Páskamyndin í ár var stórvirkið Jói Osmósa sem við frúin horfðum á uppi í rúmi með páskaeggið og köttinn við hönd.

Kvikmyndin fjallar um Jóa Osmósu (Chris Rock), hvítt blóðkorn, sem starfar sem lögreglumaður í líkama Frank (Bill Murray) og verndar líkamann gegn illum öflum. Jói á þó ekki sjö dagana sæla hjá lögreglunni og yfirmaður hans er orðinn þreyttur á ýmsu veseni sem hann veldur í líkamanum með þráhyggju sinni fyrir öryggi (og þörfinni fyrir því að fá samfélagslega viðurkenningu). Bill Murray skipar hér líka stórt hlutverk sem aðalhlutverk og "staðsetning" myndarinnar og túlkar hina ýmsu líkamlegu kvilla með miklum hæfileikum.

Dag einn eftir að hafa borðað egg með majónesi og salti sem hafði rifið úr skolti simpansa og tekið upp af skítugri jörðinni í dýragarðsstíu veikist Frank af vírus sem er kallaður Rauði Dauðinn (La Muerte Roja) eða Thrax (Laurence Fishburne) sem fer að valda ýmsu tjóni í líkama Franks. Frank tekur þá inn lyfið Drix (David Hyde Pierce) til þess að reyna að ráða niðurlögum skúrksins. Kid Rock fer líka með stórleik sem Nýrnasteinninn (Kidney Rock) á skemmtistað nokkrum. Óhætt er að segja að áhorfendur þurfa að halda fast í afturendann á sér til þess að komast í gegnum myndina því spennan er yfirþyrmandi. Mun Thrax ná að kála karlinum eða nær Drix að bjarga deginum? 

Þessi löggu-félaga (buddy-cop) ber óneitanlega keim togstreitu félaganna Murtaugh og Riggs úr Lethal Weapon seríunni þar sem tveir nýjir félagar í lögreglunni þurfa að greiða úr erjum sín á milli og vinna saman til að geta ráðið niðurlögum glæpamanna. Þetta er í raun að miklu leiti Lethal Weapon nema inni í mannslíkamanum.

Kannski er mögulegt að rýna á milli línanna og ráða úr myndinni and-kommúnískan boðskap þar sem Rauða Hættan gerir atlögu til innrásar inn í bóksaflegt líf saklausra Bandarískra ríkisborgara. Þessi Rauða Hætta er illskan holdgerð og vill manninum ekkert nema illt. Þarna er hugmyndin um hugmyndafræðilega faraldur kommúnismans líka skýrt settur fram sem raunverulegur sjúkdómur sem stekkur manna á milli og skaðar þá - sambærilegt við Dómínó-kenninguna um útbreiðslu kommúnismans seinnihluta 20.aldarinnar. Í myndinni Osmósu Jóa er þessari Rauðu Ógn þó örugglega komið fyrir kattarnef með hjálpar lyfjiðnaðarins (Big Pharma), líkamlegum yfirburðum og hjartnæmni Bandaríkjamanna.

Boðskapur myndarinnar er að hjartnæmur og marglaga. Verum öll vinir og vinnum saman og borðum hollan mat! Myndin fær aðeins 6.3 í einkunn á IMDB en við frúin gefum henni 7 fyrir hárbeitta pólitíska umræðu og líffræðilegan fróðleik. Myndin hefði mátt vera lengri.

Áhugamaður um alvarleg málefni.