Þú ert sérstakur. Þú ert einstakur. Þú ert öðruvísi.
Þau voru ekki upp á marga fiska svörin sem ég fékk frá foreldrum mínum þegar ég spurði þau hvað væri eiginlega að mér. En það er erfitt að segja sex ára dreng að hann eigi aldrei eftir að geta lifað eðlilegu lífi. Það er bara einhvern veginn ekki rétt. Þetta gerðist í hörðum árekstri. Ég man lítið sem ekkert eftir honum en ég man þó eftir litlu systur minni þegar hún lá á gangstéttinni með hausinn á grúfu í stórum blóðpolli. Hárið hennar var ekki lengur slétt og gljáandi. Það var rautt og hvítt og mettað af blóði og öðrum líkamsleifum. Hún hafði ekki verið í belti og því hafði hún þotið út um gluggann. Ég man ekki eftir bílnum sem keyrði á okkur, ekki heldur hve þungt höggið var eða hvort ég hafði grátið, en ég man eftir systur minni og hvernig ég breyttist. Ég slapp með höfuðáverka og fótbrot en ég hefði fremur kosið örlög systur minnar heldur en það sem að ég hef gengið í gegnum eftir slysið.
Ég tók eftir því fyrst aðeins tveimur dögum eftir slysið þegar ég var ennþá á spítalanum. Það var gömul kona sem var að skipta á rúmfötunum mínum þegar að ég fór að hugsa um hvort að henni fyndist gaman að vinna við að hjálpa fólki á klósettið og skipta um rúmföt. Konan hætti að búa um rúmið, leit á mig hvössum augum og sagði hátt: \“Ég hafði ekki möguleika á menntun þegar ég var yngri og því er ég í þessari vinnu.\” Ég leit á hana með galopin augu og var mjög hissa. \“Þú ættir bara að vita betur en að gera grín að fólki sem er að vinna hörðum höndum til að sjá fyrir fjölskyldunni sinni.\” sagði hún með harðri og kaldri röddu, sneri sér við og hélt áfram að búa um rúmið. Ég starði enn á hana og hugsaði með mér: \“Hvernig gat hún heyrt þetta ef að ég var að hugsa þetta? Talaði ég nokkuð upphátt? Heyrir hún í mér núna?\” Konan leit á mig og sagði: \“Ég get ennþá heyrt í þér og ef þú hættir ekki að gera grín að mér þá geturðu búið sjálfur um rúmið. Ég var furðu lostinn og vissi hvorki upp né niður. Hvernig hafði hún getað lesið hugsanir mínar svona auðveldlega? Var ég í raun og veru að hugsa upphátt? Í því gekk roskinn maður í sjúkraslopp framhjá hurðinni. Ég hef eflaust verið að hugsa um hversu hrukkóttur hann væri því að um leið og ég kláraði hugsunina þá leit hann á mig með reiðisvip. \”Þú skalt ekki vera að brúka munn við fullorðna, strákur. Veistu ekki að það getur verið hættulegt fyrir þig?\“ sagði hann með hásri röddu. Nú vissi ég ekkert hvað ég ætti til bragðs að taka. Það var eins og allir gætu lesið hugsanir mínar.
Margar spurningar brutust um í hausnum á mér. \”Af hverju get ég ekki lesið þeirra hugsanir? Af hverju finn ég ekki muninn á því hvort ég sé að tala eða hugsa?\“ Svarið var einfalt þegar ég spurði foreldra mína. \”Þú ert sérstakur. Þú ert einstakur.\"
Lífið mitt eftir þetta hefur verið hreinasta helvíti. Í brúðkaupinu mínu fór ég að hugsa um hversu flegnir kjólarnir voru sem að brúðarmeyjarnar klæddust. Það heyrðu það allir og og kvöldið var hið vandræðalegasta. Ég skildi við konuna mína tveimur vikum eftir brúðkaupið. Hún gaf mér enga skýringu á því hvers vegna hún vildi skilnað. Enda var það ekki nauðsyn. Ég þurfti ekki að geta lesið hugsanir til að sjá hver ástæðan var. Ég var algjörlega hreinskilinn og ég gat ekki ráðið við það. Allt sem hún vildi ekki heyra, það fékk hún að heyra. Ef hún spurði mig hvort hún væri of feit í einhverju hugsaði ég hreinskilnislega.
Síðan hef ég lítið aðhafst. Það eru tíu ár síðan ég missti konuna mína, það eru tíu ár síðan ég missti vinnuna mína og það eru tíu ár síðan að ég missti vitið. Nú hef ég ekkert að gera nema að föndra á þriðjudögum og fimmtudögum og reyna að hugsa ekki. Það er frekar erfitt að reyna að komast hjá því allt sitt líf að hugsa því að þá byrjarðu að venjast því að hugsa ekki og ef þú hugsar ekki áður en þú framkvæmir eitthvað þá er auðvitað engin hugsun í því. En ég er ekki einstakur. Ég er bara einn.