Hún var platínum blá. Perlan sem hún sýndi mér var platínum blá. Ég varð orðlaus er hún afhenti mér þennan dýrgrip, þetta undur veraldar sem einungis sandkorn af mergð fólks jarðarinnar hafði séð, hvað þá snert.

Hún var ósnertanleg. Það var hin stærsta og versta synd að snerta perluna. Samkvæmt ritningu risanna var perlan sögð hafa vald yfir sálu allra manna heims, þó hún var svo lítil að ég gat komið henni fyrir milli vísifingurs og löngutangar, í litla svæðið þar sem hún er algjörlga umlukin fingrum mínum, algjörlega örugg.

Jú. Ég snerti hana. Ég og hún, hún með hin geislandi augu, geislandi og glettin, en svo blíð og falleg, eins og birta fallinnar stjörnu sem lifir endalaust en aðeins í nokkur sekúndubrot. Við gerðum það sem enginn hafði nokkurntíman gert áður. Við snertum perluna. Við snertum hana, við höndluðum hana saman, þétt upp við hvort annað og horfðumst svo í augu og sögðum hvort öðru hve mikið við elskuðum hvort annað. Hún var mín að eilífu….
Kalt beitt stálið fór í bak hennar, í gegnum húð vöðva og bein, og endaði í brostnu hjartanu. Lífið hvarf samstundis úr augum hennar, en ekki áður en ástarsorgin, hryggðin, skein. Hún vissi að það var ég. Hún hneig niður, féll á kaldann steininn, eitt stakt tár staðnað við munnvik hennar, tár sorgarinnar, tár sársaukans. Augu hennar hættu að geisla.
En ég hafði hana. Ég hélt uppi platínum bláu perlunni, sem skein svo undursamlega að sælutár mynduðust í mínum eigin augum. Ég sleppti takinu á blóðugum rýtingnum.
Ég hafði hana.
Hún var mín.
Ég hafði hana…


Bjart ljós. Svört dimma. Ég veit ekki hvað er að gerast. Ég lít niður. Það er allt móðukennt, skuggasælt, óskýrt. Ég sé stál koma út úr mínu vinstra brjósti. En skrýtið…ég hélt alltaf að hjartað væri hægra megin…mikið af vökva í munninum. Of mikið. Ég missi jafnvægið. En ekki áður en ég heyri orðin: “Þú sveikst mig.”
Ég byrja að falla…ég finn jörðina koma nær og nær…
En hún var mín.
Ég myndi aldrei sleppa henni. Ég myndi ekki sleppa henni þó undirveröldin gripi mig, ég myndi draga hana með mér, ég myndi slátra öllum þjófum sem reyndu að hrifsa hana, ég myndi lifa þúsund ár í helvíti til að vernda hana….
Ég finn jörðina berja húð mína…
Ég finn einhvern snerta hönd mína…NEI…PERLAN…MÍN….en styrkurinn sem ég hafði fyrir sekúndubroti virðist þverra…allt er orðið grásvart…perlan er horfin…nei….
nei…
Hún er ekki mín.
Hún er horfin.
Stolin…Farin…
True blindness is not wanting to see.