Stigagjöfin er fljótafgreidd af minni hálfu - fullt hús!

Frábær mynd í alla staði og æðisleg upplifun að sjá hana í bíó. Ég mæli með fyrir alla að drífa sig og sjá myndina á breiðu tjaldi og bíóhljóði, því öll tæknivinnsla, hljóð og mynd er í hæsta klassa.

Ævintýri eru auðveldustu bækur til að varpa yfir í handrit (kanski fyrir utan reyfara) og það tekst vel. Það er fátt sem ég sakna úr bókinni, sögupersónur vel skapaðar, þótt gallar ævintýrsins fylgi sögunni yfir í handritið, en þeir skemma ekki myndina frekar en bókina áður. Sagan er heillandi og ævintýraheimurinn pottþéttur.

Mikill metnaður lagður í myndatökur og passað uppá að gleyma sér ekki í kranaskotum og öðru tækjadrasli. Jafn mikil áhersla lögð á að mynda börnin fallega, enska herragarðinn, Narníu jafnt að vetri sem á sumri, tölvugrafík, leikmynd, búningar og förðun eins gott og það gerist.

Hljóðvinnsla og tónlist var góð, allavega þ.a. ekki fór í taugarnar á mér, en ég viðurkenni þó að vera ofurlítið dofinn á því sviði, það þarf að klúðra svolítið stórt eða brillera feitt þar til að koma mér úr jafnvægi…

Leikarar voru frábærir og talsetningin góð, ef eitthvað fór í taugarnar á mér var það helst eldri systirin stundum og litlu aulabrandararnir voru stundum einum of, en auðvitað var einhverju af þeim beint til yngri áhorfenda en mín.

Liam Neeson gaf James Earl Jones lítið eftir sem rödd ljónakonungsins og það kom mér á óvart hversu vel sá karakter í heild sinni kom út. Vel hefur tekist að skapa þessa lykilpersónu myndarinnar, með útlit og vald ljónsins, tilfinningar og persónuleika mannsins og miklar tengingar við kristni trúarlega skýrskotun.

Nornin var vel túlkuð, stundum á mörkunum með að vera of augljóst flagð í upphafi og jafnvel ekki nógu ill þegar á reyndi, en þegar leið á myndina kom hún sterkar inn og var frábær í stríðinu.

Ameríkönun á endinum var stillt í hóf, þótt væmnin væri aðeins farin að valda mér velgju, en þó ekki svo mikið að það skemmdi myndina.

Ég hef trú á því að fleiri af Narníubókunum verði festar á filmu í kjölfarið, ein er komin en sex bíða þess að komast á tjald. Ekki myndi ég syrgja að fara á nýja Narníumynd næstu 6 jól - gæti varla hugsað mér betri jólahefð :O)

massi