Ég sendi þessa smásögu inn fyrir aphexgirl, það er einhver bilun í gangi og hún gat ekki sent sjálf.
———————————————–

“Góði Guð. Ef þú kemur mér í gegn um þetta lofa ég að hætta öllu rugli og fara í meðferð. Ef þú bara ert hjá mér næsta hálftímann mun ég aldrei biðja um neitt annað.”

Ég veit að einhverntíman hef ég hugsað þessar setningar áður, en í þetta skiptið meina ég það svo sannarlega. Ég endurtek bænina stanslaust í huga mér til að þurfa ekki að hugsa um hvað ég er að fara að gera. Ætli allt fólk í mínum sporum hugsi það sama? Það er ekki auðvelt að vera á leiðinni í gegnum tollgæsluhliðið á Keflavíkurflugvelli með innyflin full af eiturlyfjum.
Ég bölva í hljóði fyrir að hafa ekki tekið með róandi töflur eða eitthvað til að gera þetta auðveldara. Ég er á skíta niðurtúr eftir djammið í Amsterdam og ekki búin að sofa neitt að ráði í 4 daga.
Ég titra niður rúllustigann og labba framhjá fríhöfninni. Ég hef ekkert erindi þangað, ég eyddi öllum peningunum mínum á djamminu úti. Ég geng rólega framhjá töskufæribandinu, ég var bara með handfarangur, einn bakpoka.
Djöfull er ég heimsk! Auðvitað verð ég stoppuð! Hvað er ég að pæla? Ljóshærð stelpa í skopparafötum með einn bakpoka að koma frá Amsterdam. Glær í framan undir allri málningunni og búin að þekja baugana með meiki. Ég mundi gefa hægri höndina fyrir að vera með dökkt uppsett hár og í drakt, eða í flugfreyjubúningi.
Mér finnst andrúmsloftið vera rafmagnað og veit ekki hvort fólkið við færibandið sé að stara á mig eða hvort það sé bara paranojan að plata mig. Ég þykist vera að bíða eftir töskunni minni og safna í mig kjarki. Á einhvern óútskýranlegan hátt næ ég að einbeita mér og róa mig niður. Guð er kannski ekki svo langt í burtu eftir allt saman.
Með ótrúlega skýra hugsun og adrenalínið í botni nálgast ég tollgæsluhliðið. Ég sé nokkra einkennisklædda verði sem reyna að sjá í gegnum fólkið sem gengur framhjá. Eins og í draumi svíf ég framhjá fyrsta verðinum. Hann horfir á mig með stingandi augnaráði en hleypir mér framhjá. Sá næsti tekur varla eftir mér, hann hefur augastað á fjölskyldu með 3 stórar ferðatöskur. Síðasti vörðurinn, lítill og þybbinn maður stendur við útgönguleiðina. Þegar ég á aðeins hálfan meter eftir tekur hann í öxlina á mér.
-Má ég sjá vegabréfið þitt?
Ég kem sjálfri mér á óvart og fæ ekki einusinni hnút í magann. Skyndilega er ég orðin heimsins besti leikari.
-Já, gjörðu svo vel.
-Ég sé þú ert að koma frá Amsterdam.
-Já það passar.
-Viltu koma hérna aðeins á bakvið með mér.
-Ekkert mál.
Ég er færð á bakvið hengi og hann biður mig um að bíða. Eftir ansi langar 5 mínútur kemur hávaxin, vinaleg kona með svartan labrador hund. Ég er óendanlega fegin að hafa farið í glæný föt sem anga ekki af hasslykt. Ég klappa hundinum og konan heilsar mér.
-Sæl.
-Sæl.
-Þú varst í Amsterdam?
-Jább.
-Hvað varstu að gera þar?
-Ég var að djamma með vinum mínum.
-Jájá, neyttirðu fíkniefna úti?
-Já, ég reykti reyndar einusinni hass en það er nú löglegt þarna úti.
-Jájá, en þú komst ekki með neitt inn í landið, eða tæki og tól til neyslu?
-Það er kannski jónupappír í töskunni minni, bara minjagripur.
Ég blikna ekki þótt ég ljúgi um neysluna úti og innflutninginn. Konan virðist trúa mér en leitar samt á mér og í töskunni minni. Hundurinn þefar líka af mér og töskunni. Konan starir á mig og reynir að meta mig. Mér finnst eins og hún horfi lengst inn í sálina á mér, en þegar ég er alveg að missa saklausa sveitastúlkusvipinn af andlitinu lítur hún undan.
-Þetta virðist vera allt í lagi. Þú mátt fara.
Ég trúi þessu varla. Með ótrúlega styrkri hönd loka ég bakpokanum og renni upp vestinu mínu. Ég þakka konunni fyrir og segi bless við hundinn. Ég kinka kolli til litla varðarins og hann hleypir mér út.
Ég er sloppin! Ég geng hratt út og kveiki mér í sígarettu. Ég halla mér upp að vegg og byrja að skjálfa. Þetta tókst. En nú er erfiði hlutinn eftir.
Ég þarf að efna loforðið við Guð.