Ríðingar og rassaskot! Var einhver búinn að skrifa um myndina Ríddu mér? Myndin kemur bráðum á myndbandi og ég á til með að segja ykkur frá því þegar ég sá hana í bíó því það að þetta var kostulegasta bíóferð ársins. Ég fór semsagt á Baise-moi og einhverra hluta vegna fór ég strax eftir vinnu á mánudegi klukkan sex. Það var ekkert sérstaklega góð hugmynd að fara á mánudegi klukkan sex því allir sem fara í bíó á mánudegi klukkan sex vilja helst vera einir í bíó, sérstaklega á grófustu mynd sem sem sýnd hefur verið í íslensku kvikmyndahúsi.

Í salnum sátu um það bil 30 karlmenn á aldrinum 30-70 ára. Allir sátu einir. Við komum tvær í salinn og fyrir framan okkur sátu einnig tvær ungar konur, en ég held að ein þeirra sé gagnrýnandi fyrir Morgunblaðið. Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast en mér fannst myndin flott. Maður verður náttúrulega svolítið var um sig þegar stendur í Mogganum “Myndin er stranglega bönnuð innan 16 ára vegna ofbeldis og grófra kynlífsatriða og verður sérstakur dyravörður við salinn og spyr um skilríki.”

Baise moi þýðir í raun nauðgaðu mér og þetta er ekki eiginleg klámmynd eins og svo margir halda. Þetta er ljóðræn, tónvæn, hörð, feminísk ádeila gerð eftir skáldsögu hinnar 27 ára gömlu Virginie Despentes.

Það sem kom mér einna helst á óvart var að ofbeldið fór meira fyrir brjóstið á mér en kynlífið. Hljóðsetningin var þannig að maður trúði því í einlægni sinni að væri verið að stappa á andliti, kýla út tennur og skjóta upp í rassgat. Hollívúddhljóð er hálfvitalegt miðað við þetta. En persónulega fannst mér vera of mörg tippi í myndinni. Boðskapurinn hefði alveg geta komist til skila með minna klámi.

Myndin fjallar sem sagt um tvær konur sem fá nóg!! Ein er vændiskona og hin er lítil þunglynd stelpa sem drepur “óvart” bróður sinn eftir að hafa verið nauðgað af kunningjum. Þær lenda í hringiðu ofbeldis og drepa alla sem þær þurfa að drepa en ríða öllum sem þær vilja ríða. Kynlíf er eina athöfnin sem fær þær til að gleyma hvar þær standa í lífinu og þeim líður vel þegar þær eru að. Kynlíf róar þær meðan heimurinn leitar þeirra. Ef það væri ekki svona mörg tippi væri þetta hin fínasta Nikitamynd fyrir alla feminista veraldar.

Sumir segja list, sumir segja óþverri og sumir segja aaaahhh!!! Flestir í salnum með okkur þennan mánudagseftirmiðdag sögðu aaaahhh!!!

Í hléi voru síðan bara sýndar skjáauglýsingar frá exxxx.is, Goldfinger, Pen.is og fleiri kynlífsbúðum og það var svolítið óþægilegt að sitja þarna í ljósinu ásamt öllum þessum karlmönnum og skoða víbradora auglýsingar. Svo þegar myndin er búin göngum við út og þegar við erum komnar upp á Laugaveginn snúa tveir karlmenn sér við fyrir framan okkur og spyrja: “Jæja stelpur, hvernig fannst ykkur?” [Ha? Já, fínt. Gaman, takk.] Svo göngum við áfram og 200 metrum seinna stoppar frekar drukkin kona okkur og biður okkur um klink. Við eigum bara kort og löbbum áfram en þá kallar hún á eftir okkur:” Stelpur….eru þið búnar að sjá dónamyndina sem er í bíó? Er hún góð?” [Bíddu…..erum við með “afterglow” eða eitthvað….??] Myndir var flott og mæli ég með henni þegar hún kemur út á myndbandi!