Ég hef alla tíð látið vaða yfir mig. Enginn hefur nennt að hlusta á mig og enginn virðir skoðanir mínar. Þegar ég er í vinnunni hlæja allir að mér þegar ég kem með einhverja hugmynd og ég hef ekki fengið launahækkun í 23 ár, þ.e.a.s. síðan ég byrjaði. Það virðist heldur enginn kannast við mig þegar ég hitti þá úti á götu. Einu sinni hitti ég reyndar gamlan skólakunningja sem kannaðist við mig. En hann mundi samt ekki nafnið mitt, hann hélt að ég væri einhver annar.
Ég á enga vini. Konan mín bannar mér það. Hún segir að þeir myndu hafa vond áhrif á mig. Ég eignast hvort sem er ekki neina vini þannig að það er tilgangslaust fyrir hana að banna mér það. Konan mín vinnur ekki einu sinni. Hún tæmir bara bankareikninginn minn og skammtar mér vasapening. Síðan þarf ég að láta börnin mín fá vasapening af mínum vasapening. Krakkarnir mínir þurfa ekki einu sinni að suða í mér til að fá hann. Ég gef þeim alltaf pening þegar þau þurfa. Ég lána meira að segja elstu dóttur minni bílinn þótt hún sé ekki kominn með bílpróf. Mér finnst eins og að þau myndu verða reið ef ég gerði það ekki. Þegar konan mín fer út þarf ég að passa börnin en þegar ég fer út þá fæ ég ekki að fara út.
Þetta hefur verið svona allt mitt líf. En ekki lengur! Á morgun ætla ég að krefjast launahækkunar, neita börnunum mínum um vasapening, loka bankareikningnum mínum, kaupa mér nýjan bíl og fara síðan á ærlegt fyllerí.

Tveimur dögum síðar.
Nú er ég atvinnulaus, fráskilinn, börnin mín eru búin að afneita mér, ég er skuldugur upp fyrir haus og með verstu timburmenn sem ég hef á ævi minni fengið. En mér hefur aldrei liðið svona vel.