Babel (2006) * * * * * Babel er flókin frásögn sem segir frá fjórum sögum sem tengjast allar hvor öðrum. Fátækir bændasynir í Morokkó komast yfir riffil og skjóta og særa Bandaríska konu. Á meðan eiginmaður konunnar berst fyrir lífi hennar og gerir það sem hann getur til að fá hjálp fer Mexíkanska ráðskona þeirra hjónanna með börnin þeirra yfir landamærin til að sækja brúðkaup sonar síns í Mexíkó. Að lokum reynir daufdumb Japönsk telpa hvað sem hún getur til að mynda tilfinningaleg tengsl.


_________________________________________________

Leikstjóri myndarinnar, Alejandro González Iñárritu, er snillingurinn á bak við myndirnar Amores Perros frá árinu 2000 og 21 Grams frá 2003. Báðar þessar myndir voru afskaplega góðar og Babel er, sem betur fer, hvergi síðri. Myndirnar þrjár eru allar svipaðar að því leiti að þær segja frá mismunandi sögum á svipaðan hátt. 21 Grams var þó t.d. talsvert flóknari í frásögn sinni en Babel, en í báðum myndunum eru sögurnar sterkar, áhugaverðar og gífurlega vel skrifaðar. Hver saga hefur svo sinn eigin stíl og er myndataka, litatónn og hljóð mismunandi á milli saga. Myndinni tekst svo á frábæran hátt að tvinna þessar sögur saman án þess að þær verði leiðigjarnar eða of mikill bræðingur. Þær tengjast allar nógu mikið til að halda manni áhugasömum og búa yfir þó nokkrum fléttum en eru þó aldrei það þungar eða flóknar að erfitt er að fylgjast með. Flæði myndarinnar er einfaldlega gífurlega gott.

Þema myndarinnar er fyrst og fremst samskipti á milli tungumála, eins og titill myndarinnar gefur til kynna. Babel á að vera staðurinn þar sem Drottinn ruglaði tungumál manna og dreifði þeim um jörðina. Myndin tekur á þessu þema á áhugaverðan og skemmtilegan hátt og er varla hægt að kvarta.

Brad Pitt og Cate Blanchett, sem eru án vafa stórstjörnur myndarinnar, skila sínu feykivel en eru þó ekki meira í sviðsljósinu en aðrir leikarar myndarinnar sem allir standa sig gríðarlega vel. Má m.a. minnast á Gael García Bernal sem stendur sig einstaklega vel í sínu hlutverki. Það er þó Rinku Kikuchi sem stelur hér senunni sem hin einmanna, daufdumba stelpa Chieko.

Myndin fjallar svo aðallega um mannleg mistök og þær afleiðingar sem þau hafa. Myndin er gríðarlega vel gerð í alla staði og hefur mikið listrænt gildi sem kvikmynd og stafar það ekki síður af frábæru handriti og stórkostlegum leik leikara myndarinnar.

Maður veltir því gjarnan fyrir sér hvað hefði gerst ef Babel hefði komið út sama ár og Crash, en það verður að segjast að Babel er allt sem Crash var ekki. Babel ber saman andstæður með gífurlega mikilli viðkvæmni og hæfni. Myndin gefur óvæmna og samúðarfulla innsýn inn í líf þeirra ólíkra einstaklinga sem Babel segir frá.

* * * * * /5

-TheGreatOne