Ég var nú bara að lesa í Fréttablaðinu og rekst á þessa frétt :

“Finnska hljómsveitin Nightwish gefur nú út sína sjöttu plötu. Hún ber nafnið Highest Hopes - The best of Nightwish og kemur út á mánudaginn. Þó hljómsveitin sé lítið þekkt hér á landi, þá hefur hún verið að gera það gott allt frá árinu 1997 um alla Evrópu. Hún hefur selt yfir 2,5 milljónir platna á ferli sínum sem spannar nú heil 9 ár. Síðasta plata þeirra, Once, sem kom út í október á síðasta ári, hlaut mikið lof og náði meðal annars platínusölu í Finnlandi daginn eftir útgáfudag. Once varð vinsælasta plata Evrópu í tvær vikur á síðasta ári og sýnir það hversu miklum árangri finnska hljómsveitin hefur náð. Nightwish hefur mjög sérstakan stíl, en hún blandar saman melódísku þungarokki og klassískri tónlist. Söngkona Nightwish, Tarja, er lærð sópransöngkona og hún á stóran þátt í því að skapa frumlegan hljóm þeirra. Tuomas sem er hljómborðsleikari Nightwish segir að tónlist hljómsveitarinnar hafi þróast að miklu leyti frá því að fyrsta plata þeirra kom út árið 1997. ”Þemað á bakvið tónlistina er að vissu leyti það sama, en að sjálfsögðu hefur hún breyst örlítið. Við byrjuðum sem þungarokksband en við höfum þróast mikið með árunum og erum orðin mun fjölbreyttari en áður.“ Tuomas skrifar bæði tónlist og texta sveitarinnar og hann segir sinn helsta áhrifavald á tónlistarsviðinu koma úr kvikmyndatónlist. ”Textarnir mínir eru á mjög persónulegum nótum. Ég skrifa mikið um tilfinningar og líka bara um lífið og tilveruna..“ Hann segir hljómsveitarmeðlimi Nightwish hlusta á allar tegundir tónlistar sem gefur þeim vissan fjölbreytileika. ”Við hlustum á allt frá poppi til þungarokks. Eiginlega allt nema rapp.“ Nightwish hefur haldið fjölda tónleika út um allan heim og Tuomas segist hafa mikinn áhuga á því að leika á Íslandi. ”Ég hef aldrei hitt neinn frá Íslandi og hef alltaf vellt fyrir mér hvað sé eiginlega á seyði þar. Ísland er svo framandi. Við höfum haldið tónleika í Noregi, Svíðþjóð og Danmörku, en aldrei á Íslandi. Ef það er áhugi fyrir því að fá okkur, þá munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þangað að spila."

Ég myndi pottþétt fara ef Nightwish kæmi hingað. Einhverjir aðrir?