Breach (2007) * * * * Drama / Spennutryllir

Leikstjóri: Billy Ray
Handrit: Billy Ray, Adam Mazer, William Rotko
Aðalhlutverk: Chris Cooper, Ryan Phillippe, Dennis Haysbert, Caroline Dhavernas, Gary Cole
Tónlist: Mychael Danna
Kvikmyndataka: Tak Fujimoto

Tungumál/Land: Enska/Bandaríkin
Lengd: 110
Aldurstakmark: 12

_________________________________________________

Breach er byggð á sönnum atburðum og segir frá ungum og efnilegum FBI fulltrúa, Eric O’Neill sem er falið það hlutverk að njósna um yfirmann sinn, Robert Hansen, fulltrúi sem að lokum, var fundin sekur um að hafa selt Sovíet ríkjunum hernaðar leyndarmál í yfir 20 ár.

_________________________________________________

Breach er nýjasta kvikmynd Billy Ray en hann hafði einungis leikstýrt einni mynd áður og var það kvikmyndin Shattered Glass frá árinu 2003. Ray hefur þó einnig skrifað nokkur handrit og má þar kannski fyrst og fremst nefna Flightplan og Hart’s War. Þessi önnur tilraun Ray í hlutverki leikstjóra er virkilega vel heppnuð og er myndin jafnvel betri en fyrri mynd hans, Shattered Glass, og er þá mikið sagt. Breach, sem byggð er á sönnum atburðum, er frábær skemmtun og er hún í þokkabót, að mestu leiti, mjög nákvæm frásögn af hinum raunverulegu atburðum.

Breach er nokkuð rólegur pólitískur spennutryllir með gríðarlega öflugt handrit og hreint út sagt frábærum leikurum. Öll vinnsla á bak við myndina, frá kvikmyndatöku og tónlist yfir í frammistöðu leikara er gríðarlega vel og fagmannlega unnin og gefur það myndinni fína áferð. Þótt að sagan og hugmyndin sé hentug fyrir stóra tjaldið þá er það fyrst og fremst frammistaða leikhópsins sem heldur henni á floti og gerir hana jafn áhugaverða og skemmtilega og hún í raun og veru er.

Chris Cooper, sem fer með hlutverk föðurlandssvikarans Robert Hansen, er magnaður í myndinni. Frammistaða hans gæti vel orðið sú fyrsta á árinu sem hægt er að tengja við óskarsverðlaunatilnefningu enda fer hann hér algjörlega á kostum. Þótt að Cooper eigi bestu frammistöðuna í myndinni þá má ekkert taka frá öðrum aðalhlutverkum og þá má sérstaklega nefna Ryan Phillippe, sem fer með hlutverk FBI fulltrúans unga, og Caroline Dhavernas sem leikur áhyggjufulla eiginkonu hans.

Einn helsti kostur Breach er hvernig henni tekst að fanga hugsun og siðferði skúrksins og sýna hans heim. Chris Cooper, sem leikur skúrkinn sjálfan, tekst svo með afbragðs frammistöðu að gera hið ómögulega eða að fá áhorfandann til þess að finna til með þessum snúna föðurlandssvikara. Í raun má segja að helsta vandamál myndarinnar er að sagan er sögð frá sjónarhorni Eric O’Neill (Ryan Phillippe) og fær áhorfandinn því ekki að kynnast sögu Hansen (Chris Cooper) eins vel og ákjósanlegt væri. Það má segja að þegar að myndinni líkur þá langar áhorfandanum að sjá meira af lífi Hansen og sambandi hans við konu sína og kirkjuna, brengluðu kynferði hans og njósnum hans fyrir rússana.

Einnig er vert að hrósa kvikmyndatökumanninum Tak Fujimoto sem tekur myndina upp í sama þráa stílnum og hann gerði ,,Silence of the Lambs” í.

Chris Cooper er ástæðan fyrir því að þú ættir að sjá þessa mynd fyrst og fremst. En einnig er þetta áhugavert, dramatískt og vel útfært ævintýri sem sýnir þér hugarfar eins alræmdasta njósnara sem Bandaríkin hafa þurft að kljást við. Þegar myndin endar höfum við ekki virkilega náð að kynnast Hansen, sem eru viss vonbrigði en um er þó að ræða skemmtilegan tryllir sem ætti að kæta flesta alvöru aðdáendur. Breach skortir vissan metnað, en hún er þó bæði sannfærandi og snjöll.

* * * * /5

-TheGreatOne