Ef ég ætla að stökkva verð ég að safna í mig kjarki. Ég verð að peppa mig upp aðeins. Afhverju er ég að þessu? Til þess að leita svara. Hver sagði mér að gera þetta? Siggi.
Um hvað vorum við að tala? Við vorum að horfa á spólu og mig minnir að hann hafi sagt:

„Það er ótrúlega merkilegt hvað maður hugsar þegar maður lendir í lífshættu. Það er eins og það sé spólað hratt í gegnum líf manns. Maður sér skýrar glefsur af því sem skipti mestu máli í lífi manns og þannig veit maður alltaf eftir lífshættu hver tilgangur manns er í lífinu.”
„Í alvöru?” spurði ég. Ég tortryggði alltaf Sigga svolítið.
„Já, maður, auðvitað. Ég meina, þetta er svona “best of” sem maður sér, síðan þarf maður bara að túlka það og þá skýrist þetta.”
„Hefur þú lent í þessu?”
„Nei, bara frændi minn. Hann var alltaf þvílíkt ömurlegur, frétti af þessari aðferð þannig að hann ákvað að setjast undir stýri og keyra í viku stanslaust, síðan sofnaði hann undir stýrir og keyrði útaf og var náttúrulega ekki með spennt belti svo hann flaug út um gluggann og bíllinn sprakk. Geðveikt heppinn.”
„Hann hefur ekkert keyrt stanslaust í viku?”
„Jú, eða sko, bara með bensín-stoppum, borðaði þar og pissaði og svona.”
„Að hverju komst hann?”
„Nú, að hann þyrfti að sinna fjölskyldunni sinni og hann eyddi allt of miklum tíma niður á verkstæði með vinum sínum. Síðan hætti hann líka að reykja og halda framhjá. Hann er ágætur núna.”
„Heldurðu að hann hafi ekki bara áttað sig á þessu meðan hann var undir stýri, ég meina maðurinn var í heila viku ekki að gera neitt nema hugsa og keyra.
„Nei maður, þetta er þekkt aðferð.”
„Ég ætti kannski að reyna þetta.”
„Ha?”
„Reyna þetta, lífshættu dæmi.”
„Já nei þú átt ekki bíl.”
„Ég veit það, en það hljóta að vera til fleiri lífshættur sem virka eins.”
„Ja, örugglega sko.”
„Þá enda ég vonandi ekki í hjólastól eins og frændi þinn.”
„Þekkirðu Tomma frænda?”
„Já ég hef hitt hann oft, hann flutti inn til ykkar þegar konan fór frá honum mannstu.”
„Já auðvitað.”

Siggi er svo út úr heiminum stundum. Eiginlega alveg ótrúlega tregur. Það skiptir samt ekki máli um hvað við tölum, hann hefur alltaf rétt fyrir sér, eða ég gat allavega ekki sannað það að hann hefði ekki rétt fyrir sér. Ég hefði kannski átt að vera skýrari við hann. Hann tók því eitthvað svo létt að ég ætlaði að reyna þetta, en nú verður varla aftur snúið. Og ég meina ég er alveg ákveðinn. Ég komst hingað upp, efst í Hallgrímskirkjuturn og nú er það bara ég, vindurinn og dýnan. Vona að þessi dýna dragi nóg úr fallinu. Þetta hlýtur að vera sambærilegt bíla-aðferðinni. Hvar heyrði Tommi af þessari aðferð? Kannski var þetta bara lygi… Ég man alveg eftir því að Siggi hafi logið að mér bara til að hafa rétt fyrir sér. Æ þetta hlýtur að reddast. Dýnan bjargar mér. Vona hún sé rétt staðsett, ég var aldrei neinn eðlisfræði proffi. En jæja, nú koma svörin. Einn, tveir og…
Vá… ég get ekki andað… vindurinn er of sterkur!
„AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA!!!!!!”

Svart.

Ég lærði margt af dauða mínum. Allar flækjur leysast þegar maður er ekki lengur með. Ég sá strax, eftir að ég dó, að Siggi var bara að ljúga. Tommi frændi hans var trukkabílstjóri, svo hann keyrði alltaf einn hvort eð er. Síðan þegar hann slasaðist fór konan frá honum og giftist ungum manni af verkstæðinu. En það er samt rétt, Tommi er skárri núna, þegar hann er ekki fullur. Leiðinlegt að ég hafi ekki komist að neinu um líf mitt við að drepa mig. Kannski gildir það bara um lífshættur. Næst ætla ég ekki að velja svona hættulega aðferð. Næst ætla ég bara vera öruggur á því og ráða mér öryggisvörð eða eitthvað. Já, þetta gengur bara betur næst. Æjá.