Mig langar að biðja ÞIG um að segja mér hvernig þér fannst þessi saga. Ég hef skrifað sögu hérna áður, og fékk voðalega lítil viðbrögð. Ef þér finnst sagan léleg, eða leiðinleg, vinsamlegast notist við uppbyggjandi gagnrýni og segðu mér frekar hvað mætti betur fara, í stað þess að rakka mig niður. Íhugið meininguna bak við orðin, því að á bak við hvert orð, hverja setningu er önnur og djúpstæðari meining.
Hér er ég í fyrsta sinn að spreyta mig á að skrifa um þá margumtöluðu hugmynd “Himnaríki og Helvíti”, og þessi saga er í heldur ,,væmnari” kantinum, miðað við annað sem ég hef skrifað.
Einnig vil ég vekja athygli á því að þótt sagan sé skrifuð í 1. persónu karlkyni, er ég samt sem áður kvenkyns : )



Frá Himnaríkis til Helvítis


Hvítt, hvítt, hvítt, hvert sem litið var. Aleinn, og yfirgefinn. Sálin grét gylltum tárum og augun reikuðu óttaslegin um umhverfið sem var svo ósköp tilbreytingarlaust.
Enginn gæti lagað mína sjúku sál, sem var við það að brotna í þúsund bita. Ég var eyðilagður og augun fylltust af tárum. Ég hélt að aldrei myndi ég finna blíða geisla sólarinnar dansa á vöngum mér, grænt grasið kitla mig í iljarnar og vindinn leika um hár mitt. Svona yrði þetta í þúsund og þúsund ár, allt til loka laufskrúðs eikurinnar og allt til loka ævi minnar sem þó var nýbyrjuð. Ég hafði upplifað þann mesta sársauka sem nokkur maður getur orðið fyrir, en líklega þann síðasta líka.
Ég var farinn, fyrir fullt og allt. Allur heimurinn var mér hulinn, og ég vissi ekki hvað ég átti af mér að gera. Ekkert nema hvít birta svo langt sem augað eygði. Það var næstum eins og ég svifi í loftinu, því ekki gat ég fundið neina fasta fyrirstöðu.
Ég missti allt tímaskyn. Kannski voru liðnir tveir dagar, tveir mánuðir eða þrjár sekúndur, þegar loksins Konan í hvítu klæðunum kom til mín. Í fyrstu varð ég hræddur, en þegar hún horfði svo djúpt í augu mín, flaug hræðslan í burtu og sálin hætti að gráta. Í bili.
Hún horfði svo djúpt í augu mín, að hræðslan hvarf, líkt og dögg fyrir sólu. Kvíði, angist og sorg voru hugtök ókunn mér. Gleði, ánægja og hamingja fylltu í skörðin, og dagarnir hurfu hver á eftir öðrum, eins og orð hrannast upp á pappír.
Konan í hvítu klæðunum sveiflaði hendinni yfir landslagið og það sem áður var hulið kom nú í ljós. Ég starði opinmynntur á fegurðina og dansandi landslagið, skreytt vínviðarlundum, litríkum blómum og gulum ökrum sem sveifluðust í golunni. Við dönsuðum í sal sólskinsins, hlupum um dali blómanna og hvíldumst í höllu næturinnar. Dögunum eyddum við dansandi og syngjandi við undirleik vindsins sem ómaði í laufum trjánna. Við teyguðum vín úr stórum belgjum og gæddum okkur á stinnum vínberjum.
En eins og allt í þessum hverfula heimi, kom gleðigangan í höllu himins að enda. Konan í hvítu klæðunum fór burt einn daginn og kom aldrei aftur. Ég var aleinn eins og áður, og hræðslan tók sér bólfestu í sálu mér. Stuttu seinna komu hennar fylginautar, kvíðinn, sorgin og angistin. Enn einu sinni var ég fallinn á botn hyldýpisins, hyldýpis hræðslunnar. Svört þoka þunglyndis umlukti mig, þannig að ég sá ekki beina breiða veginn sem þó stóð beint fyrir framan mig. Ég ráfaði í villu um fagrar heiðar og bjarta dali, án þess að taka eftir fegurðinni og hamingjunni í kringum mig. Svarta þokan hélt öllum gleðilegum hugsunum í hæfilegri fjarlægð, nógu langt til að ég missti sjónar á þeim.

Svart, svart, svart, hvert sem litið var. Sál mín grét gylltum tárum, á meðan höfuðið kveinaði í angist sinni; hugsanir sturlunar fóru að gera vart við sig. Hugsanir sem ég hefði aldrei trúað að myndu fæðast í mínum eigin kolli fóru að skjóta rótum, og ég var orðinn vænisjúkur. Ekki veit ég hve lengi ég mátti dúsa í svörtu þokunni, einn og yfirgefinnn. En svo löng einsemd sem ég mátti þola gerir menn að föngum. Ég var orðinn fangi minna eigin hugsanna. Stórbrotna landslagið hvarf smátt og smátt, þar til einn daginn var það alveg horfið. Nú var allt eins og það var þegar ég kom hingað, fyrir utan að umhverfið var orðið svart, rétt eins og útlitið.
Fólk gerir sér undarlegar hugmyndir um heim illskunnar. Rauðar heykvíslar, halar og horn hafa ekki komið mér ekki fyrir sjónir allan þann tíma sem ég mátti dúsa í því helvíti sem þessi staður er. Skilgreiningin á helvíti er þó mismunandi eftir einstaklingum, rétt eins og helvíti er mismunandi eftir því hvers helvíti það er.
Og þrátt fyrir að ég hafi ekki komið auga á hin víðþekktu einkenni helvítis, varð ég var við önnur einkenni. Sá þrældómur sem vist í helvíti hlýtur að leiða af sér, varð mér vel kunnur. Þó svo að ég sjálfur væri eina lifandi veran í þessari vídd, að ég hélt, var ég vissulega í ánauð.
Hefði ég tök á því að breyta fortíðinni myndi ég gera það fegins hendi; ég myndi leggja allt í sölurnar, svo ég gæti með einhverju móti sleppt viðkomunni á þessum guðsvolaða stað. Ef einungis ég gæti breytt gjörðum mínum, orðum mínum, lífi mínu. Aldrei ég mun sleppa héðan. Ætíð ég mun dvelja í myrkrinu, einn og yfirgefinn. Ég eygi enga von á að sleppa þrátt fyrir góða hegðun.
Því beini ég orðum mínum til ykkar sem enn eigið von. Það sem þið gerið í lifanda lífi á allt eftir að verða metið seinna hvort sem það verður gert af fulltrúa hins góða eða illa. ,,Góður á jafnan góðs von“ og eins og í mínu tilfelli, ,,illur á jafnan ills von“.
Þið uppskerið eins og þið sáið.

Veela