Kannski dönsuðum við saman
í silfruðu regninu.
Kannski flæddi það yfir okkur,
fyllti vit okkar
ljúfri angan af sumarblómum
og frelsi.
Og græni kjóllinn þinn varð blautur
og límdist við líkama þinn
og þú dansaðir í rigningunni
og hlóst
og þú varst svo ómótstæðileg
með brosið í augunum,
blómin í hárinu,
að ég réð ekki við mig
heldur strauk kinn þína
og laumaði á þig kossi.
Kannski svaraðir þú atlotum mínum
og við áttum ástheita stund,
veltumst um í grasinu
sem var blautt og hrollkalt
við nakta húð okkar.

Kannski var það draumur
sem mig dreymdi
meðan ég svaf
og regnið söng við gluggann minn.