Hann er reiður. Enda þreyttur og leiður á þessari jarðarvist. Enginn tilgangur í neinu lengur. Stúlkan hans farin, komin með annan, og hann hefur sparkað flestum vinum sínum. Hann sér sér ekki lengur fært að umgangast þá sem hugsa ekki um neitt sem skiptir máli. Hann veit að hann er yfir þá hafinn, hann á betra skilið en að hanga með svona fólki.
Tunglið veður í skýjunum, hann röltir eftir bæjargötunni og hann er einn. Hann hefur ákveðið að í dag skuli hann gera róttækar breytingar á sínu lífi. Reyndar hefur líf hans verið að breytast ískyggilega síðustu daga. En í dag tók hann ákvörðun. Hann ætlar að horfast í augu við allan sinn ótta. Byrja á þeim djúpstæðasta og myndrænasta. Hann hefur verið hræddur við kirkjugarða síðan hann var smákrakki, en í dag skyldi hann sanna fyrir sjálfum sér og heiminum að hann er orðinn þroskaður karlmaður.
Það ískrar í hliðinu, og í eyrum hans hljómar ískrið eins og virðingarvottur við hann og hans nýju lífssýn.
Hann gengur hægt inn og lítur snöggt á leiðin. Lítur síðan örvinglaður aftur upp í trén. Get ég þetta? Hugsar hann og staðnæmist.
Hann heyrir fótatak. Það er komið að því. Í dag fær hann að sjá draug.
Hver ætti að vera á gangi í kirkjugarði á þessum tíma, nema í undarlegum tilgangi, þá eins og ég? Hann er hræddur við eigin hugsanir.
Hann snýr sér hægt við. Honum fallast hendur af undrun.
Þetta er hún. Stúlkan úr skólanum. Stelpan sem hann getur ekki hætt að hugsa um, og hann skammast sín svo fyrir það.
Strákunum fannst hún ekki falleg, þeir gera grín að henni… og í raun er hann sá eini í skólanum sem er að hugsa um hana. Það hlýtur að vera.
Hún er samt svo sérstök, og eitthvað við hana. Augnarráðið, eða hvernig hún hreyfir sig…
Og hérna er hún, gengur á móti honum í Fossvogskirkjugarði klukkan hálf eitt á mánudagsnótt.
Á hann að heilsa?
Hún gengur framhjá honum, starir í augun á honum skamma stund, en lítur svo undan eins og hún skammist sín. Reyndar lítur hún alltaf þannig út, eins og hún skammist sín fyrir eitthvað. Orðalaust hverfur hún inn á næsta stíg og hverfur svo á milli trjánna.
Hann horfir á eftir henni. Furðulega stúlka.
Hann langar svo að fara á eftir henni, og tala við hana. En hann getur það ekki, hefur það ekki í sér. Kjarkinn og þorið.
Kannski er hún bara hérna vegna þess að hún ætlaði að vitja einhvers látins ættingja sem átti afmæli í dag, og komst ekki fyrr en seint… eða eitthvað?
Hann sest á bekkinn sem hann var búinn að plana að sitja á, alveg síðan hann skipulagði þessa næturheimsókn í Kirkjugarðinn.
Já, hann skyldi sko sitja hérna þangað til hann væri búinn að sigrast á ótta sínum.
En hvað ef þetta var ekki stelpan? Ef þetta var draugur að þykjast vera hún? Hvað ef þetta var umbreytingardraugur sem getur breytt sér í mynd hvaða mannveru sem honum þóknast. Getur það verið? Draugur sem þekkir ótta hans og dýpstu þrár, einhver eða eitthvað sem hefur séð hann horfa á eftir henni á göngunum í skólanum þar sem hún læðist um eins og gufa… er þarna en samt ekki. Ósnertanleg og fjarlæg. Stelpa sem maður myndi aldrei tala við, ekki einu sinni í sárri neyð.
Hvert einasta skrjáf í laufblaði kirkjugarðstrjánna hljómar eins og andvarp til heiðurs hugrekki hans. Það finnst honum allavega.
Hann þylur orðin “Góður Guð verndaðu mig”, segir þau í huganum, aftur og aftur. Vefur þéttar að sér úlpunni. Hann styrkist, hann róast.
Hún kemur gangandi aftur. Hún heldur á einhverju dóti. Kerti og eldspýtum.
Hún staðnæmist fyrir framan bekkinn, bekkinn hans. Horfir skamma stund í augun á honum, og sest svo við hliðina á honum.
-Þú ættir að slaka bara á, hætta að líta á þetta sem einhvern skrýtinn stað. Þú gætir allt eins verið í lystigarðinum, segir hún hálf hvíslandi.
-Ég get ekki hætt að hugsa um það… það er dáið fólk ofan í jörðinni, örfáa metra frá mér. Ég get ekki lokað á þá staðreynd.
Hann þekkir varla eigin rödd. Honum finnst samtalið hljóma ótrúlega óhugnanlega, eins og dularfullt útvarpsleikrit, og hans eigin persóna er honum ókunn.
-Þetta eru jarðneskar leifar fólks. Eins og þegar þú ert úti í skógi er skógarbotninn þakinn rotnandi gróðri. Þetta er ekkert hræðilegra en það. Svo er þetta bara fallegur og friðsæll staður.
Hún kveikir á eldspýtu sem lýsir upp andlit hennar, eins og til að undirstrika orð sín. Horfir á hana skamma stund og kastar henni síðan í snjóinn.
Eldspýtan sem áður var logandi heit og alls megnug er núna orðin að litlum svörtum punkti í tindrandi snjónum.
-Ég veit hvað er sagt um mig, segir stelpan.
Hann lítur á hana feimnislega. Vissi hún hvað hann var að hugsa á þessu andartaki, hvað honum fannst hún ótrúlega falleg og dularfull.
-Þau segja að ég sé stórskrýtin og ófríð. Mér er alveg sama.
Hann getur ekki haft af henni augun.
-Mér finnst þú falleg.
Stelpan lítur á hann, vantrúuð.
-Ekki segja þetta. Mér finnst það ekki sjálfri, ég þekki engan sem finnst það, og það merkilegasta er að mér er alveg nákvæmlega sama.
-Hversvegna varstu þá að minnast á þetta?
-Vegna þess að þetta er líka sagt um þig. Þú ert þjáningarbróðir minn.
Honum finnst himnarnir hrynja. Fannst fólki hann virkilega skrýtinn og ófríður? Hann átti ekki til eitt einasta orð.
Stelpan heldur áfram. Honum finnst hún ekki eins falleg og áður.
-Og þessvegna ákvað ég að tala við þig. Ég hef séð þig horfa á mig. Þú horfir á mig þegar ég er í skólanum, það er eins og að vera í beinni útsendingu þegar þú ert nálægt. Þú tekur eftir hverri einustu hreyfingu minni, hverju augnatilliti og fingrahreyfingu. Ég hef jafnvel séð þig horfa á rassinn á mér.
Hann á ekki til eitt einasta aukatekið orð. Hræðslan við kirkjugarðinn er alveg horfin og þess í stað er hann orðinn hræddur við sjálfan sig. Hvað var hann að verða? Er hann virkilega svona fyrirsjáanlegur, svona augljós. Er hann svona ótrúlega blindur á eigin framkomu?
-Ég þarf að fara, segir hann og stendur upp. Stígur á eldspýtuna í snjónum, sem fyrir andartaki var honum svo ótrúlega falleg og dularfull sýn. Hann vildi losna við þetta alltsaman, losna við þessa minningu og gleyma öllu sem stelpan hafði sagt við hann. Hann óskar þess að þau hafi aldrei hist og talað saman.

Það er þriðjudagur og hann er að koma út úr sögutíma. Stelpan stendur fyrir utan stofuna hans og brosir. Hann brosir ekki á móti, heldur lítur undan og gengur hratt eftir ganginum. Hann brosir til félagana sem tóku hann í sátt í síðustu frímínútum. Hann þurfti reyndar að biðja þá alla afsökunar áðan og mun þurfa að kyssa á þeim rassinn næstu vikuna. En það er þess virði. Mannorð hans skyldi verða hafið til vegs og virðingar á ný.
Hún skyldi sko ekki fá að steypa hann í sitt mót. Enginn skyldi nokkurntíman fá að tala um þau tvö í sömu setningunni.
-Hefurðu heyrt þetta um Bertu ljótu? Spyr Rögnvaldur vinur hans.
Hann starir á Rögnvald. Berta stóð þarna rétt hjá þeim, gat hann ekki sýnt henni smá tillitsemi?
-Hún drap sig í gær, ég sá fjórar stelpur grenjandi áðan og það er búið að fella niður kennslu í fjórum fögum.
Hann starir á Bertu. Hún brosir til hans í síðasta skiptið og labbar síðan út ganginn. Hann sá hana ekki oftar.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!