“Hey, Karen! Hver er þetta þarna úti?”

Ég var heima hjá kærustu minni, Karenu. Við vorum ein þar að horfa á einhverja mynd - ég vissi ekkert hvað hún hét en Karen hafði séð hana sjö sinnum - um konu sem er hafnað af móður sinni. Átakanlegt drama þar og allt það, en það kemur þessu máli ekkert við.

“Hvað?” svaraði hún, stóð upp og gekk hægt að mér, en ég hafði verið að opna glugga þar sem það var frekar heitt inni í húsinu.

“Þessi maður … Úti í garðinum … Mér finnst ég kannast við hann, þekkir þú hann?”

“Bíddu … Hvar er hann?” Ég benti. “Ha? Já, þarna. Hmmm … Jú, þetta er bróðir mömmu! Hvað er hann að gera hérna?”

“Eeeeekki glóru,” svaraði ég.

“Jæja … Kannski bara … að vökva rósirnar,” sagði hún. Það væri fáránlegt, þar sem það var miður febrúar, en ég sagði ekki meir. Við settumst nú niður og héldum áfram að horfa á myndina en mér var ekki alveg um sel.

Ég stóð skyndilega upp: “Ég ætla að fá mér vatn.” Karen gaf frá sér einhverskonar hljóð sem ég túlkaði jákvætt og fór því.

Þegar ég hafði fengið mér minn vatnssopa heyrði ég skyndilega öskur - hljómaði eins og Karen - og hljóp því af stað inn í stofu.

Þarna var maðurinn, hann hélt henni niðri en hún barðist um líkt og villtur selur - stúlkan mín - en hann var þó greinilega mikið sterkari. Hann virtist vera að reyna að kyssa hana, ég öskraði á hann.

“HÆTTU! Djöfulsins perraógeð, farðu af henni!”

Ekki að það hafi verið mjög sniðugt - allavega bætti það ekki lífslíkur mínar. Hann leit upp, steinhissa, sá mig og fékk einkennilegan glampa í augun. Hann fór af henni og gekk hægt í áttina að mér. Ég var orðinn dulítið smeykur - geðveikur maðurinn gangandi í átt að mér. Skyndilega stökk hann á mig - ég var ekki undirbúinn og datt því aftur fyrir mig þegar allur hans þungi lenti framan á mér.

Ég reyndi að ýta honum af mér, án árangurs. Hann var bæði mikið sterkari og stærri en ég. Hann greip svo með annarri hendinni um háls minn og kreisti - fast. Ég fór með báðar hendur á hendi hans og reyndi að losa hana, en þá kom hann bara með hina krumluna og hélt höndum mínum á hinni hendi hans. Ég náði að losa aðra hendina og reyndi að laumast með hana niður í buxnavasann minn þar sem ég geymdi dúkahníf, til að geta stungið hann - eitthvað þurfti ég að gera. Ég náði hnífnum og opnaði hann, en þá tók hann eftir þessu og þrýsti hægra hnénu sínu á vinstri hendi mína - þá sem var að ná í hnífinn - svo ég missti hann. Skyndilega fann ég hvernig ég varð máttlausari og máttlausari - ég varð syfjaður og sársaukinn fór að minnka, allt virtist ætla að vera gott aftur. Ég var við það að loka augunum og leyfa mér að sofna þegar skyndilega ég gat andað aftur - ég dróg andann hratt og sá þá hvað var þess valdandi að hlunkurinn var ekki að kyrkja mig.

Hann lá þarna við hlið mér, blóðið vætlaði úr sári á hnakka hans. Yfir honum stóð Karen með verðlaunabikar í hendinni - smá blóð á honum - og hún virtist vera í algjöru sjokki. Ég velti honum á bakið og færði andlit mitt að hans - hann andaði ekki. Hann var dáinn. Karen hafði drepið hann.

“Ó, sjitt,” sagði ég. Ég leit upp á Karen - við fyrstu sýn virtist hún enn vera með andlitið frosið í sameiginlegan skelfingar- og undrunarsvip - en við nánari athugun sá ég að tár vætluðu hægt niður náfölar kinnar hennar. Ég stóð upp og tók utan um hana. Eftir nokkrar sekúndur hallaði hún sér að mér og grét í öxl mér.

“Hey … Svona, svona … Ekki syrgja hann, ég sá ekki betur en að hann væri að reyna að nauðga þér þarna áðan. Ekki gefa honum tárin þín … Hann á þau ekki skilið. Hann reyndi að nauðga þér og myrða mig,” hvíslaði ég að henni. Smám saman minnkaði gráturinn og fyrr en varði heyrðist aðeins stöku hiksti á meðan hún jafnaði sig. Svona stóðum við í stutta stund áður en hún sagði:

“Hvað eigum við að gera við hann?”

Ég þagði í stutta stund.

“Ég veit ekki.”

Aftur kom þögn. Ég reyndi eins og ég gat að upphugsa eitthvað til að gera við hann. Ekki brytja hann niður - sjúkt - varla að skilja hann eftir þar sem hann var …

“Köstum honum niður af bjargi,” sagði Karen skyndilega. Ég hugsaði málið … Þegar - ef - hann fyndist þá myndi fólk líklegast ekkert vera að pæla í því hvort hann hafi verið dauður fyrir fallið.

“Ókei. Setjum hann í ruslapoka og út í bíl … ókei?”

“Allt í lagi,” svaraði hún, “og já, ég skal þurrka blóðið af gólfdúknum …” Ég fór fram í eldhús og náði í ruslapoka, tvo, og sneri að því loknu aftur inn í stofu. Þar var Karen búin að ýta aðeins við manninum og setja nokkur bréf undir sárið, og nýbyrjuð að skúra. Ég bað hana að hjálpa mér að setja hann í pokana um leið og hún væri búin að þessu, hún kinkaði kolli við því.

Eftir þónokkra stund - í mínum huga, þetta voru líklegast aðeins fáeinar mínútur - var hún búin að skúra þetta. Það hafði verið smá blettur fastur þarna, pínulítill, en svolítið Coca-Cola bætti úr því.

Við hófumst þá handa við að koma honum í pokann, sem var enginn barnaleikur þar sem hann var a.m.k. heilir 190 cm á hæð og 100 kg, fætur fyrst. Eftir mikla fyrirhöfn var hann loksins ofan í pokanum. Þá skelltum við hinum pokanum yfir hausinn á honum og niður, þar sem að hann hafði náttúrulega ekki komist allur ofan í einn ruslapoka.

Við tókum undir sitt hvoru megin, hann var þungur en okkur tókst þó að lofta honum. Við vorum búin að greiða leiðina út í bílskúr og þar beið jeppi foreldra hennar - þessi sem þau höfðu ekki farið á í sumarbústaðinn - og við skelltum gaurnum þangað inn. Lafmóð fórum við yfir húsið - var blóðsletta einhvers staðar, var eitthvað sem benti til þess að hann hefði verið þarna, var eitthvað öðruvísi en það átti að vera - en allt var fullkomið. Við löbbuðum því að jeppanum og settumst inn, hún í bílstjórasætið þar sem hún hafði meiri reynslu af ökutækjum eftir að hafa alist upp í sveit til 13 ára aldurs, og ókum af stað.

Eftir langa - eða stutta - ökuferð tók ég eftir landinu fyrir neðan mig - við vorum á leiðinni upp eitthvert fjallið. Stuttu eftir það stoppaði hún, ég sá hamra stutt frá okkur. Við stigum út í þögn og gengum að brúninni. Við litum niður, kletturinn sem við stóðum á skagaði aðeins út. Fullkomið.

Hún gekk til baka og keyrði jeppann eins langt að brúninni og hann komst. Þegar hún átti enn 25 metra eftir stöðvaði hún, hún tók ekki áhættuna á því að fara nær. Ég gekk því að jeppanum og opnaði skottið. Hún kom til mín og saman tókum við hann út og bárum að brúninni. Þar lögðum við hann niður og tókum pokana af honum. Ég virti hann fyrir mér. Augun voru opin, þau lýstu helst algjörri gleði í bland við smá undrun, munnurinn var hálfopinn og hnakkinn hálfblóðugur, annars virtist ekkert að honum.

“Tilbúin?” spurði ég. Eftir smá hik kom svarið:

“Já.”

Við tókum undir axlir hans og lyftum honum upp með erfiðismunum - ég skil ekki hvernig við gátum lyft honum svona um allt en viljinn hefur líklegast haft sitt að segja - og að lokum var hann uppréttur. Við vorum alveg á brúninni, það voru líklegast heilir 30 metrar niður og þar beið ekkert nema stórgrýti. Hægt og rólega ýttum við honum, lengra, lengra …

Allt í einu missti Karen fæturna, hún sleppti honum og barðist við að ná jafnvægi. Ég sleppti honum undir eins og reyndi að grípa í hana en við það datt gaurinn aftur fyrir sig þannig að ég hrasaði um hann, datt á hana og saman flugum við niður.

Á leiðinni horfðumst við í augu, ég sá skelfinguna í augum hennar, augu mín hafa líklega endurspeglað hennar. Ég reyndi að taka hana í fang mér áður en við lentum, það rétt tókst. Því miður fór samt svo að Karen lenti undir mér og tók hún því hálfgert fallið af mér, ég þeyttist samt frá henni og rak hausinn í. Ég fann mikinn sársauka í höndum, fótum, baki, alls staðar. Allt virtist vera brotið, hvert einasta bein í líkama mínum. Það var kalt úti, ég var ekki rétt klæddur fyrir útiveru.

Ég fann lífið fjara úr mér, nokkrum mínútum eftir fallið breyttist það þó. Ég fann engan sársauka, engan kulda, ég prófaði að standa upp, ég gat gengið.

Ég leit upp, þar var Karen, hún virtist líka ómeidd. Ég hljóp til hennar, hún á móti mér, við vorum alveg við það að ná til hvors annars…

Skyndilega klessi ég á eitthvað og fell aftur fyrir mig. Ég stend aftur upp, ég sé að Karen hafði líka dottið. Ég ætlaði að labba til hennar en komst að því að það var ósýnilegur veggur á milli okkar. Ég reyndi að tala til hennar, en engin hljóð komu frá mér. Það sama virtist vera að hjá henni, hún virtist vera að öskra á mig en ég heyrði ekkert, gat bara séð hana.

Þá skildi ég þetta.

Við vorum dáin. Við vorum dáin og þetta var refsing okkar fyrir gjörðir okkar, fyrir morðið, fyrir að hafa ætlað að losa okkur við hann, við þurftum að vera svona.

Ég settist á stein, hún á móti mér, og byrjaði að gráta hljóðlega.