Strætóstoppistöð. Líkt og á skurðstofu, dauðhreinsuð þögn. Ég sit einn á bekknum, tilbúinn til aðgerðar. Bráðum verður gert að mér. Eins og að fiski, nýdregnum að landi. Það er allt hvítt. Nema græna kortið. Það er gult.
Loks kemur gulur bíll. Ég stíg inn. Inni sitja þrír men, glottandi yfir tilvonandi áfangastöðum sínum. Þeir eru allir klæddir í hvíta læknasloppa.
Ég kynni mig. Ökumaðurinn horfir á mig. Blár búningur og kalt, fjarrænt blik augna hans, eins og svarthol í andlitinu, hræða mig. Hann segir, ,,Kortið þitt er útrunnið”.

Mig dreymdi þetta fyrir allnokkrum árum. Draumur sem hefur ásótt mig síðan. Ekki vegna þess um hvað hann fjallaði, heldur var hann upphafið.

Flesta dreymir. Og flestir draumar eru leiðinlegir og ekki frá sögu færandi, svona álíka leiðinlegir og venjulegir og flestir dreymendur. En samt eru sumir draumar sem rísa upp yfir þetta svið, draumar sem eiga sér tíma, stað og rúm.
Þessir draumar eru heimar út af fyrir sig, heimar þar sem fólk, staðir, atvik og jafnvel lyktir hafa áhrif á mig. Ég ert ekki viss um hvort að ég sé vakandi eða sofandi, eða kannski svolítið af hvoru tveggja. Þessir draumar eru í raun ekki draumar, heldur einhvers konar ódraumar. Ódraumarnir eru á engan hátt tengdir reynslu minni af vöku, eða draumum ef að því er að skipta, heldur standa algerlega sér og einstakir. Ég er viss um að hafa upplifað þá.

Oftar en ekki dreymir mig að ég sé á ferðalagi. Ég sit í bíl, flugvél eða skipi og veit lítið sem ekkert um það hvert ég er að fara eða hvaðan ég er að koma. Alltaf er ég á ferðinni. Grænt og blátt landslag þýtur framhjá mér, þar til að ég vakna.
Stundum jafnvel tekst ég á loft og flýg sjálfur um himininn. Ég blaka höndunum og svíf.
Þessir draumar eru á engan hátt tengdir ódraumunum að öðru leyti en að efni. Ég er á ferðalagi en samt ekki.

Rjómalitað hótelherbergi og ég nývaknaður. Ég stend á fætur og finn hvernig ég rétt snerti mjúkt, bleikt gólfteppið. Ég er léttari en loft, en flýg samt ekki. Það er meira eins og að ég fljóti yfir gólfinu. Í herberginu er vítt til veggja og í loftinu hangir ljósakróna, allt lyktar af hreinlæti og í gegnum opinn glugga berast borgarhljóð. Hverrar borgar, hef ég ekki hugmynd um.
Ég fer út úr herberginu fram á rauðan gang. Gangurinn er langur, allt að því endalaus. Einhvers staðar, langt innan úr ganginum, hringir bjalla. Lyftan er komin.
Inni í lyftunni standa þrír karlmenn. Þeir eru í miðjum samræðum þegar ég geng inn. Einn þeirra, í svörtum jakkafötum eins og hinir, jafn vatnsgreiddur og hinir en bláeygður, heimtar að fá að segja frá draum sem hann dreymdi.
-Ha, og þá sagðir þú, Jóhann, að þú hefðir aldrei gert nokkurn skapaðan hlut og að þetta væri ekki þér að kenna. Ha, hugsaðu þér, samt stóðstu með byssuna í hendinni, ha ha ha.
Jóhanni finnst þetta ekki fyndið. Hann lítur út fyrir, að hann vilji berja þann sem sagði frá þessu, kýla hann á kjaftinn. Hann hefði eflaust gert það, ef hann hefði ekki verið geldingur í lyftu í óþekktri borg.
Þegar ég kem niður í andyrið, er ég orðinn þyngdarlaus. Ég svíf út úr lyftunni. Ég hef nokkra stjórn á því hvert ég fer. Samt ekki fulla. Eins og að aka bíl, með sprungið á báðum framdekkjunum.
Í andyrinu er fullt af fólki og þónokkur hávaði. Það virðist enginn taka eftir mér. Ég svíf í átt að afgreiðsluborðinu. Fyrir aftan það stendur rauðklæddur, brosandi smástrákur. Hann er eins og krakki, nýbúinn að segja kennara sínum að hann ætli að verða geimfari þegar hann verði stór. Geimfarinn heilsar mér og segir.
-Þú ert á ferðalagi….

Ég hef aldrei vitað hvernig á túlka drauma, eða ódrauma. Hvort að það eigi nokkuð að vera túlka drauma.
Einu sinni sagði mér kona frá draum sem hana hafði dreymt. Hana dreymdi átta kindur standandi í fóðurrennu. Foreldrar hennar áttu þessar kindur og þau voru í öngum sínum yfir því hve kindurinar voru ódælar.
Sömu nótt og hana dreymdi þennan draum, snjóaði mjög mikið. Hún túlkaði þetta svo að það myndi snjóa í átta vikur í viðbót.

Lest. Og taktfast hljóð, sem róar mig. Ég lygni aftur augun og læt líða úr mér ferðaþreytu. Ég veit í raun ekki hvers vegna ég er þreyttur né hvers vegna þetta er ferðaþreyta. Framhjá gluggunum þjóta tré og nýtjargaðir símastaurar eins og gráir skuggar. Sólin skín á ská.
Ég er einn í vagninum.
Allt í einu opnast hurðin og inn ganga þrír karlmenn. Allir virðulega klæddir, í frökkum og með bindi. Þeir halda allir á skjalatöskum en mismunandi að lit. Ein rauð, ein blá og ein svört.
Þeir setjast allir við sama borð með drykki. Þeir sitja hljóðir um stund. Upp úr þurru fer einn að hlæja, skellihlæja.
Í sama mund kemur inn stórgerður kvenmaður. Ég ímynda mér að hún sé þýsk og heiti Helga. Hún fyllir nokkuð vel út þrönga, bláa einkenninsbúninginn. Hún biður mig um miða.
Ég tek frekar þvældan og illa farinn miða úr vasanum. Hún lítur á hann og brosir. Segir svo.
-Þú áttir að fara út á síðustu stoppistöð…