Leikstjóri: Zack Snyder.
Handrit: George A. Romero (1978 screenplay) - James Gunn (screenplay)
Leikarar: Sarah Polley, Ving Rhames, Jake Weber, Mekhi Phifer…etc


Eftir vinsældir 28 Days Later (2002) sem fjallaði um veiru sem gekk á milli fólks með blóði og snéri því í blóðþyrsta brjálæðinga, gaf Universal grænt ljós á að endurgera Dawn of The Dead (1978) eftir George A. Romero.

Zombie myndir náðu miklum vinsældum um 1980 stuttu eftir útgáfu Dawn of The Dead sem oftar en ekki hefur verið talin sú besta í þeim flokki. Zombie myndir ganga út á það að veira dreifir sér með biti, sem veldur því að þeir sem sýkjast deyja og lifna svo við, ráfandi um eftir fleiri fórnarlömbum. Þar sem við erum komin í MTV öldina þá gengur ekki lengur að láta afturgöngurnar ráfa um heldur erum við komin hér með afturgöngur sem stökkva, hlaupa, hjóla, syngja og þar fram eftir götunum. Allt þetta er svosem gott og blessað ef það er það sem til þarf til að halda athygli bíógesta nú til dags, svo ekki sé minnst á svokölluð bregðuatriði með nokkura mínútna millibili.

Í Dawn of The Dead kynnumst við Ana sem er hjúkrunarkona sem lifir að því virðist góðu lífi með kærasta sínum í vinalegu úthverfi. Einn daginn snýst allt við þegar veira breiðist út sem vekur upp dauða og snýr þeim í blóðþyrst skrímsli. Ana sleppur naumlega að heiman og rekst á fleiri sem komust af og koma þau sér fyrir í verslunarmiðstöð en margir ófyrirséðir atburðir gera þeim lífið leitt.

George A. Romero, leikstjóri og handritshöfundur upprunarlegu myndarinnar hafði tilgang með myndinni sinni. Í Dawn of The Dead (1978) sjáum við neytendasamfélagið í hnotskurn, afturgöngurnar ráma enn um verslunarmiðstöðina af því er virðist gömlum vana, þ.e. það sem það gerði í lifanda lífi. Fólkið sem lifir af getur lifað góðu lífi í verslunarmiðstöðinni því þar er allt sem það dreymir um, afþreyingu og mat.
Þessu er því miður sleppt af einhverri ástæðu í endurgerðinni þar sem verslunarmiðstöðin er bara hentugur staður að til að fela sig þangað til hjálp berst. Það olli mér miklum vonbrigðum að þessum mikilvæga hlut hafi verið kastað út um gluggan því þetta var nú einusinni það sem gerði Dawn of The Dead að því sem hún var.

Það væri hræsni að segja að Dawn of The Dead væri ekki vel gerð eins og er með allar Hollywood myndir. Förðunin er frábær og leikstjórnin er eins og búast má við. Það sem hrjáir myndina í alla staði er handritið. Við erum með of mikið af persónum sem eru einungis ætlaðar til að verða afturgöngunum að bráð fyrr eða síðar og veldur þetta því að vegna fjölda persóna er erfitt að kynnast einum né neinum.
Zombie breytingin, þ.e. að hafa þá ólympíuhlaupara sem geta rifið niður hurðir og hvað eina í stað gömlu góðu ráfandi hægu afturgöngunar kemur illa niður á myndinni. Auðvitað fáum við mikið af bregðuatriðum og spennandi árásum en vegna þess hve hættulegar þessar afturgöngur eru fáum við að sjá voðalega lítið af þeim miðað við venjulega zombie mynd.

Klippingin er agaleg, eins og vill oft vera með nýlegar hryllingsmyndir, þá er myndavélin á fullu og klippt úr einu yfir í annað, án þess að maður fái tíma til að anda. Þetta veldur því að maður má ekki blikka augunum af hræðslu um það að missa af einhverju og jafnvel þrátt fyrir það er erfitt að átta sig á hvað er í gangi.

Zack Snyder er nýkomin úr heimi tónlistarmyndbanda, eins og virðist vera vinsælt með að setja slíka nýgræðinga undir stýrið á svona myndum. Miðað við það sem við sjáum og sjáum ekki, ætti maðurinn að halda sig við tónlistarmyndböndin þar sem ég hefði betur skemmt mér hefði þetta verið klippt niður í fimm mínútna tónlistarmyndband.

Myndin verður langdregin á köflum og jafnvel hlægilega bjánaleg. Sumar pælingarnar í sögunni eru gjörsamlega út í hött og mörg einfaldlega misheppnuð, eins og myndin í heild sinni.

*/****


Atli Freyr – 07/04/2004