Þessa smásögu (örsögu, reyndar) skrifaði ég á innan við klukkutíma í kvöld. Ég verð að viðurkenna að ég er frekar sáttur með hana. Hún er eiginlega grunnur að ritstíl og nokkurs konar bakgrunnur fyrir stærra verk sem ég ætla að leggja í þegar ég hef loksins næði og nóg af hugmyndum til þess að hripa það niður.

Ég eyddi varla tíu sekúndum í titilinn, ef ykkur líkar hann ekki þá getið þið hundsað hann, ég varð víst að hafa einhvern titil.

—————————————

„Veistu, nóttin er miklu betri en dagurinn.“
„Af hverju segirðu það? Það er alltaf svo dimmt á næturna.“
„Dagurinn er bjartur en hann lýsir á alla ljótu hlutina í lífinu. Á næturna eru stjörnur himinsins allsráðandi og skugga er varpað á alla vonda hluti. “
„En fara ekki vondir hlutir fram í skuggum næturinnar?“
„Allir verstu glæpirnir eru framdir um hábjartan dag. Þegar sólin skín eru götur borganna mannmargar, þær eru opnar fyrir fjöldamorðum alla daga. Á daginn dynja byssuskotin á hersveitunum. En á nóttunni sitja guðirnir yfir heiminum og fylgjast með því sem gerist. Stjörnurnar eru augu guðanna. Þeir sjá til þess að allt fari með kyrrum kjörum á nóttunni.“
„Búa guðirnir þá á stjörnunum?“
„Alls ekki, lambið mitt.“
Og ég leit upp í augu föður míns. Þessar grænu glyrnur glömpuðu í mánaskinu. Ég leit niður í vatnið og sá spegilmynd mína flökta við hliðina á títanískri fígúru hans. Blásturshljóðfærið vindur hóf upp raust sína. Ég flækti mig betur í kuflinum og faðmaði fætur mína.
„Mér er kalt.“
„Hérna.“
Lítill logi birtist á jörðinni og áður en langt um leið var kominn lítill, myndarlegur varðeldur þar sem rakt gras hafði áður kúrað.
„Pabbi, hvernig ferðu eiginlega að þessu?“
„Ég veit það ekki, blómið mitt. Ég get ekki útskýrt þetta, ég einfaldlega get. Ég lærði að nota þessa orku en ég lærði aldrei að útskýra hana. Þetta kemur bara með æfingunni. Af hverju veit þó enginn.“
Ég hafði aldrei fyllilega skilið galdra og geri það ekki enn þann daginn í dag. Samt bægslast ég með galdra dag eftir dag, rannsaka þennan dularfulla kraft, en ég hef ekki enn fengið næg svör við spurningum mínum. Þetta er sú spurning sem hefur verið á vörum manna í tugi, jafnvel hundruði ára. Í tvö hundruð ár höfum við verið að nota þessa miklu orku sem aflgjafa. Hann er nóg til þess að ýta járnbrautarlestum á milli heimshorna, sigla á höfum jarðarinnar og jafnvel fljúga meðal hvítra skýanna. Um leið og við lærðum að beisla kraftinn gátum við farið að nota tæknina fyrir alvöru.
„Jæja, eigum við ekki að koma okkur heim. Ég er viss um að móðir þín verði ekki kát ef við látum bíða svona eftir okkur.“
Ég greip lauslega í kuflinn hans og staulaðist upp á veg með vitringnum honum föður mínum og kyssti vatnið okkar litla bless þar sem við stóðum uppi á hæðinni sem gnæfði yfir það. Það stóð kyrrt um stund en kyssti mig svo máninn tók af stað í miðju þess. Á leiðinni heim varð mér hugsað um það sem pabbi hafði sagt við mig fyrr um kvöldið og starði upp til stjarnanna.
Er það virkilega rétt það sem pabbi sagði? Vakið þið yfir okkur í skjóli nætur?
Stjörnurnar þögðu en héldu þó áfram að horfa á okkur. Einstaka sinnum blikkuðu þær, líkt og einhver ósýnileg rykkorn hefðu ráðist til atlögu og lokað þeim í brot úr sekúndubroti.
Þeir eru þá mannlegir…