Ok… ég er soldið að prófa mig áfram hérna.. ég er sko mjög ný á þessu huga-dóti og kann squad á tölvur :P.. Anywho, þá ákvað ég að setja eina af smásögunum mínum… bara svona til þess að prófa hvort að ég get látið tölvuna gera það sem ég bið hana um :D
Enjoy :)


Hún gekk hröðum skrefum eftir myrkri götunni. Allt var hljótt fyrir utan taktfast fótatak hennar sem bergmálaði milli húsanna. ,,Verst að ég verð að henda skónum,” hugsaði hún með sjálfri sér og leit niður á blóðuga skóna. Hún yrði að brenna allt heila helvítis draslið, kápun, pilsið, allt. Þvílíkt sem ógeðinu blæddi. Það fór út um allt, yfir hana alla.
Skyndilega skaust kolsvartur köttur í veg fyrir hana. Hann hljóp yfir götuna og staðnæmdist á gangstéttinni hinum meginn, settist niður og glápti á hana. Hún bölvaði í hljóði. Þetta boðaði ógæfu. Svo glotti hún með sjálfri sér. Hún var alla veganna heppnari en helvítis viðbjóðurinn sem lá nú kólnandi í ruslagámi í skítugu húsasundinu. Kötturinn sat enn og starði á hana gulum augum þar sem hún stóð og starði á hann á móti. Hann hallaði undir flatt eins og hann vildi segja, ,,hafðu ekki áhyggjur, hann átti þetta skilið”. Svo skokkaði hann aftur af stað og hvarf undir limgerðið við næsta garð.
Hún gekk aftur af stað, örlítið óstyrkum skrefum. Áfengið var enn í blóðinu og þó að atburðir kvöldsins hefðu neytt hana til að hugsa skýrt, fann hún enn fyrir áhrifunum.

Því lengra sem hún gekk, því léttari varð hún í spori. Hún raulaði með sjálfri sér meðan hún stakk lyklinum í skrána og opnaði dyrnar að íbúðinni sinni, ,,Oh lover, you should have come over”.
Hún hallaði sér yfir vaskinn á baðherberginu og horfði á sjálfa sig í speglinum. Hrafnsvart, liðað hárið var nú kleprað af frosnu blóðinu. Hún hafði verið lengi á leiðinni þar sem hún þurfti að fara fáfarnar krókaleiðir til að rekast ekki á fólk. Það var ekki sjón að sjá útganginn á henni. Andlit hennar var atað blóðslettum og glóðurauga farið að myndast á öðru auganu. Hún klæddi sig úr fötunum og steig varlega inní sturtuna. Blóðlitað vatnið skolaðist niður um niðurfallið ásamt syndum hennar.

Eftir sturtuna stóð hún lengi nakin fyrir framan spegilinn og virti fyrir sér líkama sinn. Hún var öll skrámuð, þó mest á höndum og hnjám, og víða voru dökkir marblettir farnir að koma í ljós. Sigurbros lék um varir hennar. Hún var sterkari. Sigurvegarinn. Fórnarlamb? Nei, ekki lengur. Ekki eins og síðast. Hrollur fór um hana þetta andartak sem hún opnaði dyrnar að grafinni, en þó ekki gleymdri minningu. Eins og þegar maður slysast til að opna útidyrnar í vondu veðri og fær vinhviðu beint í fangið.
Hún hristi þessa tilfinningu af sér meðan hún gekk inní svefnherbergið og smeygði sér í slopp og inniskó. Hún fór fram í eldhús og kveikti á kaffivélinni. Meðan kaffið draup rólega í könnuna, tók hún til blóðug fötin sem hún hafði klæðst fyrr um kvöldið, og tróð þeim í ruslapoka. Hún myndi losa sig við þau á morgun. Keyra einhvert út fyrir bæinn og brenna þau.

Hún horfði hugsandi út um eldhúsgluggann á meðan hún saup á sjóðheitu, svörtu kaffinu. Hún hafði ekki gert sömu mistökin aftur. Árin höfðu bara gert hana sterkari. Í þetta sinn hafði hún barist og haft betur. Í þetta sinn var hún sigurvegarinn. Henni fannst hún sterk. Sterkari en nokkru sinni fyrr. Hún sat við eldhúsborðið og yljaði sér við hugsanir sínar, meðan kolsvart náttmyrkrið lá eins og þykkur möttull yfir borginni. Það var eins og myrkrið væri að reyna að kæfa borgina. Gleypa hana. En eins og sál hennar, streittist borgin á móti. Með öllum sínum ljósastaurum lýsti hún upp götur sínar þannig að myrkrið náði ekki yfirhöndinni. Og eins og borgin, hafði sál hennar betur hverja nóttina á fætur annarri. Það var að vísu erfitt og martraðirnar sóttu sífellt á hana, í draumi sem og í vöku. Þrátt fyrir það hélt hún áfram að lifa sínu lífi, fór á fætur á morgnana og hélt áfram. Það var meira en sagt verður um marga.

Þegar hún skreið loks undir sængina sofnaði hún samstundis, þrátt fyrir kaffið, og svaf út alla nóttina. Í fyrsta sinn í 7 ár vaknaði hún ekki æpandi í svitakófi. Í fyrsta sinn í 7 ár svaf hún værum svefni. Hefndin er sæt…