Transformers (2007) Þegar ég las á imdb.com fyrir allmörgum mánuðum að Michael Bay væri að klára Transformers, sínu nýjustu kvikmynd, hvarflaði að mér hvað í ósköpunum þetta nú væri. Ég hafði aldrei séð þátt af Transformers-teiknimyndaseríunni, ég hafði aldrei átt Transfomers-kall og nöfn eins og Optimus Prime, Bumblebee og Megatron höfðu aldrei stigið fæti inn í heilabú mitt þannig ég hugsaði ekki meira um þessa furðulegu Transformers-mynd í bili. Stuttu síðar tók annar teaserinn fyrir myndina tók að skjóta upp kollinum á netinu og nú var tækifærið til að sjá hvað þetta dæmi snerist um. Í stuttu máli sagt var þetta svalasti teaser sem ég hafði nokkru sinni séð, held að ég hafi horft á hann svona 86 sinnum og frá því augnabliki snerist líf mitt aðeins um eitt; Að sjá Transformers. Eftir nokkurra vikna örvæntingarfulla bið frétti ég af forsýningu á henni, brunaði niður í Kringlu til að tryggja mér miða og daginn eftir var stóra stundin runnin upp. Mætti hálftíma fyrr í bíóið og settist spenntur í sætið..

Myndin byrjar með rödd sem malar um tening og stríð milli tveggja vélmennahópa og þarf vart að taka fram að ég skildi ekkert hvað var að gerast. Eftir smá ræðu hans hefst myndin síðan fyrir alvöru, með texta á skjánum sem tilkynnir að við séum stödd í Qatar – The Middle East.. Bara fyrir þessa sem að vissu það ekki. Við kynnumst nokkrum hermönnum sem þar eru staddir, þá helst honum Kaptein Lennox og félögum hans. Kvöld eitt kemur fljúgandi inn í lofthelgi bandaríkjahers á svæðinu mjög svo dularfull þyrla sem á eftir að umturna lífi hermannanna því þarna er á ferðinni Umbreytingur! Þyrlunni, eða flugmanni hennar, er skipað að lenda og þá fara hlutirnir að gerast. Þyrlan breytist á nokkrum sekúndum í vélmenni sem rústar herstöðinni og nokkrum risaþotum á augabragði. Þessi byrjun fannst mér verðskulda smá lýsingu því mér finnst hún bara svo djöfull flott. Framhaldið er síðan alkunnt.

Til að skrifa Transformers fékk Bay til liðs við sig sömu handritshöfunda og skrifuðu næstsíðustu mynd hans, The Island, þá Alex Kurtzman og Roberto Orci en þeir eru þessa stundina að vinna á fullu í Star Trek. Eftir að hafa horft uppá línurnar í Armageddon, Pearl Harbor og Bad Boys II voru þetta góðar fréttir því The Island var vel skrifuð hjá þeim félögum og gaf í skyn nýja tíma hjá Michael Bay því handritin í áðurnefndum myndum voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þótt handritið sem þeir skrifuðu fyrir Transformers sé ekkert að fara að fá Óskarinn tekst þeim alveg þokkalega upp og sleppa svona næstum því öllu I-love-America dæmi þó svo að einstaka línur læðist svona inná milli eins og “I’d do what he says.. Losing’s really not an option for these guys”. Þetta segir varnarmálaráðherrann, leikinn af Jon Voight, við snarbilaðan ríkisstarfsmann háleynilegrar stofnunar leikinn af John Turturro þegar Kapteinn Lennox mundar byssu sína. Bestu línurnar í myndinni falla í skaut Shia LaBeouf og virðist hann hafa fengið meiri aðhlynningu frá Orci og Kurtzman en hinar persónur myndarinnar og þá sérstaklega Megan Fox sem er bara frekar asnaleg eitthvað.. Samt flott.

Þegar Michael Bay gerir kvikmynd þá er ekkert hálfkák, það er bara farið alla leið. Svo, vopnaður 150 milljónum dollara og óbilandi sjálfstrausti fékk hann varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna til liðs við sig í stærsta kvikmyndaverkefni þess síðan Black Hawk Down var gerð. Það er ekki að ástæðulausu að umrætt ráðuneyti starfar með Bay þegar hann vill. Flugvélar, þyrlur og allar þeirra græjur eru í sínu fínasta pússi í myndunum hans og það er vel passað að setja réttu tónlistina undir í þessum atriðum svona rétt til þess að boosta þjóðarstoltið. Einu sinni pirraði ég mig þvílíkt á svona dæmi en ég nenni því varla lengur, þetta er bara eitthvað sem hefur alltaf fylgt Bay og mun alltaf gera. He’s a great American!

Keyrslan í myndinni er náttúrulega geðveiki og það er ekki dauður punktur í myndinni enda er unun að fylgjast með Umbreytingunum. Þó er það einn sem fer soldið í taugarnar á mér og það er þessi litli í forsetaflugvélinni sem talar eins og api. Hinir heppnast fullkomnlega enda eru þessar tæknibrellur magnaðar. Við fylgjumst síðan með vélmennaslagsmálum jafnt og þétt út myndina en þessi slagsmál ná hámarki síðustu 30 mínútur myndarinnar en þær mínútur eru svo uppfullar af sprengingum, flugvélum, vélmennum, öskrandi fólki, fljúgandi bílum og Michael Bay-nessi að það jaðrar við yfirnáttúruleika. Skítt með söguþráðinn, þessi bíll verður að springa! Þessi hasaratriði líta samt svo vel út að maður getur ekki annað en hrifist aðeins af þeim og það er víst það sem Michael Bay stendur fyrir…