Sælinú. Ég byrjaði fyrir nokkrum árum að skrifa sögu sem komst aldrei langt, aðallega því ég planaði ekkert um hvað hún ætti að vera. Þetta var eitt af þessum undarlegu augnablikum þar sem einni línu slær niður í hausinn á manni og maður fer að skrifa í framhaldi af henni og allt bara einhvernveginn rennur út á stuttum tíma. Þannig að…mér datt svona í hug að pósta þetta hérna ykkur til ánægju og yndisauka, og ef þið fáið einhverjar hugdettur varðandi framhaldið þá endilega láta mig vita. Aðalvandamálið er hvað Guð hefur planað til að ná sér niðri á Satan ;)

1


Það er hrollkaldur dagur í helvíti. Eitthvað hefur farið úrskeiðis með hitunarkerfið og gasleiðslan er stífluð. Þess vegna loga engir eldar í víti þennan daginn. Satan gengur fram og til baka um gólfið í þungum þönkum. Hann er vafinn inn í teppi og íklæddur lopapeysu. Þríforkurinn hans stendur upp við vegginn hjá bókaskápnum, óhreifður. Allt virðist ætla að fara úrskeiðis
hjá honum í dag, nístingskaldur vindur blæs um gangana og þær fjölmörgu sálir sem hann hefur sankað að sér eru farnar að varpa öndinni léttar, dauðfegnar yfir að fá loksins smá golu. Þetta gengur ekki lengur. Ekki er hann drottnari yfir víti til að láta fólki líða vel. Þessar hræður eiga að stikna í vítislogum og þjást að eilífu, þær eiga að púla og svitna, kvarta og kveina, steikjast hægt yfir hans einkagrilli aftur og aftur út í það
óendanlega… og svo kemur þetta upp á! Þvílík vandræði.
Það er bankað varfærnislega á dyrnar hjá honum. Satan hrekkur við og flýtir sér að grípa þríforkinn áður en hann segir “Kom inn”. Hann mundar forkinn valdsmannslega um leið og einn af undirárum hans mjakar sér inn í herbergið, frá sér af hræðslu við hinn ógurlega meistara sinn.
“Hvað viltu?” hreytir hann út úr sér og setur upp djöfullega svipinn sinn. “Ég er önnum kafinn, reyndu að skyrpa út úr þér erindinu og hundskast svo í burtu, veimiltíta”.
Árinn nötrar og skelfur á beinunum, hann hefur aldrei séð meistara sinn svona ógurlegan ásýndum, og ekki bætir vígaleg lopapeysan úr skák. “Ég átti bara að segja þér að mennirnir frá rafveitunni eru komnir, þeir eru niðri að lesa á mælana”.
“Hvað eru að segja, það hefur enginn vogað sér að lesa af mælunum hjá okkur síðan við grilluðum hausana á þeim sem komu seinast og sendum þá til baka þrædda upp á tein, hvaða fífl eru það sem dirfast að ögra mér svona?”
“Þetta eru víst einhverjir nýjir, ó almáttugi herra.”
“Það eru nú meiru óvitarnir, þeir eru kannski ábyrgir fyrir þessum ófögnuði sem tröllríður hér húsum. Sendu þá upp til mín, ég ætla að rífa úr þeim nokkrar tennur og grilla á þeim eistun…nei það er víst ekki hægt núna. Einhvern tíman seinna þá..”. hann starir hugsandi fram fyrir sig með hendur fyrir aftan bak.
“Eeh…”, tuldrar árinn.
“ERTU EITTHVAÐ HEIMSKUR ÞARNA, DRULLASTU Í BURTU!!!!!!”
Árinn hrökklast dauðskelkaður í burtu og skellir á eftir sér. Satan bítur hugsandi í vörina og spígsporar fram og aftur um gólfið. Það VERÐUR að gera eitthvað í þessu.

2

Guð situr í hásæti himnanna, umkringdur flögrandi englum sem glamra á hörpur. Við fótstall Hans sitja búlduleitir kerúbar og bora í nefið á milli þess sem þeir lauga fætur hans með ilvolgri ilmolíu frá verksmiðjunum í sjöunda himni. Sjöundi himinn er nefninlega faktoría hinnar guðdómlegu þrenningar og þar er stanslaus hávaði. Að vera “í sjöunda himni” merkir þessvegna upphaflega, að vera “með dúndrandi hausverk vegna of mikils
hávaða”.
Hásæti Guðs stendur á tindi gríðarstórs fjalls sem trónir yfir himnaríki eins og verksmiðjureykháfur í höfuðborg skýjanna. Það ríkur þó sjaldan úr þeim strompi, nema þegar Guð er ógurlega reiður. Hann er tekinn að reskjast þó nokkuð, og farið er að örla á hrukkum við munnvikin. Örfá hár standa upp úr skallanum, en voldugur hárkrans umlykur þó ennþá höfuðleðrið líkt og
víggirðing umhverfis kastala viskunnar. Gríðarlegt skeggið flæðir eins og stórfljót niður hlíðar maga hans. Það lafir ofan í skálarnar með olíunni og flækist stundum fyrir undisátum Hans, sem blása því frá vitum sínum og nöldra sín á milli.
Það er ekki góð lykt af skeggi Guðs þennan dag. Hann hafði farið í heimsókn í hreinsunareldinn fyrr um daginn og komið til baka með sótugt andlit og sviðið skegg. Englar drottins snyrtu það af hagleik en lyktin loðir ennþá við og berst með andvaranum allt að endimörkum hins guðdómlega sæluríkis.
Það er ekki til siðs að englarnir fljúgi upp til Hans þegar þeir eiga við Hann erindi, heldur verða þeir að þramma upp eitt hundrað milljón, tvö hundruð sextíu og sjö þúsund, þrjú hundruð fimmtíu og eitt þrep, alla leiðina upp á topp. Þar eiga þeir að bugta sig og beygja ef eitthvað þrek er eftir, en það er Guði þóknanlegast ef þeir leggjast í rykið við fætur hans, og flestir gera einmitt það.
Þegar við lítum inn, eða upp, til hans má sjá virðulegan engil með tvöfaldan geislabaug paufast upp þrepin næst tindinum, másandi og blásandi. Hann er laslegur í framan, fölur og svitadroparnir frussast í allar áttir, en hann reynir að anda ekki djúpt vegna torkennilegar brunalyktar, sem honum til mikillar furðu hefur farið síversnandi eftir því sem ofar dregur. Þegar hann loksins skríður yfir seinasta þrepið ýtir hann í burtu nokkrum skríkjandi kerúbum, hlammar sér í rykið við stórutá Guðs og ælir með miklum
látum.
“HVAÐ ER AÐ SJÁ ÞETTA, LITLI VINUR,” þrumar vingjarnlega í Guði, “ERTU AÐ REYNA AÐ MÓÐGA MIG EÐA HVAÐ?” Hann hlær góðlátlega og lyftir fætinum og læst ætla að kremja engilinn.
“Æ, góði láttu mig vera,” vælir engillinn ámátlega og þurrkar sér um munninn. “Hvaða djöfullega brunalykt er þetta hérna, varstu að brenna einhverja borg núna?”
Guð lætur fótinn síga, tekur engilinn upp og setur hann á öxl sér. “ÉG HEF EKKI BRENNT NEITT AÐ RÁÐI Á LANGAN TÍMA, REYNDU NÚ AÐ JAFNA ÞIG OG SEGÐU MÉR TÍÐINDI ÚR MANNHEIMUM.”
“Já, úr mannheimum,” umlar hann, “Það er allt við sama heygarðshornið þar. Annars fundu þeir Eden um daginn, varstu búinn að frétta af því?”
“NEI, ÞÚ SEGIR EKKI, HVAÐ GERÐU ÞESSI KRÍLI ÞÁ?”
“Nú, þeir byrjuðu auðvitað á því að höggva niður trén… skilningstréð var víst notað í tannstöngla. Síðan malbikuðu þeir bílastæði og byggðu stórmarkaði yfir allt.”
“ÞAÐ ER SVO SEM EKKERT VIÐ ÞVÍ AÐ GERA, ÉG GET VÍST EKKI REFSAÐ ÞEIM MEIRA EN ORÐIÐ ER.” Guð vefur skegginu um fingur sér og starir hugsandi fram fyrir sig. “EN DÝRIN, HVERNIG HAFA ÞAU ÞAÐ?”
“Jaaa, mennirnir eru eiginlega næstum búnir að drepa þau öll. En þeir bjuggu til nokkur ný fyrir slysni. Þeir fundu nefnilega upp kjarnorkuna og þeir eru alltaf að týna henni, missa hana í sjóinn og þannig, alla vegana, þá eru allskonar nýjar tegundir er að skjóta upp kollinum. Sumar nokkuð magnaðar, verð ég að segja.”
Guð stekkur á fætur og engillinn verður að halda dauðahaldi í hár hans til að detta ekki. “DIRFAST ÞEIR AÐ AFMYNDA SKÖPUNARVERK MÍN!!!!”, þrumar Hann svo að himnafestingin nötrar og skelfur.
“AAAARRRRRRRRGGGHHHHHH!!!!!! ÉG SKAL SKO KENNA ÞEIM…ÉG SKAL….ÉG
SKAL…..” Hann þrammar um og steytir hnefana út í loftið. Engillinn sveiflast um í hárinu og rígheldur sér. “Rólegur maður, rólegur”, hvæsir hann á milli tannanna. “Gættu að blóðþrýstingnum.” Smám saman sljákkar í Guði og heilög reiði Hans dvínar. Hann sest aftur þunglamalega. “HVAÐ ER SVO SEM HÆGT AÐ GERA?” segir Hann dapurlega. “VERÐUR ÞEIM REFSAÐ MEIRA? ÉG GET
KANNSKI LÁTIÐ ÞÁ ÞRÍFA UPP ÆLUNA EFTIR ÞIG.”
“Góð hugmynd, slappaðu nú af.” Rödd engilsins titrar. Honum er orðið óglatt af veltingnum og leggst stynjandi á öxlina. Allt í einu bregður fyrir stríðnisglamapa í augum Guðs og bros færist yfir andlit hans.
“VAR ÉG BÚINN AÐ SEGJA ÞÉR FRÁ NÝJA HREKKNUM MÍNUM? NÚ VERÐUR SATAN ALDEILIS HOPPANDI VITLAUS.”
“Nei, ég var ekki búinn að frétta af því. Seinasti hrekkurinn var heldur misreiknaður. ég held að þesar risavöxnu fílubombur hafi bara hjálpað honum við starfið á meðan hann læsti sig inn í herbergi.”
“JÁ, ÉG HEFÐI HELDUR ÁTT SENDA HONUM RISAVAXIÐ ILMVATNSGLAS. ÞAÐ HEFÐI SKO FARIÐ Í TAUGARNAR Á HONUM.” Bros hans breikkar og hann bendir englinum að halla sér nær.
“HLUSTAÐU NÚ Á…………”

3

Á bar einum í úthverfi himnaríkis sitja tveir englar með lafandi vængi og hangandi haus. Geislabaugarnir sveiflast
ofurlítið fram og aftur, en það er merki þess að þeir séu ofurlítið ölvaðir. Allir drykkirnir á þessum bar eru ókeypis, að sjálfsögðu, og birtast sjálfkrafa í glasi þess sem bara hugsar um það. Í himnaríki verður enginn þunnur, og ölvun hefur aldrei slæm áhrif á neinn. Til að mynda koma aldrei upp slagsmál né nein læti út af kvenna- eða karlamálum því að í himnaríki eru allir kynlausir. Það kann að virðast að tilveran sé heldur litlaus af
þessum sökum, en svo ku ekki vera. Það er jú til fullt af hörpum til að spila á svo að engum ætti að leiðast.
Annar engillinn er enginn annar en Gabríel erkiengill, og er hann með þrefaldan geislabaug, sem táknar stöðu hans efst í virðingarstiganum. Hann er ekki mjög virðulegur þessa stundina, enda sauðdrukkinn, búinn að þamba tuttugu lítra af “New Testament” bjór. Við hlið hans situr nýliði í her himnanna, með einfaldan geislabaug og litla vængi sem geta ekki borið hann ennþá.
“Ég skal sko segja þér það, elsku vinurinn minn,” drafar hann og veifar vísifingri ásakandi framan í sessunaut sinn, “…þið….bllurrrgp…..hafið aldeilis klúðrað málnum þarna niðri síðan við skildum ykkur eftir…”
Nýliðinn blakar litlum vængjunum hratt, eins og hann ætli að hefja sig á loft. Hann er allur á iði og getur ekki beðið eftir að kynnast leyndardómum tilverunnar af vörum svo merkilegs engils.
“Hvameinarðu maður, höfum við klúðrað einhverju!!?? Má ég benda þér á að ég tilheyri ekki lengur tilraunadýrunum á jörðinni, svo það hefur ekkert upp á sig að bendla mig við eitt eða neitt. Annars fannst nú flestum að eitthvað hefði farið úrskeiðis hérna uppi!”
“Það má vel vera að svo hafi verið…förum ekkert nánar út í það fyrr en þú verður eldri…” Gabríel þurrkar sér um munninn með erminni og pantar meiri bjór. “En eitt verðurðu að vita, væni minn, og þú mátt engum segja frá því, þó að það viti það reyndar allir. En það má ekki fara lengra.”
“Ég lofa því, ég skal vera þögull sem gröfin.”
“Því skal ég trúa, því að hérna á himnum getur enginn logið, það er nú ein af mörgum forréttindum sem voru tekin af okkur þegar við komum hingað, skal ég segja þér.” Hann þagnar og starir dreymnum, sorgmæddum augum ofan í bjórglasið. “Eins og kynlífið, það var líka tekið, ekkert skil ég í því.” Svo glaðnar yfir honum og hann sveiflar glasinu svo að skvettist úr því yfir félaga hans. “En bjórinn, hann fengum við að hafa, það er nú draumur í dós, og engin þynnka. En allavegana…hvað ætlaði ég að segja??”
“Eitthvað sem er algert leyndarmál og enginn má vita um.”
“Já einmitt, sko, það var ekki tekinn neinn þagnareiður af mér svo að ég get sagt þetta öllum, sem ég hef líka gert, sko. Þannig er nú mál með vexti, að það ríkir skelfilegt stríð á milli himins og heljar, sko, ég skal sko segja þér það, já, Guð og Satan berjast á banaspjótum og hafa alltaf gert, en það hefur aldrei verið eins slæmt og núna. Bara um daginn kom hérna sending af Vottum Jehóva sem Satan lét flytja hingað í gegnum glufu í
kerfinu…þannig er þetta nú orðið. Það eru engin takmörk fyrir illskunni í honum.”
“Er það svo slæmt, eru þeir ekki Guðs útvalda trúfélag, það segja þeir allavegana sjálfir. Ég var meira að segja að hugsa um að ganga í söfnuðinn.”
“Ekki minnast á það við nokkurn mann. En þetta er heiftarlegt stríð og það líður ekki sá dagur hér að við verðum ekki vör við afleiðingar þess.”
Gabríel fær sér meiri bjór og færir sig ögn lengra frá félaga sínum. Hann tekur ofan geislabauginn og skoðar hann vandlega, pússar hann því næst með kirtlinum sínum, og setur hann upp aftur eilítið skakkan.
Úti fyrir flögra englar um göturnar og bera saman hörpur sínar. Ljúfir tónar liðast um loftið og fylla sérhvert skot. Það er tekið að rökkva og flestir englarnir hafa komið sér fyrir, hver á sínu skýi, og undirbúa sig fyrir svefninn. Nóttin breiðir vængi sína yfir Himnaríki og smátt og smátt hljóðna ljúfir tónar hörpunnar og ró færist yfir. Félagarnir tveir staulast út af barnum og styðja hvorn annan áleiðis að nálægum skýjabakka. Það er þegar tekið að renna af þeim og Gabríel er strax farinn að iðrast orða sinna
og lofar sjálfum sér að drekka aldrei svona mikið aftur.