Leikstjóri: Eli Roth

Eli Roth færði okkur sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd árið 2002, Cabin Fever. Sú mynd var ágæt stæling af klassískum hryllingsmyndum, reyndar svo mikið að ekki var ein frumleg mínúta í myndinni. Mörgum fannst þetta skelfing, einskis virði vitleysa. Ég hafði samt gaman af henni, hún sýndi okkur gamla hluti í nýjum búningi án þess að vera að selja sig út á nafn eldri mynda sem er svo vinsælt nú til dags. Cabin Fever var frumraun Roths í leikstjórasætinu og var í raun mjög lofandi. Hins vegar sannar Roth að hann á heima í hryllingsmyndageiranum með nýju myndinni sinni, Hostel.

Hostel fjallar um þrjá ferðalanga, Paxton, Josh og hinn íslenska Óla. Það er fátt annað en kynlíf og áfengi sem kemst á dagskrá hjá þeim félögunum á ferðum sínum milli landa. Þegar erfiðlega gengur í djamminu taka þeir ráðleggingum annarra og ferðast til smábæjar í Slóvakíu, því þar eiga þeir að finna farfuglaheimili sem er stútfullt af fallegum og viljugum stelpum.

Þegar komið er á staðinn gengur allt eins og í draumi. Endalaust skemmtanalíf og stelpurnar yndislegar. En þegar einn þeirra vina hverfur sporlaust verða strákarnir varir um sig og taka þá eftir því að ekki er allt sem sýnist með þennan draumastað þeirra.

Persónurnar sem Eli Roth skrifaði hér eru frábærar en fyrst og fremst trúverðugar. Þessir þrír strákar eru að skemmta sér og þeim er þónokkuð sama um afleiðingarnar svo lengi sem draumarnir um kynlíf og áfengi halda áfram að rætast. Hostel inniheldur mikinn húmor í fyrri hluta myndarinnar og hann virkar fullkomlega en seinni hlutinn er ekki alveg jafn fyndinn. Línan á milli þessa tveggja hluta er vel skorin og hún reynir ekki að troða húmor þar sem hann á ekki heima. Skemmtilegt er hvað manni er látið líða vel fyrsta hálftímann en hægt og rólega breytist sögusviðið í þá verstu martöð.

Það sem við sjáum í þessari mynd er ógeðslegt, mörg atriði sem fá mann til að brosa eða gráta, hvort sem á við. En myndin vinnur ekki á ógeðslegum atriðum heldur því andrúmslofti sem skapað er. Ekki það að blóðið sé í einhverjum skornum skammti heldur þvert á móti. Blóðsúthellingar hafa ekki jafn mikil áhrif og andrúmsloftið sem fær þig til þess að labba út úr bíóhúsinu með samviskubit yfir því að vera manneskja. Hostel lætur mér líða illa, hún lætur mig líta í kring um mig og átta mig á því hvað mannfólkið getur verið grimmt og illt gagnvart sjálfu sér.

Þeir sem láta blóðbaðið ekki á sig fá munu fara heim af myndinni og hugsa um allt það sem mannkynið hefur skilið eftir sig í tímans rás, grimmd og eyðileggingu í skjóli peninga og valda.

Hostel sýnir okkur nýja vídd í hryllingsmyndum, þetta verður eflaust klassík og sett á stall með The Exorcist(1973), The Haunting(1963) og The Texas Chainsaw Massacre(1974).

Eli Roth getur brosið breitt, því hann hefur skapað meistaraverk. Fullkomin hryllingsmynd.

Atli Freyr – 13.11.05