Fyrsti hluti frumgerðar af ónefndri sögu Seg mér, kæri vinur, hefur þú einhverntímann þrá ð að vita að stað sem er ekki til? Heppinn ertu, hér er einmitt ein bíðandi eftir þér, bíðandi eftir vitneskju þinni. Svo hlustaðu vel og fyrir alla muni ekki gleyma henni, þegar minningin deyr, deyr það sem var horfið.

Staðurinn heitir Akkerisskógur, sem er undarlegt nafn fyrir skóg. En sagan segir að fyrir mörghundruð árum hafi heljarstórt akkeri sigið niður úr skýjunum, lent í skóginum, beðið þar í eina eða tvær vikur (misjafnt hver er að segja söguna) og horfið aftur upp í skýjin. Nú til dags er þetta bara þjóðsaga, og eina mögulega sönnunin var risastórt rjóður í miðju skógarins, þar sem engin tré dirfðust að vaxa.

Í þessu rjóðri bjó maður að nafni Þórólfur. Einrænn maður. Hann hafði sjaldan samskipti við annað fólk, og allt hans lifibrauð kom úr skóginum og litlum læk sem seytlaði á milli trjánna.
En Þórólfur gamli hafði ekki alltaf lifað í skóginum, hann ólst upp í litlu sjávarþorpi kallað Ægisvík, sem var undarlegt þar sem sjórinn hafði brotið landið svo mikið að víkin var orðin skagi. Fjölskyldan hans hafði verið fátæk sjómannsfjölskylda, með yfirdrifið nóg af krökkum og aðeins of lítið af svefnplássi. Þar af leiðandi ákvað Þórólfur að flytja að heiman strax um sextán ára aldur, giftist dóttur bakarans og byggði handa þeim lítið hús lengst úti í Akkerisskógi.

En Árdís, kona Þórólfs, var ekki heil heilsu. Strax þremur árum eftir látlausu giftinguna þeirra fór hún að hósta óstjórnlega og neyddist til að liggja rúmföst. Dag eftir dag lá hún í rúminu, en versnaði fyrir vikið og viku síðar var hún dáin. Þórólfur gróf hana við árbakkann hjá sóleyjunum og syrgði hana mjög.

Ungi maðurinn fór aldrei aftur í sjávarþorpið. Hvað gat hann sagt? “Góðan daginn, herra Bakari. Dóttir þín drapst hjá mér.” Nei, hann þorði því ekki. Hann var feiminn og sjálfsnógur af eðlisfari, áfallið hafði minnkað sjálfstraustið til muna, og af hverju ætti hann að fara úr rjóðrinu þar sem hann hafði allt sem hann þurfti í erfiða veröld mannlegra samskipta, angistar og syrgjandi feðra? Ekki þess virði. Frekar myndi hann lifa í rjóðrinu allt sitt líf.

Dagarnir liðu og söfnuðust saman í vikur, sem söfnuðust saman í mánuði, sem söfnuðust saman í ár. Sem söfnuðust saman í áratugi. Þórólfur óx með skóginum, lærði að þekkja hverna einustu dýra- og plöntutegund, jafnvel einstök dýr. Hann hertist og stæltist með aldrinum, en aldrei sá hann nokkurt vit í því að fara aftur í Ægisvík.

Svo einn kaldan haustdag þegar fór honum að líða eins og hann var samt ekki einn. Fljótlega fór hann að heyra lágt hvískur, í skóginum, við lækinn, jafnvel við gröf Árdísar, að minnsta kosti einu sinni í viku. Í fyrstu var það ógreinilegt suð, en með tímanum fór hann að greina einstök orð. Þórólfur hræddist þetta og vildi ekki einu sinni hlusta á þessar líkamslausu raddir.

Dagarnir liðu og raddirnar héldu áfram að koma, skýrari og skýrari. Orðin urðu að setningum sem urðu að samtölum. Þórólfur mundi skýrt eftir fyrsta samtalinu sem hann átti við eina röddina.

“Þórólfur. Maður. Hlustaðu.”

“Ég hlusta.” Svaraði Þórólfur ósjálfrátt.

“Þú ert hlustandi lágfönn acapella örtröð þegiði agavippa Valfýsinn..”
Röddin virtist snúast í kringum hann, verða að örlitlu hvískri og hefja sig svo aftur upp.

“..Afsakaðu mig?”

“ Reynum.”

“Reynum hvað? Hver ertu?”

“Ég.”

“Já, engin undrun af því, en hvað ertu? Hefurðu nafn?”

“Nei.”

“Jæja, þá fer þetta ekki lengra.” Þórólfur stóð varlega upp og hélt af stað frá árbakkanum að kofanum sínum.

“Bídd..” Restin leystist upp í lágu suði.

Og þetta var fyrsta skiptið sem Þórólfur reyndi að svara röddunum. Eftir það urðu þær æ ágengari, töluðu bæði oftar og hærra. Þórólfur skildi orð inn á milli en aðallega var þetta dularfullt hvískur á ókunnu tungumáli.. Allt næsta ár var hann sífellt að heyra raddirnar, raulandi yfir gröf Árdísar, hvískrandi yfir rúmi hans meðan hann svaf og það heyrðist jafnvel í þeim inni í kamrinum.

Þórólfur var orðinn fertugur þegar hann gafst upp. Í fyrsta skipti á sinni löngu ævi yfirgaf hann rjóðrið og út í skóginn sem umklukti það. Það var seint um kvöld og mistur grúfði yfir kaldri jörðinni, en Þórólfi stóð á sama um það, þetta var kvöldið sem hann færi og hananú.Um leið og hann var nógu fjarri rjóðrinu til að sjá það ekki lengur slakaði hann á, en það hefði hann betur látið ógert.

Eitthvað stökk á hann aftan frá, hann datt fram fyrir sig og áður enn hann vissi af sér lá hann kyrr á maganum og hlustaði á háværa rödd, hærri en þær sem voru í rjóðrinu hans.

“MAÐR!” Var það fyrsta sem röddin sagði.

Þórólfur stökk á fætur.

“MAÐR!” öskraði röddin aftur, svo hávær að trén í kring virtust nötra.

“Hvað viltu?” Rödd Þórólfs skalf, hnefarnir krepptust og hann einblíndi á staðinn þaðan sem röddin hljómaði. Eitt augnablik fannst honum glitta í andlit í mistrinu, en þó var það svo ógreinilegt að hann gat ekki með nokkru móti verið viss.

“Yfirgef skóg.”

“Það er einmitt það sem ég er búinn að vera að reyna.” Þórólfur brölti á fætur. “Og hver þykist þú vera?”

Röddin varð örlítið lægri. “Þoka.” Hálfhvíslaði hún.

“Jamm, einmitt það. Og ég sem hef aldrei heyrt þokur tala.” Stundi Þórólfur.

“Þú.. hlustar.” Svaraði röddin, nei afsakið, Þokan.

“Já, það geri ég. Og það er kominn tími til að notfæra sér það og segja mér hver þú ert og afhverju þú ert að ráðast á mig.” Rödd Þórólfs var löngu hætt að skjálfa og hann virtist mun stöðugri.

“…Farðu.”

“Það er einmitt það sem ég er að reyna að gera. Ef þú myndir bara láta mig í friði..”

“NEI!” Þrumaði í þokunni, hærra en nokkru sinni fyrr.

Eðlilega var Þórólfur orðinn svolítið þreyttur á þessu. Hann sló sig í ennið og sagði: “Út með það, hvað viltu?”

Í þetta skipti svaraði röddin ekki. Þórólfur dustaði mold af frakkanum sínum og hélt áfram úr skóginum. Hann hafði ekki gengið nema þrjú skref þegar öll veröldin í kringum hann virtist leysast upp. All varð svart, eða hvítt, hann var ekki alveg viss. Og áður en hann vissi af sér var hann kominn aftur út á mitt stofugólfið í kofanum sínum.

“..Tja, þetta gekk vel.” Stundi hann. Tveimur sekúndum síðar skall hann örmagna í gólfið. Raddirnar byrjuðu að hvískra fyrir ofan hann, en hann heyrði aðeins móta fyrir orðunum. Allt varð svart og hann missti meðvitund liggjandi inná gólfinu í miðri stofunni í trékofa í rjóðri í skógi sem var greinilega ekki alveg eðlilegur…

—–

Öööh.. gaman. Þetta er svolítið messy, vona að það sé nógu gott fyrir Huga.
Kveðja, vodni galdrakalrinn Njartak.