The Eye (2002) Leikstjóri: Pang Brothers (Oxide & Danny Pang)
Leikarar: Angelica Lee, Lawrence Chou, Chutcha Rujinanon & Yut Lai So

Sagan: Stúlka missir sjónina tveggja ára, tuttugu arum síðar fær hún nýtt auga en með því fylgja óvelkomnar sýnir.

Ég er eiginlega farinn að halda það að einu góðu hryllingsmyndirnar nú til dags komi frá Asíu. Það er hægt að telja endalaust upp: Ringu trílógían, Kairo, Battle Royale, The Eye, Audition… þetta eru allt klassa myndir sem eiga það sameiginlegt að geta hrætt mann, annað en þessar myndir sem streyma frá Bandaríkjunum.

Ég varð fyrst var við The Eye stuttu eftir að ég sá Ringu, það var fyrir löngu síðan og þá sá ég aldrei fram á það að geta náð mér í The Eye þvi að hún hafði aldrei fengið neina DVD útgáfu hér í Evrópu né Bandaríkjunum. Það vill þannig til að ég kann ekki Japönsku/Kínversku þannig að það þýddi ekkert fyrir mig að panta hana. Núna fyrir í febrúar 2002 ákváðu Tartan að skella henni á ágætis DVD útgáfu, með skemmtilegu aukaefni. Fyrir 2000kr getur maður ekki látið þessa mynd framhjá sér fara.

Drauga myndir hafa alltaf verið uppáhalds tegundin mín af hryllingsmyndum, þetta eru einu myndirnar sem geta hrætt mann, og þá á ég ekki við eitthvað í líkingu við Ghost Ship eða þannig myndir heldur virkileg hræðsla, eins og fólk getur séð í Ringu.
Asíubúarnir eru hrikalega öflugir í þessari deild og því má ekki búast við nema því besta frá þeim þegar að hryllingi kemur, þessi mynd er engin unantekning.

Mun missti sjónina tveggja ára og núna þegar hún er tvítug langar henni ekkert meira en að sjá hversu fallegur heimurinn er.
Hún fær nýtt auga, og sér til mikillar hamingju fer hún að sjá aftur. Hún þekkir ekki heiminn nógu vel þannig að hún fer smátt og smátt að læra að sjá.
Loksins getur hún séð sína eigin spegilmynd og fjölskyldu sína… fyrir utan nokkur stykki af draugum. Þannig er það að með nýju auga fékk hún einnig þann einstaka hæfileika að sjá drauga og koma þeir í öllum stærðum og gerðum. Það sem verra er kemst hún að því að spegilmyndin sem hún sér í speglum er ekki hennar.
Ásamt sálfræðingi sínum, sem er yfir sig hrifinn af henni ræðst hún í það að finna hver átti augað og af hverju hún fær ekki frið frá öllu þessu.
Útfrá þessu kynnumst við mjög áhugaverðum karakterum em geta verið vægast sagt skuggalegir.

Draugarnir geta verið vægast sagt óhugnarlegir, sumir eru reyndar saklausari en aðrir, en það er nú bara einusinni þannig að ekki er hægt að slá alltaf í gegn.

Tónlistin hjálpaði mikið til að byggja upp spennuna í hvert skipti sem eitthvað átti að gerast en vandamálið við hana var það að maður vissi þónokkuð vel fyrirfram að eitthvað var á leiðinni. Það sem bjargar þessu þó algerlega er það að myndin er svo gífurlega vel leikstýrð að þrátt fyrir aðvörunina er maður að farast úr hræðslu á köflum.

Leikararnir slá allir í gegn hér, sem kom mér heldur á óvart þar sem mér hefur aldrei fundist leikarar standa sig neitt sérstaklega í þessum geira(þ.e. Asíu-hryllingi). Leikur Angelicu Lee er svo einlægur að maður finnur til með Mun í hvert skipti sem eitthvað bjátar á. Einnig koma Yut Lai So sem Ying Ying og Lawrence Chou sem Dr. Lo sterk inn.

Þessi mynd er öðruvísi en aðrar hryllingsmyndir frá Asíu á þann máta að hún er alls ekki lengi að koma sér af stað heldur er maður við athygli allan tíman.

Andrúmsloftið og vel notaðar tæknibrellur gera þessa mynd að einstökum grip.

***

Azmodan - 22/02/2003