Eins og skipsbrot, þegar staðreyndirnar renna upp fyrir mér, hver af annari, þeirri síðustu hrikalegri og kaldari. Og skynfærin lamast um leið og þú gengur inn grænmálaðan ganginn, með þína fögru kærustu þér við hlið, brosandi og hamingjusamur. Þið eruð þetta fyrirmyndarpar.
-Hvað eigum við að gera á eftir? Spyrðu og horfir í gegnum mig.
Ég svara þessu ekki, enda er ég ekki á staðnum. Þess í stað brosir kærastan þín fallegu brosinu og hnyppir öxlum. Hvað veit hún? Þið gerið bara eitthvað skemmtilegt, uppbyggilegt og öfundsvert eins og venjulega.
Þið kveðjist síðan á ganginum í innilegum kossi, þú heldur í aðra átt og skólastofurnar fyllast á ný við undirleik bjöllunnar.
Við erum í félagsfræði. Stjórnmál eru til umræðu og það fyrsta sem mig langar að gera er að hlaupa út. Mig langar svo að rífast, en þar sem ég er ekki á staðnum þá get ég það ekki.
Kærastan þín brosir smjaðurslega til kennarans og bestu vinkvennana, sest hjá þeim og tekur upp skólabækurnar. Raðar þeim fullkomlega skipulega á borðið, og bíður fyrirmæla kennarans.
Tíminn líður hægar og hægar. Þegar kennslustundin er hálfnuð mæti ég loksins, þreytt og sjúskuð.
Kærustunni þinni er illa við mig, og henni verður hverft við þegar ég birtist. En fáir aðrir virðast veita mér athygli.
Kennarinn lítur í áttina til mín, en bara stutta stund, snöggt og vingjarnlega. Hann getur ekki mismunað nemendum, þó að honum sé mishlýtt til þeirra.
Kærastan þín er komin úr jafnvægi, gersamlega. Hún horfir niður á gólfið og hefur misst alla einbeitingu. Stjórnskipulag á forngrískum tímum þýtur út úr heilanum og þess í stað einbeitir hún sér að mér, alfarið. Vera mín í stofunni hefur eyðilagt fyrir henni daginn.
Klukkan slær 14:45, tíminn er búinn og kærastan þín hleypur út úr stofunni, rétt á eftir mér. Hún eltir mig inn á klósett og skellir á eftir okkur. Hún gengur að mér með hótanir á bleikum vörunum;
-Ef þú kemur nálægt honum drep ég þig. Ég skal drepa þig!
Ég svara engu, stari bara forviða á þessa hálfókunnu manneskju.
-Ég veit alveg hvað gerðist. Það varst þú en ekki ég! Alla helvítis mánudagsnóttina!
Ennþá stari ég orðlaus. Og kærastan þín kýlir mig, beint í andlitið.
Blóðið lekur úr hnefa hennar þar sem hún hleypur fram á gang, í fangið á þér. Ég fylgi henni út, og spegillinn liggur í brotum á gólfinu.
Eins og skipsbrot, þegar staðreyndirnar renna upp fyrir mér, hver af annari, þeirri síðustu hrikalegri og kaldari. Og skynfærin lamast um leið og þú gengur inn grænmálaðan ganginn, með þína fögru kærustu þér við hlið, brosandi og hamingjusamur. Þið eruð þetta fyrirmyndarpar.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!