“Hversu langt til Ásgarðs?”, spurði ég vegvísandann; ungan pilt, renglulegan að mestu leiti sem virtist ekki þekkja til muns á rýting eða hnífs. Hann var klæddur eins og ég hafði gert ráð fyrir; unnið leður mikið og ekki svo skrautbúinn að efast mætti um uppruna hans. Þó varð ég að játa að gæði fatnaðar hans voru meiri en mig hafði órað fyrir og því komst ég ekki hjá því að velta því fyrir mér, hvað þessum manni þætti um mína eigin larfa, unna úr bómull, gerðir gráir og samansettir í vélum.

En ef hann rýndi eitthvað í föt mín, varð ég ekki var við það því að hann tók upp á því að hlæja að spurningu minni. “Ert þú ekki týndur nokkuð, kaupmaður? Ég tel mig nokkuð vissan, að leið þín liggi annað.” Svo brosti hann. Ég vissi alveg hvað brosið þýddi og hvert hann ætlaði að vísa mér. En fjandinn hafi það, ég fór ekki í rándýran skóla í mörg ár þar sem að hver einasti nemandi beið bókstaflega eftir því að geta stungið mann í bakið til að hækka sig sjálfann, til þess að enda á þann veginn. Ég eyddi ekki árum mínum athugull og lævís, bíðandi eftir svikum samstarfsmanna minna, kaupandi og seljandi eftir þörfum markaðsins, til að eiga þetta skilið. Tímar breytast og það gera stríðsmenn líka. Ég barðist með kjafti og kló. Ég var vinum kær og sýndi fjendum mínum þá virðingu sem þeir áttu skilið. Ég var konungur nútímans. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að ég væri nú látinn og þó ég harmaði tap mitt mjög var engin ástæða til þess að sitja á rassinum og vorkenna sjálfum sér. “Ætlast þú virkilega til þess að ég hoppi upp í koju hjá Hel?” spurði ég, byrjaður að æsast örlítið.

Strákurinn leit yfir mig skamma stund. “Ekki sé ég þig með vopnum, né sár á líkama þínum. Í Ásgarði sitja einungis hetjur og vopnadauðir menn. Segðu mér, kaupmaður, hvað hefur þú þar að vitja?” Hann glotti, stoltur af stöðu sinni hér sem, tjah, einherji býst ég við. Ég dróg fram pennann minn. Hann var gjöf frá konu minni og ég hafði aldrei notað annað ritfæri síðan. “Hér er vopn mitt, amlóði!” sagði ég. “Og við ætlumst til að þú vísir okkur vegar til Ásgarðs, kunningi minn og ég,” sagði ég og benti bakvið stráklinginn. Hann sneri sér eitt augnablik til að athuga að “kunningja” mínum og það var allur sá tími sem ég þurfti. Ég renndi áfram og stakk penna mínum á bólakaf í háls hans. Augu hans spenntust opin og hann byrjaði að hrasa. Áður en hann féll greip ég utan um hníf sem hann hafði sér í belti og tók til mín. “Ekki ertu nú skarpur væni minn,” sagði ég er hann féll.

Strákurinn hélt sem fastast utan um sár sitt, með augun full af bræði og ringulreið, hóstandi og jarmandi einhverju rugli. “Segð þú mér,” sagði ég, “ó mikli stríðsmaður. Hvernig lést þú og hvenær. Og þá skildi ég aðeins betur, þegar þessi svipur kom yfir hann. Svipur sem ég hafði oft séð þegar ég lifði, þegar samstarfsmenn mínir eða keppinautar urðu varir við mikil mistök, mistök sem ekki var hægt að einfadlega stroka út og gleyma.” Skömm ríkti á andliti stráksins. “Nú já,” sagði ég. “Svona langt síðan? Og eftilvill ekki atvik sem þú kærir þig um að segja frá.” Nú var komið að mér að brosa. “Stunginn af systur þinni kannski?” sagði ég til að strá salti í sár hans og hló. Beint í mark, strákurinn hætti ýlfri sínu og dróg sig saman í einn lítinn skammarbolta. “Þú hefur ekki haft kjart til að fara þangað til Ásgarðs sjálfur, er það nokkuð,” spurði ég hann. Hann kyngdi og gaf neitun eftir smá stund. “Hvar er staðurinn?” spurði ég ákveðinn og eftir nokkra stund benti strákurinn mér áleiðis, í áttina að regnboga í fjarska.

Ég gekk leið mína og hló. “Hafðu engar áhyggjur stráksi minn. Það er nóg pláss eftir í Hel handa þér. Ég hinsvegar ætla til Ásgarðs. Vertu blessaður og skilaðu kveðju frá Gunnari Bjarnarsyni!”
EvE Online: Karon Wodens