Cabin Fever

Leikstjóri: Eli Roth
Aðalhlutverk: Rider Strong og aðrir leikarar með minna eftirminnileg nöfn.

Mig langaði ofsalega, ofsalega mikið til að elska Cabin Fever. Það er búið að vera að hæpa þessa mynd svakalega mikið upp í íslenskum fjölmiðlum undanfarið vegna þess að leikstjórinn, Eli Roth, fékk víst hugmyndina að henni þegar hann vann sem au pair á Selfossi fyrir nokkrum árum. Það er líka búið að vera hæpa mjög mikið upp að leikstjórar á borð við Peter Jackson, Quentin Tarantino og David Lynch fíla myndina í botn. Þetta minnir mig svolítið á það þegar myndin Frailty eftir Bill Paxton kom út. Þá fékk hún lofsamlega dóma frá fólki á borð við James Cameron, Stephen King og Wes Craven, þó svo ég hafi aldrei skilið til fullnustu hvað það var sem þeir sáu svona merkilegt við þá mynd.

If you ask me … þá hefði alveg mátt láta vera að segja nokkurn skapaðan hlut um Cabin Fever og leyfa fólki að uppgötva hana. En það er náttúrulega soldil paradoxa fyrir kvikmyndagerðarmanninn: hvort vill hann að allir viti af myndinni og geri sér miklar væntingar eða að enginn viti af henni svo hún geti komið á óvart? A.m.k. kemur þessi upphæpun sér ekki vel fyrir Cabin Fever því hún er, þrátt fyrir ýmsa góða punkta, bara ekkert sérstaklega góð. Sem splattermynd þá virkar hún ekki jafnvel og t.d. Evil Dead myndirnar eða Braindead, allt myndir sem Roth er undir miklum áhrifum frá. Sem hrollvekja virkar hún bara ekki neitt því hún er alls ekkert hrollvekjandi. Sem grínmynd virkar hún best því það eru fullt af virkilega fyndnum atriðum í myndinni og helsti styrkleiki Roths er kannski að hann er fær um að skapa eftirminnilega og skemmtilega karaktera (þó svo enginn þessara karaktera sé meðal ungmennanna fimm sem leika aðalhlutverkin, því miður). Sem svona reference-mynd virkar hún bara fyrir þá sem hafa verið að horfa á hryllingsmyndir frá blautu barnsbeini og virkar reyndar ekkert sérstaklega vel sem slík því maður fer ósjálfrátt að bera hana saman við myndirnar sem hún vísar í, og þær eru flestar óumdeilanlega betri.

Cabin Fever er þess vegna svolítil klessa sem fer einhvern veginn út um allt án þess að vita hvað það er sem hún vill. Og það er varla hægt að kalla hana grín-hryllingsmynd því mörkin á milli húmors og hryllings eru svo skörp að manni líður oft eins og tveimur mismunandi myndum hafi verið slegið saman í eina. Þetta er kannski augljósast undir lok myndarinnar þegar maður er farinn að bíða eftir því að hún klárist bara því það er einhvern veginn ekkert að gerast en samt tekur það langan tíma. Í stað þess að endurskrifa síðustu 20 mínúturnar þá eru þær frekar misheppnaðar og leiðinlegar og því miður drápu þær eiginlega myndina í mínum augum. Ég skemmti mér konunglega á köflum en ég bara var kominn með leið á öllu saman í lokin.

Mér þykir mjög leiðinlegt að setja út á fyrstu mynd óreynds leikstjóra, sérstaklega vegna þess að það er svo margt gott við hana, en það er eiginlega búið að mála Cabin Fever út í horn: búið að blása upp mynd sem er í grundvallaratriðum mjög gölluð þó svo hún beri merki um bjarta framtíð. Ég get þess vegna bara mælt með Cabin Fever fyrir þá sem vilja styrkja Eli Roth svo hann fái vinnu síðar meir, en ekki vegna þess að hún er svo góð mynd. Hún er það einfaldlega ekki.