(Brennu)Vargur Vikernes - Kaldrifjaður morðingi Áður en einhver missir sig af bræði, vinsamlegast lesið greinina til enda takk.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hinn ágæta mann Varg Vikernes á þessu áhugamáli uppá síðkastið. Hef ég verið sakaður um að hata Varg, hata alla sem ekki hata hann og haldinn fordómum í garð hans og áhangenda hans, eða Varg fanboys eins og ég kýs að kalla þá. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Ég hef ekkert á móti Varg og ef einhver vill dýrka þennan mann útaf tónlistinni hans eða meintra gáfna hans og ritsnilldar þá hef ég ekkert við það að athuga. Raunar finnst mér það bara öldungis ágætt.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem ég verð að gera athugasemdir við. Ég er búinn að lenda í sömu rökræðunum aftur og aftur og ég einfaldlega nenni ekki að lenda í þeim einu sinni enn. Ástæðan er sú að það er sama hvað maður segir við Varg fanboys, þeir taka engum rökum. Þeir búa í sínum eigin heimi þar sem Varg er guð og allt sem hann gerir er heilagt.

Nú megið þið ekki misskilja mig. Allir geta gert mistök, og það er nákvæmlega það sem Varg gerði. Hann myrti mann. Undir venjulegum kringumstæðum iðrast menn þegar þeir gera eitthvað af sér. En það er ekki tilfellið hjá Varg, raunar segir hann orðrétt á burzum.org að hann hafi ekki fundið fyrir neinni eftirsjá þegar Euronymous lá dauður fyrir framan hann, og hann sé bara feginn að hafa losað heiminn við þennan slava djöfull, gungu og aumingja. Og þetta étið þið Varg fanboys uppeftir honum eins og ekkert sé eðlilegra! Að það sé ekkert athugavert við það að myrða einhvern sem manni líkar ekki alveg nógu vel við. Er ekki alltí lagi heima hjá ykkur? Þau rök til varnar Varg að ,,Euronymous hafi ætlað að drepa Varg” og að þetta hafi verið í sjálfsvörn detta um sjálf sig. Í fyrsta lagi erum við að tala um eitthvað sem gerðist aldrei, nema hugsanlega að Euronymous hafi reynt að ná í hníf inní eldhús til sín, en það er jú bara einn maður sem varð vitni að því, og það er morðinginn sjálfur. Að auki virðist það vefjast eitthvað fyrir Varg fanboys hvað sjálfsvörn er. Sjálfsvörn er EKKI að gera einhverjum það sem hann ætlaði hugsanlega að gera þér. Ef einhver öskrar á þig niðrí bæ: ,,Ég ætla að drepa þig fíflið þitt!” þegar þú hellir óvart niður bjórnum hans þá getur þú ekki brotið tennurnar í honum á næstu gangstétt og sagt svo bara: ,,Hei! Þetta var sjálfsvörn, hann ætlaði að drepa mig!”

Svo það sé á hreinu uppá framtíðina að gera, þá er þetta lagaleg skilgreining á sjálfsvörn:

Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.

Að gera mistök er mannlegt, en að fyrirgefa er guðdómlegt. Ég get hins vegar ekki fyrirgefið eitthvað sem gerandinn álítur ekki einu sinni mistök. Að þið fanboys skulið ekki sjá neitt athugavert við morðið á Euronymous, sama hversu mikil gunga, aumingi, fífl og allt það sem hann e.t.v. var, er virkilega brenglaður hugsunarháttur. Að verja þennan voðaverknað finnst mér enn brenglaðara.

Svo eru það kirkjubrennurnar. Einhverjir fanboys munu sennilega benda á að Varg hafi ekki verið dæmdur fyrir brennurnar og hann hafi heldur aldrei játað. Auðvitað hefur hann ekki játað fyrst hann var ekki dæmdur. Af hverju að játa eitthvað sem meirihluti þjóðarinnar mun hata þig fyrir að hafa gert ef að þú slappst hvort eð er við dóminn? Þó svo að Varg hafi aldrei játað, þá hefur hann nefnilega ekki neitað þessu ásökunum heldur.

Nú er ég ekki kristinn maður, sækir ekki messur og trúi ekki á guð og ef einhver heldur að ég ætli að fara að verja gjörðir kirkjunnar eða kristinna manna þá er það misskilningur. Það sem mér finnst hins vegar algjörlega ófyrirgefanlegt er að brenna 1000 ára gamlar stafakirkjur sem allar voru ómetanlegar forn- og sagnfræðiminjar. Í dag eru ekki nema 28 slíkar kirkjur standandi í Noregi en ef þið Varg fanboys mættuð ráða væri eflaust engin eftir. Þið kannski skiljið þetta betur þegar þið fullorðnist og þroskist.

Að verja þessar brennur er auðvitað alveg útúr kú. Ég get alveg tekið undir það að kristni hafi að einhverju leyti verið þröngvað uppá Norðmenn á sínum tíma en það kemur málinu bara ekkert við. Hefnd 1000 árum eftir að atburðurinn á sér stað á engan rétt á sér (ef hefnd ætti einhvern tíman rétt á sér). Allir þeir sem breiddu út kristni árið 1000 eru löngu dauðir og fáránlegt að láta gremju einhverra trúleysingja bitna á kristnum mönnum í dag. Þau rök að kirkjan sé ennþá til vandræða í dag eru svo sem ekki þau verstu, en hvernig væri þá að ráðast að nútíma kirkjum sem enn þjóna tilgangi kristinna samkomuhúsa en ekki ómetanlega fornminjum sem eru svo miklu meira og allt annað en kristnar kirkjur í dag.

Þeir sem vilja réttlæta hefnd 1000 árum seinna hljóta þá að taka undir að refsa þurfi Þjóðverjum fyrir voðaverk þeirra í seinni heimsstyrjöld, nýlenduþjóðum fyrir afglöp forfeðra þeirra í Afríku og S-Ameríku, Tyrkjum fyrir Tyrkjaránið, og svo gæti ég lengi talið. Blindur maður gæti séð að þessi rök standa á brauðfótum.

Að lokum langar mig aðeins að minnast á meint mannréttindabrot á Varg. Hann kvartar yfir því að hann fái ekki þá reynslulausn sem honum var lofað og það sé alltaf verið að lengja tímann sem hann þarf að bíða eftir einni. Ha? Erum við að gleyma því að til að fá reynslulausn þurfa menn að sýna betrun og eftirsjá, sem Varg hefur klárlega ekki gert. Að auki strauk hann úr fangelsi 2003, sem hefur nú hingað til ekki þótt ástæða til að milda dóm yfir mönnum. Ég hef heyrt einhverja halda því fram að hann hafi bara verið of seinn úr helgarleyfi en það er ekki rétt. Hann strauk, stal bíl (tveimur) og þegar löggan náði honum loksins var bíllinn sem hann var á fullur af vopnum. Fyrirmyndar borgari ekki satt? Hann minnir mig stundum á Charles Manson, vantar bara að hann skeri á sig hakakross þegar hann mætir í viðtal um reynslulausn!

Þar hafið þið það. Ég held að ég hafi sagt allt sem ég vil sagt hafa um Varg Vikernes. Þeir sem meta Varg vegna tónlistar hans, og jafnvel meints gáfnafars, endilega haldið því áfram og látið ekki afvegaleidda Varg fanboys blekkja ykkur. Þið hinir sem sjáið ekki sólina fyrir þessum manni, við ykkur hef ég ekkert meir að segja. Ég veit að þið munið eflaust ekki skipta um skoðun eftir þennan lestur, og jafnvel ausa yfir mig fúkyrðum og skammaryrðum og eitthvað reyna að malda í móinn en ég mun ekki svara nema ég sjái mig þess knúinn ef einhver hefur eitthvað gáfulegt og málefnalegt fram að færa.


Þar til síðar, góðar stundir.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _