eins og honum var sagt að gera. Hneppa fólk í þrældóm, ljúga og brosa, banna allan sannleika, nema rétta sannleikann. Samt vantaði hann eitthvað.
Dag einn kom til hans maður. Hann var gamall og hrumur og gat varla gengið. Hann var kominn inn um hallardyrnar og Davíð var spurður af æðsta verðinum hvort ætti að lífláta hann eins og allt hitt gamla fólkið. En Davíð var ekki viss, hann kannaðist eitthvað við manninn. „Hver ert þú gamli maður?“ spurði Davíð. „Ég er nafni þinn, mannleysan þín.” svaraði gamli maðurinn.
„Hvernig dirfistu að kalla mig mannleysu?“
„Heldurðu ég viti ekki hvað þú hefur gert, ótætis ræfillinn þinn?
„Hvað áttu við?”
„Þú talaðir við sjálfan Djöfulinn, bandormurinn þinn, sjálfan Djöfulinn!!! Hvernig gastu selt sál þína eftir allt sem var gert fyrir þig, það hefði átt að bera þig út.“
„Já hann Bjössa? Þetta er einhver misskilningur hann var aldrei neitt slæmur. Hvernig veistu að ég talaði við Bjössa? Hvernig veistu allt þetta?” Davíð var byrjaður að verða svolítið órólegur, ekki einusinni konan hans vissi um Bjössa.
„Heldurðu að ég sé einhver imbi, bölvaður þorparinn þinn, ég er Davíð Davíðsson, sonur Davíðs sem keypti ölið, nú skal ég finna þig í fjöru og sína þér hver ræður.“
„SVARAÐU MÉR! Ég veit ekki hver þú ert eða hvernig þú veist allt um mig!” Davíð var farinn að gráta.
„Ég er besti vinur föður þíns. Hann sagði mér allt. Veistu, hann er miklu skemmtilegri draugur en hann var nokkru sinni maður, engar holdlegar fýsnir og enginn sér hann nema ég.“
„Þú ert sturlaður!”
„Já, og greyið Þóroddur á eftir að sjá eftir því að hafa skýrt þig í höfuðið á mér, því ég á eftir að plaga þig það sem eftir er.“
„VERÐIR!” öskraði Davíð og hnipraði sig í hásætinu. Blóð spýttist út um allt, því að verðirnir voru ekki góðir menn.
Davíð gat ekki sofnað þá nótt og hann gat aldrei sofnað aftur.