Ég vakna á morgnana og lít á klukkuna. “7:00” segir hún. Ég andvarpa venjulega í svona mínútu og bylti mér. Svo hvíli ég mig aðeins lengur á meðan ég hugsa um hvað ég eigi bágt að þurfa að vakna svona snemma. Og það á hverjum einasta degi! Restin af þjóðinni á örugglega auðveldara með að vakna á morgnana. Ég þjáist ábyggilega af einhverjum framandi sjúkdómi sem er svo sjaldgæfur að læknirinn minn hefur aldrei heyrt um hann. Það hlýtur bara að vera.
Eftir sjálfsvorkunina reyni ég að hughreysta sjálfa mig í að stíga fram úr rúminu og tel mér trú um að gólfið sé ekki jafn kalt og ég haldi. Ég blöskra og hóta sjálfri mér hýðingu ef ég held áfram að ljúga svona að sjálfri mér. Á meðan táslurnar afþýðast á heitum flísunum (miðað við herbergisgófið), helli ég morgunkorni í skál og blanda því saman með mjólk og skelli svo einu stykki skeið ofan í allt heila klabbið.
Þá fer ég á baðherbergið og reyni eftir bestu getu að greiða næturflókann úr hárinu, en þar sem hendur mínar eru svo óhagkvæmilega staðsettar á hliðum búksins er alltaf stór flóki á hnakkanum sem mér yfirsést, samstarfsmönnum mínum til mikillar gleði. Ég er skotspónn allra ófullnægðu kvennana og karlanna í vinnunni minni; þau nota mig til að fá útrás fyrir reiði og biturleika sinn. Hinar konurnar í vinnunni minni eru örugglega með leynihendur aftan á bakinu sem gefur þeim forskot í stríðinu við næturflókann, því að þeirra hár er alltaf óaðfinnanlega greitt. Ég vildi að ég væri með hendi á bakinu.
Þegar ég er loksins búin að greiða mér fer ég fram og man eftir morgunkorninu mínu, sem nú er allt orðið gegnblautt og svo viðbjóðslega mjúkt að ég fæ ekki af mér að borða það. Þess vegna ríf ég upp ískápshurðina í örvæntingu og leita að einhverju að borða. En þar sem ég var að flýta mér svo mikið á leiðinni heim í gær, hafði ég ekki tíma til að fara í búð. Ískápurinn er galtómur og ég veit að ef hann væri lifandi myndi hann öskra á mig og húðskamma mig fyrir að gefa honum ekki að borða. Ég sem man varla eftir að gefa sjálfri mér að borða. Ég veit hvað morgunmaturinn er mikilvægur hluti af deginum þannig að ég gríp yfirleitt með mér eitthvað sem ég get borðað á leiðinni í vinnuna, eins og epli eða vondu smákökurnar sem virðast aldrei ætla að klárast. Með þessum óvenjulega morgunverði fæ ég mér oftast vatn, því að kaffi er eitthvað sem af einhverjum stórundarlegum ástæðum er aldrei til heima hjá mér. Þegar hér er komið sögu er ég venjulega langt frá því að vera södd, þannig að ég leita oft undir eldhúsinnréttingunni vegna þess að ég er svo klaufsk að venjulega rúllar helmingurinn af innihaldi innkaupapokanna þangað. Smá ryk drepur mig nú varla? Bara að ég væri skipulagðari og undirbúnari fyrir daginn. Ætli það sé hægt að láta græða í sig forsjálni?
Á meðan að ég borða skunda ég inn á baðherbergi og reyni að skvetta einhverjum rándýru málningarsulli framan í mig, með morgunmatinn í annarri hendinni og hina hendina á fullu að klístra sullinu í andlitið. Niðurstaðan er æði misjöfn, fer allt eftir því hvort að ég sé alveg nývöknuð eður ei. Ég er alveg hræðilega skjálfhent þegar ég er nývöknuð.
Ég er yfirleitt svona 30 sekúndur að klæða mig í yfirhöfn og skó, en þegar ég er að flýta mér virkilega mikið og má engan tíma missa, er ég svona 5 sekúndur að því. Afleiðingin er sú að ég fer æði oft í krummafót eða sný yfirhöfninni vitlaust, þannig að rangan snýr út. Nágrannarnir mæta í vinnu á svipuðum tíma og ég, þannig að þeir benda mér oft á mistök mín. Ég er náttúrulega að flýta mér svo mikið að ég horfi undrandi á þau og muldra “takk” og skýst svo út á bílastæði þar sem ég eyði heilli eilífð í að afþíða eldgamla lyklaskrá gömlu druslunnar minnar. Allir nágrannarnir hneykslast á því að ég keyri þessa ryðhrúgu, manneskja í minni stöðu. Ég sé það á svipnum á þeim þegar þeir þjóta af stað í vinnuna á nýju sérhönnuðu bílunum sínum sem aldrei þarf að eyða heilli eilífð í að afþíða. Svipurinn á fólki segir manni nefnilega undarlega mikið um hvað það er raunverulega að hugsa. Eins og hún Soffía á annari hæðinni grettir sig eitthvað svo undarlega þegar hún heilsar mér á morgnana ef við mætumst á leið okkar að bílastæðinu. Á meðan að munnurinn segir: “Nei, hæ! ‘Ogeðslega er þetta smart kápa sem þú ert í. Er hún ný?” segir andlitið greinilega: “Nei, nei, snýr hún ekki kápunni vitlaust aftur. Þvílíkur endalaus klaufi getur manneskjan verið!”
Þá segi ég ef til vill: “Þessi gamla drusla? Elskan mín, nei. Hvað er annars að frétta af þér?” en meina í rauninni “Já, ég var að kaupa hana en ég vil bara ekki segja það. En segðu mér endilega einhverjar grobb sögur af þér, bara svona til að fullkomna annars ömurlegan dag.”
Að lokum kem ég í vinnuna, dauðþreytt eftir átök morgunsins (sem m.a. fólust í því að reyna að láta munninn og andlitið vera sammála) og staulast upp stigann og sest við skrifborðið mitt. Þar sit ég þangað til að ég er fyllilega vöknuð til að erfiða, oftast um hádegisleytið en þá vill svo vel til að það er kominn matartími. Í hádeginu borða ég venjulega frekar mikið af því að morgunmaturinn var frekar snauður og svo er maginn minn svo lengi að senda boð til heilans, að ég er venjulega búin að fá nægju mína löngu áður en ég hætti að borða.
Þegar ég fer aftur upp og sest við skrifborðið mitt er ég svo södd að ég fæ ekki af mér að leggja það á mig að reyna mikið á mig. Þess vegna hvíli ég mig oftast aðeins í stólnum mínum þangað til að ég treysti mér til að vinna. Það gerist oftast í kringum tvö leytið en þá læt ég svo sannarlega hendur standa fram úr ermum, svona til að sýna nýliðunum að lífið er nú ekki bara dans á rósum. Ég lýk vinnu um fjögur til fimm allt eftir því hvað ég áorkaði miklu eftir hádegishléið. Starfið mitt er svo erfitt. Kannski ég ætti bara að fara að hætta þessu. Kraftar mínir myndu örugglega nýtast betur einhversstaðar þar sem fólk kann að meta mig. Þar sem fólk með flóka er vel liðið, þar sem afköst skipta ekki máli, þar sem ég gæti verið hrókur alls fagnaðar. Bara að slíkur staður væri til.