Lengst í burtu fyrir langa löngu voru systkini sem áttu sér þann draum heitastan að komast burt frá þeirri eymd og fátækt sem þau bjuggu við á Sílandi. Elstur þeirra var Lasdín. Hann var stór og sterkur og alveg rosalega þrjóskur. Hin systkinin litu upp til hans, en sérstaklega þó hún Díslan, sem var yngst af þeim þremur. Miðbróðirinn hét Andlís og honum fannst leiðinlegt hvað hann varð oft skilinn út undan. Innst inni elskaði hann systkini sín, en hann var ekki eins sterkur og Lasdín og ekki eins fallegur og Díslan. Hann var samt rosalega gáfaður.
Þau bjuggu á litlum kotbæ í stórum firði sem hét eftir Saí fuglum sem voru sérstaklega góðir til matar en lifðu bara á graslauk. Bærinn hét Saífjarðarkot og þau voru oft á tíðum mjög svöng vegna þess að þau þurftu að rækta svo mikið af graslauk handa Saí-fuglunum að borða svo þau gætu borðað hann og fengið í sig hálf. Á kvöldin leiddist þeim óskaplega í þessari litlu holu. Einn góðan veðurdag fóru þau þrjú í kaupstað sem var þar hjá. Aðallega vegna þess að á sjávarplássinu hjá kaupstaðnum var falleg kirkja, en systkinin þurftu að grafa foreldra sína sem höfðu dáið úr leiðindum síðast liðinn miðvikudag.
Í kaupstaðaferðinni hittu þau Jón Sigurðsson. Hann var feiminn lítil gutti og af því að hann muldraði svo var hann aldrei kallaður annað en Jónsi vegna þess að hann komst aldrei lengra en það þegar hann kynnti sig. Jónsi fékk að koma með þeim í kaupstaðinn og kaupa sér brjóstsykur hjá herra Kandröm, en vegna þess að hann var svo hræddur við herra Kandröm þá tók Díslan af honum brjóstsykurinn og át þess vegna tvo. Henni þótti sætindi rosalega góð.
Lasdín fannst óttalega vitlaust að borða þessa sykurdrullu. Hann vildi heldur góðan Saí-fugl. En á meðan hann var að snúa lifandi Saí-fugl úr hálsliðnum í Gæludýrahorninu í búðinni þá fór Andlís afsíðis. Honum leiddist þessir brjóstsykrar og honum leiddist allt og hann sagði: „Mér leiðist, mig langar í eitthvað annað en stanslausa vinnu, leiðinlegar sögur og vondan Saí-fugl.” Hann hrökk í kút þegar hann heyrði allt í einu rödd fyrir aftan sig segja: „Þú getur orðið hvað sem þú vilt og gert hvað sem er ef þú fylgir mér, fylgir mér.”
- „Hver ert þú?” spurði Andsíl, hann hafði aldrei heyrt svona furðulega rödd.
- „Ég heiti Nikí – radnab og ég get gefið þér lifandi skemmtanatæki fullt af góðum og ódýrum mat og í raun allt sem þú vilt!”
- „Vá, en hvað á ég þá að gefa þér í staðinn?
- „Nánast ekkert! Ég vil bara að svona glæsimenni eins og þú sért góðvinur minn. Reyndar finnst mér ekki nema sanngjarnt að ég fái fimmta hvern Saí-fugl sem þið veiðið, en ég meina það er ekkert miðað við magnið af mat sem þú færð.”

Þeir sömdu um þetta og Andlís dreif sig af stað og sagði Jónsa, Lasdín og Díslan frá þessu. Lasdín leist ekkert á það að missa fimmta hvern Saí-fugl en það var greinilega ekkert miðað við það sem þau fengu í staðinn.
Þegar þau komu heim beið þeirra þar kassi sem var með takka. Andlís ýtti á takkann og þá byrjaði pínkulítið fólk að hlaupa um í kassanum og dansa og tala. En það talaði á einhverju bullmáli.
„Þetta er snake-málið.” Sagði Nikí-radnab við þau. Þeim krossbrá því þau vissu ekki einusinni að hann hefði verið á staðnum. „Horfið bara á kassann og þið byrjið smám saman að skilja málið. En vel á minnst, eigið þið ekki handa mér einn Sple-fugl, svona sem flutningskostnað?”
„Sple-fugl?” spurðu þau öll einum rómi.
„Æjá, það er Saí-fugl á snake máli.” Sagði Nikí-radnab og glotti. Síðan fékk hann fuglinn og fór.

Átta árum síðar höfðu þau ekki enn farið frá kassanum. Díslan hafði eignast börn, en í Saí-firði þorði enginn að spurja með hverjum. Þau voru orðin fjögurra ára og voru orðin alveg trítilóð. Systkinunum var sama. Jónsi reyndi að segja þeim það, en þau hlustuðu ekki. Kassinn var að tala við þau og þessvegna nenntu þau ekki að sinna krökkunum hennar Díslan, sem var orðin ástfangin af Eriatsa Derf sem var einn af köllunum í kassanum. Einn daginn kom Nikí-radnab og bað um Saí-fugla. Jónsi gáði í Saí-fugla tjörnina og rak upp öskur.
„AAA! Allir Saí-fuglarnir eru dauðir! Brjáluðu krakkarnir þín hafa drepið þá Díslan!”
Nikí-radnab varð öskureiður og ýtti á takkann svo að kallarnir fóru. Systkinin horfðu á hann furðulostin. „Nú er nóg komið! Annaðhvort útvegið þið mér Saí-fugl núna á stundinni eða ég tek kassann og matinn af ykkur.”
Lasdín lét þetta ekki viðgangast í sínu koti. „Ég skal sko sýna þér í tvo h… Æ nei! Ég get ekki hreyft mig” Hann var orðinn svo feitur að hann gat ekki hreyft sig. Nikí-radnab tók allt frá þeim og skildi þau eftir. Það var þá sem þau áttuðu sig á því að þau voru búin að gleyma hvernig átti að rækta graslauk og brjáluðu krakkarnir hlupu um og bitu hvern annan og léku sér að því að hlaupa á veggi, Jónsi reyndi að segja þeim að hætta en þau skildu hann ekki vegna þess að núna skildu þau bara snake-málið.
Jónsi varð rosalega leiður, vegna þess að þegar hann sá þau fyrst voru þau svo hraust og hress, þá héldu þau á foreldrum sínum sem höfðu dáið úr leiðindum og ofvinnu. En nú horfði hann upp á þau deyja af græðgi og heimsku.