Frábært, æðislegt! Þetta toppaði sko allt saman. Ekki nóg með að líf mitt sé búið að vera eitt klúður út í gegn, heldur fæ ég svona fréttir. Í raun skiptir þetta þó engu máli, var farinn að fá nóg af þessu öllu saman hvort eð er.
“Hvernig var hjá lækninum elskan?” Ég er rétt kominn inn um dyrnar þegar mamma kallar til mín úr eldhúsinu. “Vissi hann af hverju þú ert búinn að vera svona slæmur í höfðinu undanfarið?”
Hvernig á ég að fara að því að segja henni þetta? Síðan pabbi dó hef ég verið eina manneskjan sem mamma hefur til að tala við. Hún og pabbi áttu marga vini, en það voru allt vinir hans pabba, eftir að hann dó fyrir sex árum fóru þeir smám saman að hætta að kíkja í heimsókn til hennar.
“Eh, já, þetta var vöðvabólga, en hérna, hann fann soldið annað” Ég labbaði hægt inn í eldhúsið þar sem mamma stóð yfir eldavélinni og var að steikja hamborgara. Lyktin var dásamleg og umlék allt húsið. Hamborgarar voru í miklu uppáhaldi hjá mér, kannski í aðeins of miklu uppáhaldi þar sem þeir voru aðeins farnir að klínast utan á mig. Hamborgararnir hennar mömmu voru líka nokkuð sérstakir. Hún keypti aldrei tilbúna borgara út í búð. Nei, hún heimtaði að fá að útbúa þá sjálf, keypti kjötið og hráefnin og útbjó stærstu og bestu borgara sem ég hef smakkað. Matsölustaðirnir komust ekki nálægt mömmu hvað gæði varðar.
“Nú, hvað var það sem þeir fundu?” Brosið á andlitinu hennar mömmu var aðeins farið að dvína þegar hún sá hversu alvarlegur ég var í framan. “Sko, hann sendi mig í allskonar rannsóknir, blóðprufu og hjartalínurit og þess háttar” Mamma hellti Sprite í glas handa mér og sast niður hjá mér. “Hann kallaði mig loksins til sín og sagði að rannsóknirnar hefðu sýnt það að ég er með lítið æxli sem vex nálægt hjartanu.” Ég leit niður, síðan aftur á mömmu, hún var farin að tárast. “Og hvað þýðir það, er þetta eitthvað sem er hægt að lækna?” Ég fann hvernig kökkurinn í hálsinum varð stærri og stærri, ég sýndi engar tilfinningar þegar læknirinn sagði mér þetta, en það að segja mömmu minni þessar fréttir var of mikið fyrir mig. “Hann sagði að þetta væri á of erfiðum stað, þannig að það væri ekki möguleiki á að skera æxlið burt” Ég tók stóran sop af Sprite-inu, “Hann sagði að ég ætti í kringum sex mánuði eftir” Mamma brestur í grát. Ég stend upp og tek utan um hana.
Það er merkilegt hvernig hugarfarið getur breyst eftir að læknirinn gefur þér upp dauðadóm. Eftir samtalið við mömmu í gær fór ég að hugsa, ég á hálft ár eftir, ef það er einhvern tímann tími til að breyta lífinu sínu, þá er það þessi tími. Ég þarf ekki lengur að hugsa um það hvað aðrir hugsa um mig ef ég geri eitthvað, það er ekki eins og þær hugsanir hafi verið góðar hingað til hvort eð er. Ég get gert hvað sem ég vill, og þarf ekki að hugsa út í afleiðingarnar. Þetta æxli gæti reynst gott tækifæri á nýju lífi, þannig séð.
Mamma vill að ég tékki mig inn á sjúkrahúsið. Ekki séns. Læknirinn sagði að ég gæti náð tveim mánuðum í viðbót ef ég yrði tengdur við eitthvað hjartadælingartæki. Frekar stekk ég fyrir bíl núna en að eyða síðustu mánuðunum tengdur við einhver tæki sem halda í mér lífinu.
Ég ákvað þegar ég vaknaði í morgun að hefja mitt nýja líf strax, ekkert hangs, ekkert hik. Hvernig byrjar maður samt eiginlega upp á nýtt? Hvað gerir maður fyrst? Þarf á klippingu að halda, svo mikið er víst. Fötin eru algerlega út í hött, mamma er með versta smekk á fötum sem til er. Ég er búinn að vera með sömu gleraugun síðan í grunnskóla, stoppa við í gleraugnabúðinni á eftir og redda mér linsum. Fer síðan í klippingu og enda þetta á fatakaupum í kringlunni. Æ, ég á að vinna í dag. Stoppa við þar og segi upp, fer ekki að eyða tíma í að standa vaktina í ísbúðinni.
Núna reynir á. Ég verð að sýna að ég sé ákveðinn með þessar breytingar, vera öruggur og ekki hugsa um það hvað geti farið úrskeiðis. Ég er að fara að deyja, alveg sama um afleiðingarnar. “Get ég aðstoðað?” Æ, sölustúlkan var aðeins of fljót að koma til mín, ég er ekki tilbúinn. Jú, víst, ekkert hangs. “Já, ég var að spá í nýjum fötum, mér vantar alveg nýjan klæðaburð frá toppi til táar” Ég leit beint í augun á henni. “Já, komdu með mér, við ættum að geta fundið eitthvað handa þér” Ég gekk á eftir henni. “Það er vonandi, annars þarf maður að ganga um nakinn hvert sem maður fer” Hún hló smá og leit á mig brosandi.
“Þetta gera 45.969”. Ég stóð fyrir framan kassann með nokkra poka með allskyns flíkum, buxur, bolir, skyrtur og jafnvel skór. Ég rétti henni kortið mitt. “Æ, en hvað þú ert ungur eitthvað á myndinni”. Sjitt, ég er ennþá með mynd síðan ég var 10 ára á kortinu. “Hehe, já, maður ætti kannski að fara að skipta bráðum”. Hún leit til mín brosandi meðan hún renndi kortinu gegnum posann. “Já, mér finnst þú eiga að gera það, ert orðinn mikið sætari síðan þessi mynd”.
Vá, mér fannst hún hafa verið að daðra við mig meðan við vorum að velja fötin, en ég bjóst eiginlega við því að hún væri bara að reyna að ná meira út úr sölunni, en nú heldur hún áfram. Gamli ég hefði farið í burtu núna, en ég hef engu að tapa. “Takk, þú ert ekki svo slæm sjálf”. Hún leit brosandi á mig, hún var farin að roðna, ég er ekki frá því að ég hafi verið orðinn rauðari en epli sjálfur. Ég hef aldrei þorað að tala svona við stelpu áður, hvað þá stelpu sem ég var bara að kynnast. Ég þakkaði fyrir mig og byrjaði að ganga út. Nei, ég er kominn þetta langt, ég fer alla leið. Ég sneri mér við, og gekk til hennar. “Hérna, ég var að spá, værirðu til í að kíkja í bíó eða eitthvað í kvöld?”
Það er í raun ótrúlegt hversu auðvelt það er að breyta til þegar þú hefur ekkert fyrir stafni lengur. Mamma er enn fúl yfir því að ég skuli ekki vilja leggja mig inn á sjúkrahús, en hún virðir samt sem áður ákvörðun mína, og er ánægð með það að ég sé loksins farinn að vera eitthvað úti, ekki bara hangandi inn í herberginu mínu öll kvöld. Sigga brotnaði niður þegar ég sagði henni frá þessu. Ég hálfpartinn bjóst við því að hún myndi fara, hélt þessu leyndu frá henni í heilan mánuð. Sem betur fer ákvað hún að vera áfram með mér, sagðist ekki vilja að ég færi í gegnum þetta allt einn. Æðisleg stelpa. Það er synd að það hafi þurft banvænt æxli til þess að ég færi loksins að lifa lífinu.
Ég fer reglulega til læknis þessa dagana. Mamma heimtaði það. Ég fæ endalaust af pillum sem minnka sjúkdómseinkennin. Óþverrabragð er af þeim, svo verð ég alltaf svo þurr í hálsinum. Það er samt verst að þurfa að tala við lækninn. Hann spyr mig alltaf hvernig ég hafi það, hvort ég sé búinn að gera einhverjar ráðstafanir til að undirbúa daginn sem nálgast óðfluga, rétt um mánuður segir hann. Var alveg hættur að spá í því. Það er samt verst hvað læknirinn er alltaf að reyna að fá mig til að biðja með sér. Ég er alltaf að láta hann vita að ég trúi ekki á guð eða engla eða himnaríki, samt reynir hann alltaf að troða þessu inn á mig.
Það var ekki fyrr en að læknirinn fór að tala um það hversu stutt er í lokin, að ég fór að hugsa um það hvað ég á aldrei eftir að upplifa. Ég hef til dæmis aldrei ferðast, dreymdi um að verða mikill könnuður þegar ég var yngri, ætlaði aldeilis að leggja land undir fót. Ég mun aldrei verða faðir, aldrei komast á forsíðu Morgunblaðsins fyrir eitthvað merkt afrek.
En þessa 5 mánuði síðan ég fékk fréttirnar hef ég samt sem áður upplifað svo margt. Kynntist ástinni og skemmti mér vel í fyrsta skiptið á ævinni. Margar nýjar upplifanir, engar áhyggjur, ekkert hik. Verst að það þurfti dauðadóm til að koma manni af stað.
Home is where your bacon is