Þetta er saga um mann sem er á dánarbeði sínu og hugleiðingar hans…


“Mamma er himnaríki eins og borg?” Ég spurði móður mína þessa spurningu þegar ég var fimm ára, en amma mín hafði látist og móðir mín var að útskýra fyrir mér hvert hún væri farin.
Núna er ég ekki nema þrítugur og ég finn að það er farið að styttast í það að ég muni yfirgefa þennan heim, þessi spurning mín til móður minnar þegar ég var barn hefur oft komið upp í huga minn á seinstu vikum og dögum.
Himnaríki er borg í mínum huga, borg sem ber nafnið Konstantínópel, götur borgarinnar eru úr marmara og svo fögur að tár læðast fram í augu mín, máski að borgin sé ekki þar en ég vil trúa því að svo sé.
Ég horfi út um gluggann og uppí himininn og velti því fyrir mér hvort þetta séu sömu stjörnur og fyrir ofan borgina sem er í huga mér himnaríki, ég renni fingrum mínum yfir höfuðið sem eitt sinn var þakið svörtu þykku hári en er nú alveg hárlaus.
Veikindi mín eru búin að draga úr mér allan mátt, ég barðist strax gegn þeim en síðan gafst ég upp, ég gat ekki meira, það var of erfitt að berjast gegn þessu, ég fann líkamann veikjast meira og meira, á endanum kaus ég að hætta að berjast og fara í gegnum lyfjagjafirnar en þær voru ekki að gera neitt gagn, bara að lengja dauða minn.
Götur Konstantínópel heilla mig meira og meira, ljós borgarinar eru svo fögur í huga mér og mig langar til að ganga göturnar og sjá kunnugleg andlit og vinarleg, ekki þá sem ætið ganga í hvítum sloppum og pota í mig með alls kyns nálum og slíku.
Ég held að stjörnurnar yfir Konstantínópel séu draumar mínir, máski hugsanir mínar og ýmindanir einnig, hvað ef stjörnurnar séu allt sem okkur hefur langað til að verða en ekki getað, ég vildi óska þess að ég vissi það.
Líkami minn er veikur og ég verð að setjast annars mun ég falla á gólfið eins og brúða, limir mínir eru sem brauð, veikir og veiklulegir og ég get ekki nýtt þá til þess sem ég gat, ég sem eitt sinn var hestamaður mikill, ég varð að gefa drauma mína upp á bátinn.
Máski mér hafi aldrei verið ætlað að lifa því lífi sem ég hafði byrjað að lifa, ég var hamingjusamur og ástfanginn en svo fór ég að veikjast, fá marbletti, önnur tveggja ástana í lífi mínu bað mig um að fara til læknis og athuga hvað væri að.
Ég bjóst aldrei við því að ég yrði þetta veikur, svo máttlaus og ekki með neinn vilja til þess að lifa þennan stutta tíma sem ég enn á eftir, ég hef misst allt sem ég elskaði og elska, hvernig gat ég neytt þær til þess að halda áfram að vera við hlið mér á meðan ég lá hér og gat ekkert gert, ég vona að þær verði hamingjusamar.
Þurrka tárin sem renna niður vangana og tek upp bókina sem ég var byrjaður að skrifa henni bréf í, ég vil geta kvatt á mína eigin vegu, vil ekki að það sé talað fyrir mína hönd, ég vil að það sé frá mínu hjarta, ég vil kveðja þá sem ég elska.
Hvernig á ég að segja það að ég hafi gefist upp og hætt að vilja að lifa, hún er ekki nema fimm ára og mun ekki skylja það að pabbi gat ekki verið lengur hjá henni, máski ég segi henni frá Konstantínópel, himnaríki mínu og draumaveröld, hún er ein stjarnana minna, hún er draumur minn, mig dreymir að sjá hana vaxa úr grasi og verða hamingjusöm.
Ég loka umslaginu og rita nafn hennar á það, set svo annað bréf í umslag og rita nafn móður hennar á það, ég varð að biðjast fyrirgefningar á uppgjöf minni en ég veit að hún elskaði mig eins mikið og ég hana.

Ég loka augunum og leggst til svefns. Ég heyri í kringum mig allskyns klið, hlátur og mælgi margra, opna augun og lít upp til stjarnana í Konstantínópel á meðan ég geng á marmaragötum hennar.

—-
Endilega segið mér honestly hvað ykkur finnst… Hvað er það við hann sem heillaði ykkur? Er Konstantínópel staður sem þið mynduð vilja fara til?