Hann er farinn. Hann kemur aldrei aftur, ég hitti hann aldrei aftur. Það er um seinan að segja honum allt sem ég var að hugsa, allt sem ég ætlaði að segja við hann áður en það yrði um seinan. En ég var of sein. Hann er steindauður.

Ég vakna, klukkan er fjögur eins og venjulega. Fjögur um miðja nótt, og ég legg upp í ferð hinnar fátæku nútímastúlku, færi samfélaginu sárþreyttan líkama minn að fórn. Fer í fatahrúguna sem er á gólfinu, gríp töskurnar mínar tvær og sæki blöðin sem liggja úti á gangstétt. Geng hús úr húsi með blaðabunkann, andstyggilega þungan. Þungan.
Skref fyrir skref, andardrátt fyrir andardrátt, sviði í vöðvum, einstaka bréfalúga bítur mig í fingurinn, ískaldar stál-bréfalúgur vetrarins. Augun lokast, vilja varla opnast aftur. Ég hrasa. Verð víst að gera þetta með opin augun.
Enginn nema ég er úti, ég er alein í heiminum. Ég nýt þess að labba á miðri götunni sem venjulega er teppt af umferð. Ég nálgast kirkjugarðinn.
Ég þoli ekki að bera út í húsin við hliðina á kirkjugarðinum, “ekki hugsa, bara gera” eru kjörorð mín þegar ég labba þessar götur. Ef ég byrja að hugsa leitar hugurinn til framliðinna sem vilja ná sambandi við mig. En ég held- ég vona að það sé bara svefnleysið að tjá sig með geðveikinni.
Ég treð blöðunum í lúguna, hleyp í næsta hús og geri það sama þar. Ég hleyp er samt eiginlega óviðeigandi í þessu samhengi, hrökklast væri betra orð þegar maður ber jafn mikil þyngsli og ég geri.
Það er svo fallegt úti, ég horfi á jólaseríurnar og yfir mig færist einhver óskiljanleg ró.
Hugurinn leitar nú til fortíðar. Ég byrja aftur að hugsa um hann. Sálin mín grætur af söknuði, gremju, reiði og að lokum skömm. Minni sjálfa mig á það enn eina ferðina þegar við vorum tvö ein, hann hélt utan um mig inni í eldhúsi á meðan ég fletti í uppskriftabókum og allt var eins og það átti að vera. Síðan það þegar hann sagði mér að hann væri veikur, og síðan viku seinna þegar ég heyrði að hann væri farinn. Hann vildi ekki berjast, endaði þetta strax og gerði mér greiða um leið. Ég hefði ekki getað horft upp á hann rotna í hjartanu, sálinni, huganum.
Ég skammast mín fyrir að hugsa svona. Ég skammast mín fyrir að hugsa um þetta, ég lofaði sjálfri mér því fyrir nokkru síðan að héðan í frá myndi ég ekki finna. Hætta að finna. Bara gera, skilja og horfa. Hætta að elska og finna, tjá, reiðast og gleðjast. En það er meira en að segja það. Maður verður að hafa endalausan vilja til þess. Og meira að segja er það stundum ekki nóg. Ekki í dag. Að útiloka tilfinningar er það erfiðasta sem ég hef gert.
Hvað ætli hann segði við mig ef hann sæi mig núna? Kannski, já, líklegast til yrði hann reiður við mig fyrir að þræla mér svona út. Fara illa með mig. En hann er farinn, kemur aldrei aftur, og það skiptir ekki lengur máli hvort að ég fari illa með mig eða ekki. Það elskar mig enginn lengur og því særi ég engann með því að vera miskunnarlaus við sjálfa mig.
Svellbunki. Nú renn ég og dett, hugsa ég um leið og ég missi fæturna og skell í götuna. Ég finn stingandi sársauka í bakinu þar sem stálgrindin á töskunni mætir hörðum ísnum og líkama mínum á sama tíma. Ég dreg andann djúpt þar sem ég ligg eins og mara á gangstéttinni. Gangstéttinni við hliðina á kirkjugarðinum. En skyndilega er mér alveg sama hvort að þetta sé kirkjugarður eða ekki. Ég bara ligg þarna, nýt sársaukans og stari upp í svartan himininn, stari á stjörnurnar og tunglið.
Afhverju er öllum sama? Spurningin brennur á mér. Ég mynda orðin með vörunum. Afhverju á ég mér ekki bjarta framtíð eins og þeir sem voru með mér í skóla? Ég sem ætlaði að verða læknir eða lögfræðingur. En ég hætti að vinna að því þegar ég áttaði mig á því hver ég er. Ég er ekki vel efnuð, ég á ekki traustan bakgrunn, ég er ekki það sem ég hélt að ég væri, og ekki það sem fólk ætlast til af mér. Ég er bara einhverstaðar inni í tómi, inni á milli. Milli hvers er ég ekki viss um. En á milli einhvers.
Guð, elskaðu mig samt, hvísla ég.
Ég finn mig blotna í gegnum fötin þar sem ég ligg á blautum svellbunkanum. Ég er komin með hausverk í hnakkann. En samt ligg ég áfram, verkurinn í bakinu ágerist en mér er sama. Ég nýt sársaukans, hann er eins og virðingarvottur við hugsanir mínar og aðstæður, það er eins og líkaminn sé í fyrsta skipti sammála sálinni. “Ég finn líka til eins og þú” segir líkaminn. “Þú veist ekki hvað sársauki er” svarar sálin. “Maður getur misst helminginn af sálinni og lifað áfram, en ef maður missir helminginn af líkamanum er Drottinn svo mildur að leyfa honum að deyja”.
Ég loka augunum. Ég held að ég gæti sofnað hérna. Sofið endalaust, vildi að ég gæti dáið hérna. En til hvers að deyja, það er jafnvel tilgangslausara en að lifa, og þá er mikið sagt.
Ég opna augun hægt, en eitthvað hefur breyst. Ég mæti öðrum augum. Þau eru alveg upp við mín. Ég er hrædd og ég loka augunum aftur.
“Halló” hvíslar rödd, beint upp við andlit mitt.
“Farðu burt”hvísla ég á móti.
Ég opna augun aftur og augun eru þar enn starandi á mig. Þau eru dökkblá og næstum því svört. Ég sé að þetta er karlmaður um tvítugt. Ég skoða andlit hans vel, það er ekki venjulegt. Það er nánast gallalaust. Hann ilmar af kulda.
“Þú ert falleg” segir röddin. “Hugsanir þínar eru samt ekki fallegar”.
“Ég er bara að sameinast alheiminum” svara ég. Út í hött. Ég veit eiginlega ekki afhverju ég sagði þetta. Hjartslátturinn á fullu.
Ég gægist aftur út um augnlokin. Andlitið er farið, maðurinn er farinn. Ég sprett á fætur, sný mér í hring, lít í allar áttir. Hann er alveg farinn. Hvernig í ósköpunum má það vera. Draugur? Engill? Eða kannski bara skokkari?
Ég man skyndilega eftir blaðabunkanum, gríp blöðin og labba af stað. Sársaukinn í bakinu minnir á sig, ég fæ marblett, svo mikið er víst.

Hver var hann? Hvað vildi hann mér? Hvaðan kom hann og hvert fór hann, hvernig vissi hann hvað ég var að hugsa? Eða vissi hann það?

Ég þori ekki að horfa aftur fyrir mig á staðinn sem þetta gerðist, þetta er svo óraunverulegt, eins og draumur. Mér er ískalt, og ég get varla beðið eftir því að komast heim, í þurr föt og upp í rúm, sofa síðan til níu þangað til að ég fer í vinnuna. Ég vinn í tískufataverslun á daginn, vinn við að telja fólki trú um að allt sem er nýtt sé flott.
Ég get varla hætt að hugsa um náungann, þennan undarlega mann. Andlit hans er sem brennt í huga minn, þó að ég hafi séð hann á hvolfi finnst mér ég kannast svo rosalega við hann. Var hann kannski frægur stjórnmálamaður sem oft hafði komið í fjölmiðlum, einhver ungur framapotari sem hafði rekist á mig liggjandi í gangstéttinni á morgungöngu. Ég efaðist um að ég fengi nokkurntíman svar við þessum spurningum mínum.
Verkurinn í bakinu er horfinn. Það er eins gott, því að blöðin eru fleiri en venjulega. Þegar ég kem heim er ég með stóran bunka af afgangsblöðum.
Ég hef enga lyst á morgunmat. Ég leggst bara upp í rúm og vona að ég verði í nógu góðu stuði til að mæta í vinnuna þegar ég vakna.
Ég vakna tveimur tímum seinna, stekk á fætur og geri öll mín venjulegu morgunverk. Síðan geng ég út á strætóskýli og bíð eftir vagninum sem kemur tuttugu og þrjár mínótur yfir. Ég stend upp þegar hann nálgast, finn græna kortið sem vinur minn Siggi falsaði svo snilldarlega.
Vagninn virðist ekki ætla að stoppa fyrir mér. Ég stari vantrúuð á eftir honum. Arnar Jónsson er meira að segja að keyra, strætóstjórinn sem hefur keyrt mig í vinnuna á hverjum morgni í meira en tvö ár, hann virðist ekki taka eftir mér þar sem ég stend á mínum venjulega stað á venjulegum tíma.
Ég fer heim í korter og kem síðan aftur, tímanlega í þetta skiptið. Fjörtíu og þrjár kemur vagninn, aftur, og ég stend nánast á miðri götunni.
Hann keyrir framhjá mér. Þetta er fáránlegt! Ég er brjáluð!
Ég hleyp út á götuna og ætla mér að ná strætisvagninum. Það er ótrúlega auðvelt að hlaupa. Eins og að fljúga. Ég flýg.
Strætisvagninn minnkar, eftir því sem ég tekst hærra á loft. Steypi mér aftur niður. Kem niður á næsta strætóskýli í miðja mannþvögu. Enginn virðist kippa sér upp við það að ég komi fljúgandi.
“Hæ, ég flýg” segi ég brosandi við horaða stelpu.
Hún horfir í gegnum mig.
Ég sest niður á jörðina. Fólkið í kring um mig kemur og fer. Kemur og fer.
Tíminn er farinn.
I love Stan, Stan loves ham… ham I am!