Grein Kagglsins um Sonata Arctica hér að neðan inspíraði mig til að skrifa samskonar grein um aðra hljómsveit sem ég hef lengi haldið mikið upp á:

Nightwish

Nightwish er (líkt og Sonata Arctica) finnskt metalband. Það er ómögulegt að lýsa tónlistinni í fáum orðum, ég hef reynt að skilgreina hana en það sem kemst næst því er einhvers konar blanda af power- og gothmetal, en nýjasta platan þeirra er komin langt út í symphonic metal.

Bandið skipa í dag:
Tuomas Holopainen - Aðal lagahöfundur og hljómborðsleikari
Tarja Turunen - Söngkona
Emppu Vuorinen - Gítarleikari
Jukka Nevalainen - Trommuleikari
Marco Hietala - Bassaleikari og söngvari

Nafnið Nightwish er komið frá einni fyrstu demó-upptökunni sem þau gerðu, þá einungis Tuomas, Tarja og Emppu. Það lag var aldrei gefið út en þeim fannst nafnið ná tónlistinni svo vel að hljómsveitin hefur notað það nafn síðan. Þetta var seint á árinu 1996.

Fljótlega bættist Jukka við hópinn og í apríl 1997 fóru þau í hljóðver að taka upp lög á fyrstu plötuna Angels Fall First. Seinni hlutinn af henni var tekinn upp um haustið sama ár og platan kom út í byrjun nóvember, stuttu á eftir fyrstu smáskífunni The Carpenter. AFF hafði frekar tilraunakenndan blæ eins og oft vill verða með fyrstu plötur hljómsveita og tónlistin átti eftir að þróast mikið. Það sem einkennir helst AFF frá seinni plötum sveitarinnar er það að á þessum tíma söng Tuomas í sumum lögunum og það að kassagítar er notaður sums staðar.

Árið 1998 kom svo út önnur plata þeirra, Oceanborn. Hún var töluverð þróun frá AFF að mörgu leiti. Í fyrsta lagi hafði hljómsveitin stækkað, bassaleikarinn Sami Vänskä hafði gengið til liðs við þau. Hljómurinn var líka allt öðruvísi. Mun “kaldari” og meira út í það sem mætti kalla “goth,” meira “power.” Hljómborðið var orðið meira áberandi, svo og hraðar gítarlínur. Tuomas söng heldur ekki lengur; í stað hans söng rótarinn þeirra, Wilska, karlraddir, og á tónleikum þegar þau tóku lög af AFF söng Wilska í stað Tuomasar. Wilska hefur mun dýpri og “illilegri” rödd sem gaf tónlistinni ennþá meiri goth blæ. Velgengni OB kom þónokkuð á óvart, hún náði upp í 5. sæti á finnska vinsældalistanum (AFF hafði aðeins náð 31. sæti).

Árið 2000 kom svo út þriðja plata þessarar kröftugu sveitar, sem á þessum tíma var orðin vel þekkt utan Finnlands. Platan bar nafnið Wishmaster, til gamans má geta að titillagið Wishmaster var samið sem tribute til ekki minni manns en J.R.R. Tolkiens. Á Wishmaster varð engin breyting á uppröðun sveitarinnar, en hljómurinn var annað skref fram á við. Hérna var kaldi hljómurinn farinn og enginn karlsöngvari, bara frábærar lagasmíðar og melódíur að næstum því guðdómlegum sópransöng Törju. Með útkomu Wishmaster jukust vinsældir þeirra enn meira (Wishmaster náði 1. sæti vinsældalistans í Finnlandi og náði platínusölu), sem hefur líklega ýtt undir útgáfu fyrsta (og hingað til eina) tónleikadisks þeirra: From Wishes to Eternity. Hann var tekinn upp á tónleikum sveitarinnar í Tampere í Finnlandi 29. desember 2000. Á honum er að finna efni af öllum þrem plötunum sem þá höfðu komið út, 15 lög alls.

Haustið kom út mínídiskurinn Over the Hills and Far Away, sem hafði að geyma 6 valin lög af FWTE, tvö ný lög, endurgerð á Astral Romance (þar sem Tony Kakko söngvari Sonata Arctica söng fyrir Tuomas) af AFF og cover af Over the Hills and Far Away eftir Gary Moore. OTHAFA var ætlaður sem sýnishorn af því sem koma skyldi á næsta disk þeirra…

Centurychild sem kom ekki út í júní 2002. Í millitíðinni hafði þó verið skipt um bassaleikara, Sami hætti af persónulegum ástæðum og í stað hans var fenginn Marco Hietala úr Tarot. Með tilkomu Marcos varð bassaleikur meira áberandi í lögum þeirra, nægir þar að nefna frábært bassasóló í byrjun Feel for You. Marco kom einnig nálægt lagasmíðunum fyrir Centurychild, og hann syngur líka í sumum lögum. Centurychild var annað skref í áttina sem Wishmaster hafði markað þó sum lög verði að teljast skyldari Oceanborn (t.d. Slaying the Dreamer sem er alveg einstaklega “reitt” lag). CC var einhvern veginn mildari, poppaðri jafnvel, og meira “symphonic” en fyrri plötur Nightwish höfðu verið, en þó frábær plata með mörgum góðum lögum.

Það skref var svo stigið til fulls í maí 2004 þegar nýjasta plata þeirra Once kom út. Á henni spilar hvorki meira né minna en heil symphóníuhljómsveit OG heill kór ásamt Nightwish. Það er álit margra (sérstaklega gallharðra aðdáenda) að Once sé lakasta plata þeirra til þessa og ég verð að viðurkenna að ég er sammála - þau eru komin aðeins of langt frá rótunum og symphóníusveitinni er gjörsamlega ofaukið, þó hún komi ágætlega út í einstaka lögum (eins og Ghost Love Score, virkilega flott lag þar sem symphónían fær að njóta sín). Í flestum tilfellum hefði hins vegar mátt hreinlega nota þá möguleika sem hljómborð og gítareffectar bjóða upp á til að ná svipuðum áhrifum, kannski með gestaleikurum í sumum lögunum. Ekki misskilja mig samt, Once er frábær diskur, betri en flest annað sem er að gerast í samskonar tónlistarstefnum. Hann er bara ekki *jafn* góður og fyrri plötur þeirra. Samt sem áður hefur frægðarsól þeirra aldrei skinið jafn skært, þau eru núna á tónleikaferð um Evrópu og munu spila í fyrsta sinn í Norður Ameríku (höfðu áður spilað í S-Ameríku á Wishmaster-túrnum); ég held meira að segja að fyrra smáskífulagið af Once, Nemo, hafi verið spilað eitthvað á Popptíví.

Þeir sem vilja fræðast meira um Nightwish skal bent á heimasíðuna þeirra.
Peace through love, understanding and superior firepower.