5 Bestu Alfred Hitchcock Kvikmyndirnar Bestu Hitchcock Myndirnar


ATH: Um er að ræða mitt persónulega álit og því vonast ég til að fá allt skítkast handskrifað í pósti.

Alfred Hitchcock, meistari spennumyndanna, stendur að baki tugi frábærra kvikmynda. Það er því ekkert auðvelt verkefni að þurfa að velja þær 5 bestu. En eftir margar klukkustundir af sjónvarpsglápi og hugleiðslu hef ég þó komist að niðurstöðu. Þetta eru mínar 5 uppáhalds Hitchcock myndir:

5. Rope
Fyrsta litmynd Hitchcock’s er einnig ein af hans bestu. Söguþráðurinn er spennandi og grimmur, leikarar á borð við James Stewart, John Dall og Joan Chandler slá algjörlega í gegn með frábærri frammistöðu og handritið er frábærlega vel skrifað. Myndin, sem var tekin upp í 10 skotum, gerist á rauntíma og gefur það henni gott flæði. Myndin er nánast öll samtöl en það dregur þó hvorki úr spennunni né skemmtuninni. Samtölin eru frábærlega skrifuð og útfærð vel af leikurum myndarinnar. Rope er einn af gimsteinum Hitchcock og enginn alvöru aðdáandi getur látið hana framhjá sér fara.

4. Vertigo
Annar Hitchcock smellur með James Stewart í fararbroddi, Vertigo er ein af betri myndum fyrri tíma. Þrátt fyrir að flokkast að mörgu leiti undir ástar og einkaspæjara sögu þá fylgir myndin nýrri formúlu og eru margar nýjungar hér að finna sem notaðar hafa verið oft síðan. Hitchcock var svo sannarlega brautryðjandi í nýjum og ferskum hugmyndum, hvort sem það var í formi handrits eða kvikmyndatöku og er Vertigo svo sannarlega dæmi um þá snilligáfu sem maðurinn hafði.

3. Psycho
Og þá að myndinni sem allir þekkja. Eitt frægasta og jafnframt óhugarlegasta kvikmynda atriði sögunnar má finna í einni af Hitchcock’s allra fínustu spennumyndum. Hitchcock tók hana meira að segja upp í svarthvítu þar sem hann taldi hann vera of blóðuga fyrir lit. Eitt af því allra besta við myndina er hvernig aðal illmennið, Norman Bates, er ekki geðbilaður, ómannlegur og blóðugur morðingi. Heldur er hann óhugnalegur, óstöðugur og slóttugur. Má að mörgu leiti þakka Anthony Perkin’s þetta en hann fer með hlutverk Norman Bates í myndinni. Þökk sé frammistöðu Perkin’s, sem gefur gæsahúð, og frábærs handrit er Psycho ein vinsælasta hrollvekja allra tíma. Alfred Hitchcock gerði fá mistök, og í Psycho gerði hann engin.

2. Rear Window
Rear Window er ein vandaðasta framleiðsla Hitchcock og er hún einnig ein af hans sniðugustu myndum enda handrit John Michael Hayes frábærlega skemmtilegt. Tæknilegu afrek myndarinnar væru þó lítið án skemmtilegra karaktera og leikara. Allar persónur myndarinnar eru kynntar gríðarlega vel og eru þær allar ótrúlega áhugaverðar, jafnt sem restin af myndinni. James Stewart og Grace Kelly eru hreint og beint frábær og eru þetta með þeirra betri hlutverkum. Rear Window er ein mest spennandi mynd Hitchcock, jafnvel allra tíma, og er það sjaldséð að aðrar myndir gera betur.

1. North by Northwest
North by Northwest er ekki tæknilegt eða listrænt meistaraverk eins og m.a. Vertigo og Rear Window en hún er þó sennilega hans skemmtilegasta mynd til þessa. Myndina mætti kalla samansafn af mörgum eldri nýjungum og frumlegheitum Hitchcock og þrátt fyrir að sumir hlutar myndarinnar líkjast óttalega sumum af hans eldri, þá er hún samt fersk, fjörug, spennandi og síðast en ekki síst, fyndin. Þessi gamansama spennumynd tekst á frábæran hátt að halda sér spennandi og broslegri á sama tíma og er hárrétt jafnvægi þar á milli. Myndin væri þó lítið án góðrar frammistöðu leikaranna og fara Cary Grant, Eva Marie Saint, James Mason og fleiri algjörlega á kostum. North by Northwest er ekki endilega minnisstæðust fyrir tæknileg eða listræn afrek, en hún er þó sennilega sú sem skemmtilegast er að horfa á. Hversu margar nútímaspennumyndir eiga eftir að vera það eftir 40 ár?


-TheGreatOne